08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2675 í B-deild Alþingistíðinda. (2534)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta mál lagði ég ýmsar spurningar fyrir formann n., sem var hér 1. flm. fyrir hennar hönd, 1. þm. Vestf. Þeim spurningum hefur ekki verið svarað. Hv. 1. þm. Vestf. var 1. flm. m. a. fyrir brtt. sem n. flutti (MB: Hann var frsm. nefndar.) og virðist lítið hafa batnað hans geð frá í gær er hann yfirgaf þingsali undir spurningum um þetta mál.

Ég ætla að byrja á því að víkja hér nokkuð að þeirri umr. sem kennd hefur verið við sættir. Því hefur verið haldið fram að þetta frv. sé sáttamál. Þetta er mjög í andstöðu við það sem 1. flm. málsins hefur haldið fram. Hann hefur talað um áfangasigur, að þetta sé skref í áttina. Ef verið er að tala um sættir er verið að tala um að menn hafi náð samkomulagi um ákveðna hluti sem séu þá varanlegir. Það kemur hvergi fram annað en að stefnt sé að því að steypa þessu samkomulagi jafnfljótt og hugsanlegt er að þingfylgi verði til þess og trúlega mundi hagur þeirra sem þannig hugsa vænkast eftir þá breytingu sem hér er verið að leggja til. Í þeim áfangasigri er talað um að markmiðið sé fullur jöfnuður og að ekkert tillit eigi að taka til stærðar kjördæmanna og þess lands sem hvert kjördæmi hefur.

Ég vil í þessu máli einnig minnast á málflutning 9. þm. Reykv. Það vill nú svo til, að 9. þm. Reykv. var búsettur vestur á fjörðum og ég hygg að ég sé ekki einn um að hafa hlustað á hans málflutning varðandi byggðastefnu og byggðamál. Satt best að segja hlýtur hver að undrast sem hlýðir á hans mál. Hann hefur barið á einu atriði, jöfnu vægi atkvæða, og hann hefur borið þeim aðilum á brýn, sem hafa verið á annarri skoðun, að þeir væru að brjóta mannréttindi, þetta væri brot á lýðræðinu, mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna væri brotinn og þaðan af verra.

Nú hlýtur það að vera umhugsunarefni hvort hv. 9. þm. Reykv. er með þessum málflutningi sínum að halda því fram að gamalgrónar lýðræðisþjóðir Evrópu séu raunverulega ekki lýðræðisþjóðir. M. a. liggur það ljóst fyrir að Bandaríkin, sem eru nú elsta lýðræðisþjóðin, eru ekki lýðræðisþjóð að dómi þessa þm. En við skulum ekki fara svo langt. Við skulum láta okkur nægja að fara til Danmerkur.

Það vill svo til að Danir eru með stjórnarskrá í litlu og þéttbyggðu landi, sem gleymir því engu að síður ekki að það þarf að reyna að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Ég lét dreifa hér á borð til þm. upplýsingum um hvernig staðið væri að þingkosningum í Danmörku. Fremst á því blaði eru útreikningar á því hvernig þær kosningar kæmu út hér á landi, ef dönsku lögin giltu. Ég hef ekki verið að leggja til að þau yrðu notuð óbreytt, en hitt er fróðlegt að hugleiða, hvernig staðan yrði ef dönsku lögin giltu.

Í Danmörku eru það þrjú atriði sem lögð eru til grundvallar um það, hversu marga þm. hvert kjördæmi á að fá. Í fyrsta lagi er það fjöldi íbúa kjördæmisins. Fjöldi íbúanna þarf ekki að vera sá sami og fjöldi kjósenda. Þar kemur vissulega inn í hvort mikið er af börnum í viðkomandi kjördæmum.

Í annan stað er það fjöldi kjósenda og í þriðja lagi fær hver ferkm. lands 20 atkv. — og þetta er í hinu þéttbyggða landi, Danmörku. Danir komu þeirri reglu inn eftir seinustu aldamót að þetta yrði upp tekið. Þetta er raunverulega ákvörðun þeirra um að það skuli ekki breyta Danmörku í sambandslýðveldi, heldur skuli með þessari aðferð farið út í að tryggja rétt hinna dreifðu byggða til mótvægis gegn því mikla valdi sem hlýtur að safnast saman þar sem höfuðstöðvarnar eru.

Ef við rennum yfir þetta hér á Íslandi, hver væri niðurstaðan með danska kerfinu, kemur ýmislegt í ljós sem ég hygg að verði til að mörgum bregði í brún. Ef við miðum við að þm. séu 60 yrði niðurstaðan þessi: Reykjavík fengi 4 þm., Reykjanes fengi 3, Vesturland fengi 5, Vestfirðir 5, Norðurl. v. 7, Norðurl. e. 12, Austurland 11, Suðurland 13 eða samtals 60 þm. Ef við setjum þetta upp í kerfi hinna fornu fjórðunga koma fram athyglisverðir hlutir.

Í fyrsta lagi blasir við að Sunnlendingafjórðungur fengi 20 þingsæti, Vestfirðingafjórðungur fengi 10, Norðlendingafjórðungur fengi 19 og Austfirðingafjórðungur fengi 11. Þetta leiðir hugann að því að sjálfstætt ríki verður ekki til án þess að þar sé bæði um að ræða land og fólk. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa hér upp úr bókinni Stjórnskipun Íslands stuttan útdrátt á bls. 17, þar sem vikið er að þessum orðum. Það er athyglisvert, herra forseti, að bókin heitir ekki „Stjórnskipun Íslendinga“, heldur Stjórnskipun Íslands. Á þessu er nefnilega meginmunur. Með leyfi forseta hljóðar þá textinn svo:

„Ríki er mannlegt samfélag, er hefur varanleg yfirráð yfir tilteknu landssvæði, býr við lögbundið skipulag og lýtur stjórn, er sækir vald sitt til samfélagsins sjálfs en eigi til annarra ríkja, enda fari sú stjórn með æðsta vald í landinu, óháð valdhöfum annarra ríkja, að öðru en því, er leiðir af reglum þjóðaréttar.

Samkvæmt þessari skilgreiningu eru fjögur grundvallaratriði óhjákvæmilegar forsendur fyrir tilvist ríkis, þ. e. a. s. fólk, land, lögbundið skipulag og stjórnarfarslegt sjálfstæði. Vanti eitthvert þessara meginatriða, er ekki um ríki að ræða. Er það auðsætt og þarfnast ekki langra skýringa.“

Danir gera sér grein fyrir því að landið skiptir þá máli og því ætla þeir þm. að vera hagsmunagæslumenn ákveðinna landssvæða. Hér á Íslandi virðist sem landið hafi nánast gleymst. Formenn stjórnmálaflokkanna hafa komist að samkomulagi um að breyta stjórnarskránni á þann veg sem þeir telja að sé hagkvæmast fyrir þá sem stjórnendur viðkomandi stjórnmálaflokka. Markmið er ekki einu sinni að hver þingflokkur fái þingmannatölu í samræmi við heildaratkvæðatölu sína, ef einhverjum hefur dottið í hug að það væri kjarninn sem verið væri að leggja til. Ég vek athygli á því, að við nafnakall í deildinni var felldur hér c-liður í brtt. frá Jóni Baldvin Hannibalssyni, þar sem lögð er höfuðáhersla á að við úthlutun þingsæta samkv. kosningaúrslitum skyldi þess gætt að hver þingflokkur fengi þingmannatölu í samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þetta var ekki markmiðið.

Sannleikurinn er sá, að það var sest niður og gert samkomulag um valdskiptingu í landinu. Það er ekki tekin afstaða til landsins í því sambandi. Það er ekki tekin afstaða til fólksins. Það er aðeins tekin afstaða til fjórflokkakerfis sem er við lýði í dag. Hvern og einn sem telur að þessir menn geti á skyndifundum í önn dagsins afgreitt jafnstórt mál og hér er um að ræða og komist að viturlegri niðurstöðu en þjóð sem hefur um aldir varið sitt sjálfstæði og haldið og telur að það þurfi að gæta hagsmuna landsins spyr ég: Er þá Danmörk ekki lýðræðisland? Hv. 9. þm. Reykv. Það væri fróðlegt að fá svar við því. Það fer nefnilega að vera dálítið einkennilegt ef það reynist nauðsyn hjá hv. 9. þm. Reykv. að fara í endurhæfingu vestur á firði til þess að hann kannist aftur við stóran hluta af þeim skoðunum sem hann þar prédikaði bæði á framboðsfundum og eins sem fulltrúi í bæjarstjórn Ísafjarðar. Ég get út af fyrir sig vel skilið að hann telji að í stöðunni í dag sé auðveldara að skipta um skoðanir, auðveldara að halda því fram að aðalatriðið sé að vægi atkv. skuli vera jafnt og jafnframt að halda því fram með því móti að lýðræðisþjóðirnar í kringum okkur séu ekki lýðræðisþjóðir.

Þá er rétt að víkja að þætti fjölmiðla í þessu máli. Hvað hafa fjölmiðlar gert? Hvað hefur Ríkisútvarpið gert? Hvað hefur sjónvarpið gert? Hafa þeir, þessir fjölmiðlar, farið í að kynna á hlutlausan hátt hvernig þessum málum er hagað í nágrannalöndum okkar? Hafa þeir gert grein fyrir því hvernig danska stjórnarskráin tekur á þessu máli? Ég segi nei. Það hefur engin upplýsingafræðsla, engin fræðsla, verið í þessum fjölmiðlum. Þar hefur aðeins glumið áróður — áróður fyrst og fremst á annan veginn. Maður skyldi halda að það sem gerðist með hv. 9. þm. Reykv. flokkaðist til hreinna undantekninga, að hann skyldi fara frá hinu mikla mannréttindasvæði, Vestfjörðum, og hingað suður, þar sem mannréttindin eru fótum troðin og hann fær aðeins brot af þeim rétti sem hann hafði á hinum staðnum. Er þetta flóttamaður og undan hverju lagði hann á flótta? Það hlýtur að vera athyglisvert ef menn flýja frá mannréttindasvæðum. Hafið þið heyrt það úr útvarpinu að menn hafi verið að flýja þaðan sem mannréttindin eru mest í heiminum til þeirra staða þar sem skortur er á mannréttindum? Ég hef ekki orðið var við þann fréttaflutning. Hvað er eiginlega að gerast?

Hér er á ferðinni falsspámaður sem boðar með falsrökum villukenningar, sagnfræðilegar villukenningar og einnig nútímalegar villukenningar, um ástandið í löndunum í kringum okkur. Það eru hreinar lygar sem eru hans vopnaburður á þessu sviði. Það er auvirðilegt hlutskipti, ég segi ekki annað. Og það verður þeim mun kátbroslegra sem skoðuð er sagan og farið er yfir það af mönnum sem muna hverju hv. þm. hélt fram á sínum tíma, þegar hann var í framboði vestur á fjörðum og einnig þegar hann var í sveitarstjórn vestur á fjörðum.

Hv. 9. þm. gat þess í ræðu sinni að það væri illt verk að etja saman dreifbýli og þéttbýli. Hverjir eru að etja saman dreifbýli og þéttbýli ef það eru ekki þeir aðilar sem þegja yfir þeim staðreyndum sem þeir vita í þessu máli og þyrla upp moldryki? Hverjir eru ekki að etja saman dreifbýli og þéttbýli? Ég hef ekki orðið var við að nokkur maður legði því máli jafndyggilega lið og hv. 9. þm. Reykv. að etja saman dreifbýli og þéttbýli á Íslandi.

Það hlýtur að vera spurning hvort það fái staðist að allt það tímabil sem jafnaðarmenn voru við völd í Danmörku hafi þeir fótumtroðið mannréttindi. Er það tilfellið? Voru mannréttindin fótumtroðin allan þann tíma vegna þess að þeir veittu landinu rétt og töldu að það væri eðlilegt að fulltrúatala á Alþingi tæki einnig tillit til stærðar kjördæmanna. Hvað kemur til að hv. 9. þm. Reykv. þegir yfir þessu afbroti? Það er furðulegt að menn geti orðið slíkir skynskiptingar á því einu að skipta um kjördæmi.

Hverjar eru þá meginreglurnar sem hafa gilt í flestum lýðræðislöndum heims, ef við förum að skoða þetta og meta staðreyndirnar? Ef löndin hafa verið mjög stór hefur meginreglan verið sú, að þau hafa orðið að sambandslýðveldum. Og hvers vegna? Það hlýtur að vera næsta spurningin. Ástæðan er sú, að öllum þeim sem stóðu að stofnun slíkra samfélaga er ljóst að það er eina örugga vörnin gegn slíkri miðstýringu að höfuðborgarsvæðið líti ekki á hinn hluta landsins sem nýlendu sem þau meðhöndla á þann hátt. Ef við skoðum það hlutfall sem Kaupmannahöfn hefur í heildarfjöldanum í Danmörku annars vegar og berum það saman við hvernig ástandið er á Íslandi blasir við að 60% íslensku þjóðarinnar búa í Reykjavík og á Reykjanesi. Það blasir við hverjum heilvita manni, sem vill skoða þessar staðreyndir, að ef jafn atkvæðisréttur væri látinn ráða og ekkert tillit væri tekið til landsins mundi þetta örlitla brot af landinu stjórna hinum hlutanum. Og ég spyr: Hver er þá munurinn á slíkri stefnu og hreinni nýlendustefnu? Til hvers er verið að sækjast eftir þessu valdi? Hvers vegna er verið að sækjast eftir því að ná meirihlutavaldinu inn í tvö kjördæmi? Hver er grunnhugsunin á bak við þá skoðun hjá hv. 9. þm. Reykv.? Það skyldi þó ekki vera draumurinn um að drottna yfir hinu svæðinu.

Ég hygg að það hljóti að vera viðhorf hvers einasta sagnfræðings, sem skoðar í framtíðinni sögu þessarar þjóðar, að hann spyrji sjálfan sig hvaða undur urðu til þess að þjóðfélagsuppbyggingin fór á þann veg sem varð, því að við stöndum að miklu leyti frammi fyrir staðreyndum. Og fyrsta spurningin hlýtur að vera: Fóru menn úr óarðbærum þjónustustörfum yfir í framleiðslustörf með þessari tilfærslu? Ég segi nei. Það var ekki það sem gerðist. Við vitum vissulega að við höfum orðið fyrir utanaðkomandi áföllum sem höfðu mjög mikil áhrif, eins og t. d. þegar landið var hertekið og hér á þessu svæði skapaðist gífurleg vinna á sama tíma fyrir hærri laun en hægt var að fá annars staðar. Auðvitað raskaði þetta íslensku þjóðfélagi.

Hin spurningin hlýtur þá jafnframt að vakna: Ætlum við að taka þá ákvörðun að líta svo á að aðeins viss hluti þessa lands eigi að vera í byggð, hinn hlutinn eigi að leggjast í auðn? Ef svo er, ef þetta er vilji Alþingis, tel ég að þegnum Íslands beri siðferðileg skylda til að bjóða flóttamönnum, sem ekkert land eiga og eru geymdir á bak við gaddavírsgirðingar, það land sem við teljum ekki nógu gott til að halda í byggð. Hvernig fær það staðist að sum ríki skuli hafa þann rétt að drottna yfir miklu meira landi en þau vilja kannast við að þau ætli að nota og aðrir einstaklingar á þessari jörð séu bornir til þeirrar örbirgðar að mega hvergi vera? Það fær ekki staðist.

Ég get vel skilið að hv. 9. þm. Reykv. vilji sem minnst þurfa að hlusta á umr. sem þessa. Ég skil það vel að hann sé illa undir það búinn að svara því t. d. hvort Danmörk sé lýðræðissamfélag eða ekki, hann sé illa undir það búinn að svara því hvort danskir jafnaðarmenn hafi fótumtroðið lýðræðið um árabil í þessu ríki. Það má vel vera að á mörgum sviðum telji hann flóttann bestan.

Ég varpaði fram þeim spurningum í gær, og við þeim hefur ekki fengist neitt svar, hvaða aðilar hefðu fengið þetta frv. til umsagnar. Mér er ljóst að það hefur ekki verið sent út í því upplagi sem hv. 4. þm. Reykv. hefur talið eðlilegt til að kynna sínar breytingar á stjórnarskránni. Hins vegar má það magnað vera ef þetta frv. er eitt af þeim örfáu sem hefur sprottið svo fullskapað út úr höfði flm. að það hefur ekki verið talið skynsamlegt eða rétt að senda það út til umsagnar til eins einasta aðila, það var of fullkomið til þess að það tæki því að leita eftir gagnrýni.

Í annan stað óskaði ég eftir upplýsingum um það, hvaða aðilar hefðu verið kallaðir á fund n. til að segja álit sitt á þessu máli. Það vill svo til að Háskóli Íslands hefur yfir að ráða mjög mörgum ungum og vel menntuðum mönnum, sem e. t. v. hefðu getað svarað ýmsum spurningum sem sanngjarnt hefði verið að spyrja um.

Ég spurði t. d. að því, hvaða félagsfræðingar hefðu verið kallaðir á fund n. til að meta sennilegar afleiðingar af samþykkt frv. Er það tilfellið að hagstofustjóri sé eini aðilinn sem nauðsynlegt er að kalla á til að fjalla um svona mál? Hefði ekki verið fróðlegt að varpa þeirri spurningu fyrir félagsfræðinga hvort þeir teldu að þetta yrði til að auka fólksstraum til þéttbýlisins, hvort þeir teldu að þetta yrði til að bæta ástandið í húsnæðismálum í Reykjavík, hvort þeir teldu að þetta mundi auka á félagslegt jafnrétti í landinu?

Ég óskaði jafnframt eftir því að fá við því svör hvaða stjórnmálafræðingar hefðu verið kallaðir á fund n. Hefði ekki verið sanngjarnt að fá svör við því í fyrsta lagi: Hvaða áhrif er trúlegt að þetta hafi á stefnur stjórnmálaflokkanna? Hvaða breytinga má vænta á þeirra stefnu vegna þessarar breytingar? Í annan stað: Hvaða áhrif er trúlegt að þetta hafi á flokkafjöldann í landinu? Er trúlegt að þetta verði til þess að menn komi sér saman fyrir kosningar eða er trúlegt að þetta verði til þess að flokkum fjölgi í landinu og er trúlegt að það verði til að bæta stjórnarfarið í landinu? Hvers vegna ekki að kalla þessa menn fyrir og spyrja þá að slíku? Vissu hv. nm. allt? Þurftu þeir engan að spyrja?

Hvaða hagfræðingar voru kallaðir á fund nefndarinnar? Hefði ekki verið sanngjarnt að þeir hefðu metið hvaða áhrif þetta hefur á fasteignaverð, hvaða áhrif þetta hefur á fjárfestingu í landinu, hvaða áhrif þetta hefur á framleiðslu atvinnuveganna? Nei, það var ekki talið skynsamlegt að kalla á neinn af þessum aðilum.

Það fást yfir höfuð engin svör við því hvað nefndin gerði. Sátu nm. yfir kaffibolla og spjölluðu saman og létu plöggin liggja kyrr á borðinu? Var einhverjum einum falið að lesa þetta yfir? Það stendur að vísu í grg. að þeir hafi farið ítarlega yfir þetta. Það er nú vel, en það er meira hernaðarleyndarmálið að fá ekki minnstu skýringar á því hvað þeir gerðu.

Ég varpaði fram þeirri spurningu, ef einhvers staðar erlendis hefði verið hægt að fá fyrirmyndir að því sem hér er verið að leggja til, hvaðan þær væru fengnar. Ekkert svar fæst við slíku. Það liggur í það minnsta ljóst fyrir að við höfum ekki talið okkur þurfa neitt frá Dönum, herra forseti, í þessu sambandi. Nú má vera að stoltir séu Íslendingar. Það er ömurlegt til þess að vita að þjóð sem fyrir stuttu barðist fyrir sjálfstæði sínu, sjálfstæði sem fyrst og fremst fólst í því að fá yfirráðarétt yfir þessu landi, telji að það beri ekki að meta landið nokkurs, það beri ekki að meta það neins í sinni stjórnarskrá. Það hlýtur að vekja spurninguna um hvort frelsis þess verði þá gætt í framtíðinni, því að það er nokkuð athyglisvert að eitt af því sem lögð er mikil áhersla á er að auka stjórnunaráhrif þeirra sem fluttir eru af landi brott og greiða enga skatta til hins íslenska ríkis. Það kom fram að e. t. v. ættu þeir fyrirtæki hér sumir og þess vegna væri þetta réttlætanlegt.

Furðulegt er það, ef rétt er, að það sé til hagsbóta fyrir sjálfstæði og stjórn landsins að standa þannig að málum að útverðirnir skulu ekki metnir, — ef þeir búa á Íslandi, þá skuli allt gert til að draga úr þeirra áhrifum, en flóttamennirnir, sem farnir eru yfir hafið, skuli heiðraðir með því að veita þeim kosningarrétt að auki. Hver er grundvallarhugsunin á bak við slíka hringavitleysu? Er það hugsunin að þeir eigi að semja ákvæðin í skattalögunum fyrir hina sem eru heima og verða látnir borga? Ég fæ ekki séð að það búi yfir höfuð mikil hugsun á bak við þetta, enda veit ég ekki til að það hafi verið ætlunin að stuðla að því að Íslandi yrði betur stjórnað eftir en áður, takmarkið væri ekki það. Takmarkið virðist hafa verið allt annað.

Ég gat um það einnig í ræðu minni í gær, að þau undur hefðu gerst að öll stjórnmálafélög í Önundarfirði hefðu talið nauðsynlegt að snúast til varnar gegn þessu frv. og þá væntanlega flm. þess og stuðningsmönnum, þ. á m. þm. Vestfjarða að stærstum hluta. Ætli það sé ekki fátítt að öll stjórnmálafélög sameinist um það að þeim stafi hætta af þm.? Einhvern tíma hefðu það nú verið taldar fréttir. (KP: Ekki öllum.) Ekki öllum, segir hv. 6. landsk. þm. Það er rétt og virðingarvert. Þetta hefði verið skiljanlegt ef þm. Vestfjarða hefðu á undanförnum árum getað fagnað þeim stórsigrum að uppbygging samfélagsins hefði gengið svo vel að þar hefði verið myndarleg fólksfjölgun á seinustu áratugum. Svo er ekki. Það eru engir slíkir sigrar að baki.

Þjóðveldið var samkomulagsskipulag. Það var samkomulagsskipulag hinna fornu fjórðunga. Enn má sjá þess stað. Menn minnast þess m. a. með skreytingum á Alþingishúsinu. Skjaldarmerkið ber þess einnig vitni. Því hefur verið haldið fram að það þurfi að fara að byggja nýtt þinghús. Að sjálfsögðu hlýtur þess þá að verða gætt að útlit hússins storki ekki því skipulagi sem upp verður tekið og merki fjórðunganna verði tekið af byggingunni, því það er kaldhæðni örlaganna ef þeir landvættir, sem á sínum tíma vörðu hina fornu fjórðunga, sitja uppi með það að fulltrúar viðkomandi landssvæða gleymdu vöku sinni og snerust ekki til varnar þeim landssvæðum til að tryggja þar uppbyggingu á við önnur landssvæði. Þá dreymdi fremur um frama innan sinna stjórnmálaflokka.

Herra forseti. Það er hægt að tala lengi um þetta mál. Það er hægt að halda áfram að undirstrika að það hefur geisað áróðursstríð í þessu landi — áróðursstríð sem hefur haft það að markmiði að etja saman þéttbýli og dreifbýli á Íslandi. Mér er ljóst að þeir sem fyrir því stríði hafa staðið hafa vissulega fagnað sigri. Mér er ljóst að þeir telja sig aðeins hafa unnið áfangasigur. Mér er ljóst að markmiðið er það, að þetta litla landssvæði, Reykjavík og Reykjanes, skuli ráða yfir landinu öllu. Og mér er ljóst að þeir telja sigurinn í augsýn e. t. v. eftir næstu þingkosningar. Þeir mættu nú samt hugleiða hvort sé stærra að eiga land með höfuðborg eða eiga bara höfuðborg, sem jafnframt breytist frá því að vera höfuðborg í það að vera eina borg viðkomandi ríkis. Er það að fagna sigri? Ég segi nei.

Hér hafa skammsýnir menn látið reka sig áfram til verka, sem fyrst og fremst verður spurning um þeirra eigin skynsemi, hvort þeir eiga eftir að iðrast í framtíðinni. Má vel vera að sú sjálfsgagnrýni sé ekki til staðar og þeir munu fagna því á komandi árum að hafa lagt til breytingar á stjórnarskránni, sem fyrst og fremst hafa það markmið að auka hraða byggðastraumsins til suðvesturhornsins. Ég trúi því að sagan muni ekki hylla slíka menn. Ég trúi því að þeir verði skrifaðir sem litlir karlar þrátt fyrir drauma um betri yfirskrift.

Það má vel vera að stjórnmálamenn nágrannaríkjanna séu misvitrir. En furðulegt má það nú samt heita ef fjórmenningarnir þrír, sem leggja þetta til, eru mestu stjórnspekingarnir innan kerfisins. Það má að vísu bæta þeim fimmta við, hv. 1. þm. Vestf. Ég tel að það sé einkennilegt, svo að ekki sé meira sagt, ef jafnþéttbyggt land og Danmörk með jafngreiðum samgöngum þarf að hafa sérstök ákvæði inn í stjórnarskránni til að tryggja að Jótland haldi hlut sínum og eyjarnar gagnvart Kaupmannahöfn, en Íslendingar með sína miklu erfiðleika í samgöngum og með sinn mikla mun í uppbyggingu þurfi ekki að taka neitt tillit til landsins. — Hv. 1. þm. Vestf. les stjórnarskrána. (MB: Nei, hún lítur nú ekki svona út.) Það má vel vera að það hefði verið skynsamlegt að lesa hana fyrr.

Ég ól þá von í brjósti í samræmi við þann stjórnarsáttmála sem núv. ríkisstj. gerði, að það yrði staðið við það ákvæði að stjórnarskráin yrði sem heild afgreidd hér í þingsölum, að reynt yrði að standa þannig að þessu máli að það yrði til að sameina þjóðina, en ekki til að sundra henni.

Hv. 1. þm. Vestf. kvartaði undan því að það vantaði aðila til að sjá um útför ríkisstj. Ég benti honum á að hv. 8. landsk. þm. hefði lýst því yfir að ríkisstj. væri sér algerlega óviðkomandi. Ég benti einnig á að hv. 6. þm. Suðurl. teldi að ríkisstj. væri sér algerlega óviðkomandi. Það hafa engir tilburðir verið hjá stjórnarandstöðunni í þá átt að bera þá upp vantraust ef þeir vildu losna við hana. Meira að segja gerðist það furðulega að hv. 4. þm. Austurl. harmaði það einna mest að hægt væri að rjúfa þingið áður en kjörtímabil þm. væri úti. Það verður ekki á annan hátt skilið en hann sé harmi lostinn yfir því að ríkisstj. skuli ekki starfa þangað til í des. á þessu ári.

Sannleikurinn er sá, að kjördæmamálið svokallaða hefur orðið að algeru aðalatriði í vitund þessara manna. Það hefur orðið að slíku aðalatriði að öll umr. um efnahagsmál, allar umr. um það að hér þyrfti að koma sterk meirihlutastjórn hafa horfið. Aðalatriðið virðist hafa orðið að breyta sem fyrst stjórnarskránni á þann veg að hún tryggi að þeir sem hafi tapað í prófkjörum að undanförnu skuli nú eftir sem áður komast inn á þing. Það er markmið að tarna. (Gripið fram í.) Já, þetta eru ömurleg örlög, hv. 7. þm. Reykv.

En hvað um það. Hér fyrir Nd. liggur frv. um breytingu á stjórnarskránni. Fyrir liggur að það hefur ekki verið sent út til umsagnar, nema það verði þá leiðrétt af 1. þm. Vestf. að svo hafi verið. Það liggur fyrir að ekki er talið eðlilegt að gefa hlé á milli umr. svo að menn geti skoðað brtt. sem fram koma eða samið nýjar. Það liggur fyrir að aðalmarkmiðið er að koma málinu í gegnum þingið eins og það er kallað. Þetta er eiginlega oftast nær sameignlegt einkenni á slæmu máli. Og þó að menn komi hér með misjafnt klór til að verja sína afstöðu held ég að það alaumasta af því öllu saman sé sú kenning að það hefði ekki verið hægt að komast minna, því að ella hefði verið miklu meira að gert í þessu máli.

Þegar fulltrúar dreifbýlisins halda þessu fram er eins og þeir hafi gleymt því að á Alþingi Íslendinga eru í miklum meiri hluta fulltrúar dreifbýlisins og það verður engin stjórnarskrárbreyting gerð nema þeir ljái henni lið. Hvaðan telja þeir að það vald komi sem geti breytt þessa? Nei, slíkt yfirklór dugar ekki, og jafnvel ekki þó að fjölmiðlar hafi gert allt sem þeir geta til að þegja þetta mál í hel og gefa rangar upplýsingar um það, sem raunverulega er að gerast hér, og rangar upplýsingar um hvernig ástandið sé í öðrum löndum hvað þetta snertir, m. a. með þögninni. Það eru gamalkunn sannindi að hægt er að ljúga mikið með þögninni. M. a. var því haldið fram í góðri bók að Snæfellingar kynnu að ljúga með þögninni.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni. E. t. v. gerast þau undur að svör fást við einhverjum af þeim spurningum sem hér hefur verið varpað fram. Það er út af fyrir sig vel ef það verður.