08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2691 í B-deild Alþingistíðinda. (2549)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er vel að 4. þm. Suðurl. er í forsetastól, því að ég þarf að vitna til fyrrv. formanns Alþb., Lúðvíks Jósepssonar. Hann mun hafa haft fyrir reglu að mótmæla því ef kvöldfundir væru hafðir tvö kvöld í röð, og er nú vel að úr því fáist skorið, hvort sú regla er viðurkennd af hv. 4. þm. Suðurl., og mætti honum vera málið skylt. Það hlýtur að vera eðlilegt að þessi krafa sé fram borin því að kvöldfundur stóð í gærkvöld fram undir miðnætti. Og ég efa að það sé þinginu til góðs að þannig sé staðið að málum að menn hafi sem minnstan tíma til að skoða hvað þeir eru að gera og sé nánast þvælt út með óheyrilega löngum fundahöldum.

Ég vona að ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri, en þessi ósk er hér með fram komin og ég vænti þess að forseti treysti sér til að afgreiða þetta strax.