08.03.1983
Sameinað þing: 61. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2689 í B-deild Alþingistíðinda. (2544)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mig langar að beina örfáum orðum til hæstv. heilbrrh. Það er vegna þess að það virðist enn vera mikill skortur á læknum, a. m. k. á einni heilsugæslustöð, sem er á Hólmavík. Ég held að hv. alþm. hafi gott af því að heyra að þar hafa verið 10 læknar settir síðan 1.1.1981 og frá 6. des. s. l. hafa verið settir sjö læknar í þessu læknishéraði. Setning hefur verið eins og frá 6. des. til 31. des., 2. jan. til 11. jan., 14. jan., en síðan var annar settur 17., þremur dögum síðar, og hann er til 31. jan., 3. febr. til 15. febr., 15. febr. til 28. febr. og 1. mars til 31. mars. Í flestum tilfellum er um stúdenta að ræða eða í sex tilfellum af tíu. Það getur hver séð, að með þessum hætti er í raun og veru lítil sem engin læknisþjónusta í þessu læknishéraði.

Ég er ekki að deila á hæstv. ráðh., en ég vil aðeins vekja athygli á þessu ófremdarástandi og biðja hann í fullri vinsemd um að taka þetta mál til gagngerðrar athugunar. Ég held að ekki eigi að vera miklir erfiðleikar á því að setja einn lækni úr stóru sjúkrahúsunum hér í Reykjavík í allt að 3–4 mánuði á svona stöðum. Það er ekkert verið að pína menn á þessum stöðum. Þar er ágætis hús, gott sjúkraskýli. Það er það mikill fjöldi af læknum á stóru spítölunum hér á höfuðborgarsvæðinu að auðvelt ætti að vera, ef stéttin vill, að leysa þetta mál. Ég vil heita mínum stuðningi við hæstv. ráðh. hvað sem hann gerir í þessum efnum til þess að fá hér úr bætt.

Ég vil standa með honum í því að þarna verði bætt úr. Það er ákaflega þreytandi og sorglegt fyrir okkur þm. utan af landi og í þessum byggðarlögum að fá þessar kvartanir og maður er spurður að því af fjölda af fólki: Er virkilega ekki hægt að hafa þetta ástand með betri hætti, þannig að við eigum von á að fá heilsugæslulækni í 3–14 daga. Ég trúi ekki að þetta þurfi að vera þannig. Nú hefur landlæknisembættið ákveðið og heilbrrn. að auglýsa þessa stöðu með auglýsingu 18. febr. frá og með 1. ágúst 1983. Ég vænti þess að hæstv. heilbr.- og trrh. svari þessum tilmælum og ég endurtek: Þetta er ekki ádeila á hann sem slíkan, heldur er fyrst og fremst verið að hreyfa hér máli til þess að fá úrbætur úr því hörmulega ástandi sem þessi mál eru í hvað þetta heilsugæsluhérað varðar.