08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2715 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Ennþá erum við á kvöldfundi að ræða frv. til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það er ekki neitt undarlegt við það þó að menn þurfi að taka sér tíma til að ræða um þetta mál og flytja við það brtt. Það sannar einungis það, sem margir hafa haldið fram sem hér hafa rætt þetta mál, hversu fáránlegt er að taka einn þátt þess út úr heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem nú stendur yfir.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur gert grein fyrir fjölda brtt., sem hann flytur við frv., og gert það í löngu og glöggu máli. Ég hef ekki gert tilraun til þess í sjálfu sér, ef frómt frá er sagt, að grunda þessar tillögur sem vert væri, vegna þess að hér er um svo yfirgripsmikið mál að ræða, þar sem stjórnarskrá lýðveldisins er, að ekki er fært á stuttum tíma að gera því þá grein sem vert væri.

En erindi mitt hingað upp var þó fyrst og fremst að benda á samkennd till. þeirrar, sem hv. þm. Stefán Valgeirsson og Ólafur Þ. Þórðarson hafa flutt í þessu máli, við tölul. 2 á bls. 3 í því ágæta frv. sem birtist á þskj. 367, þar sem hinar skemmtilegu hugmyndir hv. stjórnarskrárnefndar koma fram. Með leyfi forseta vil ég aftur vekja athygli þingsins á þessum hugmyndum þeirra, sem eins og ég hef áður sagt hér úr þessum ræðustól bera nokkur merki þess að höfundur eða flm. frv. finni nokkra sök hjá sér. Með leyfi forseta hljóðar tölul. 2 á bls. 3 í grg. með frv. þannig:

„Þingflokkar Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., sem að frv. þessu standa, hafa auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi: . ... 2. Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. M. a. fái sveitarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin, óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“

Lesi menn svo brtt. þeirra félaga Stefáns Valgeirssonar og Ólafs Þ. Þórðarsonar og beri saman við þessi fögru fyrirheit. Ég sé ekki annað en hv. flm. frv. á þskj. 367 ættu að grípa þetta gullna tækifæri og samþykkja þessa brtt. Þá fengju þeir þessum fögru sýnum sínum fullnægt í augnablikinu, þ. e. að það fólk sem þarf að bæta aðstöðumuninn vegna búsetu gæti fengið nokkra umbun þangað til íslensku þjóðfélagi tekst að jafna þennan mismun, sem þeir hv. alþm. Geir Hallgrímsson, Steingrímur Hermannsson, Svavar Gestsson og Magnús H. Magnússon bregða þarna fyrir augu okkar.

Ég vil aðeins benda á samkennd þessara fögru sýna og till. þeirra félaga.

Ég ætla ekki og hef enga áráttu til þess að tefja þetta þinghald verulega eða úr hófi fram, en leyfi mér þó að lesa brtt. þeirra Stefáns Valgeirssonar og Ólafs Þ. Þórðarsonar, sem birtist á þskj. 469, með leyfi forseta. Þeir gera það að till. sinni að á eftir 3. gr, komi ný grein svohljóðandi:

„77. gr. orðist svo:

Skattamálum skal skipa með lögum.

Við ákvörðun skatta á tekjur og eignir skal gætt jafnræðis þegnanna, þannig að til lækkunar komi sérstakur kostnaður vegna búsetu, eftir því sem nánar verður ákveðið í lögum.“

Að mínu mati ættu flm. frv. á þskj. 367 að grípa fegins hendi þessa brtt. og samþykkja hana og beita áhrifum á félaga sína að þeir ljái henni atkv. sitt.

Það hefur mikið verið rætt hér um þetta frv. til stjórnarskipunarlaga og finnst flestum, sem um hafa rætt, heldur lítið hafa lagst fyrir kappana, að hér sé lítið efni í löngu máli. Ég skal ekki frekar ræða um það hér. Ég hef þegar rætt það nokkuð á hv. Alþingi.

Frsm. fyrir nál. því sem kom frá nefndinni sem fjallaði um þetta frv. hélt hér mjög skörulega ræðu í dag og hélt að sjálfsögðu, eins og hans var von og vísa, skörulega á sínu máli og færði rök fyrir sínu áliti. Hann lét hugann reika lítið eitt. M. a. minntist hann á ályktun úr Önundarfirði, sem var lesin á kvöldfundi í gærkvöldi, þar sem allir flokkar starfandi þar í firðinum létu frá sér heyra. Og honum fannst lítið til koma. Hann minntist í ræðu sinni, hv. frsm., alþm. Matthías Bjarnason, einnig á ályktun frá Hvammstanga, sem honum fannst einnig fátt um. Af þessu tilefni datt mér í hug að hann væri kannske fróðari en aðrir alþm. um hvað þessi ályktun frá Hvammstanga fjallaði yfirleitt. Þó hann nefndi hana ekki gleggra en þetta datt mér í hug að það væri ályktun sem er undirrituð af áhugamönnum um þessi mál í Framsóknar-, Sjálfstæðis-, Alþýðuflokks- og Alþýðubandalagsfélögum í Vestur-Húnavatnssýslu. Með leyfi forseta langar mig til að lesa þessa ályktun og það að gefnu tilefni og festa hana þar með í skjöl Alþingis, en þessi ályktun er frá mars 1982. Þetta er eins konar dreifibréf til félaga vítt og breitt. Þessi ályktun hefur haft veruleg áhrif vítt og breitt um landið. Hef ég nú lesturinn, með leyfi forseta:

„Við undirritaðir áhugamenn í Vestur-Húnavatnssýslu um stjórnarskrármálið viljum vekja athygli á að íslenskir stjórnmálaflokkar hafa sett sér það markmið að fjölga þm. á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu á kostnað landsbyggðarinnar. Undirbúningur þeirra aðgerða hefur verið í fullum gangi og telja má fullvíst, að stjórnarskránni verði breytt í þá veru við fyrsta tækifæri, ef ekkert er aðhafst af hálfu landsbyggðarinnar. Þar sem hér er ekki aðeins um hag hinna dreifðu byggða að ræða, heldur allrar þjóðarinnar þegar til lengri tíma er litið, teljum við nauðsyn á að íbúar landsbyggðarinnar standi saman og hrindi fyrrnefndum áformum af höndum sér þannig að slíkt komi ekki til framkvæmda.

Staðreynd er að megináhrif búsetubreytinga landsmanna á síðustu áratugum eru fólgin í afgerandi forustuhlutverki höfuðborgarsvæðisins á flestum sviðum. Þar eru nú aðalstöðvar embættiskerfisins, hagsmunasamtaka, stjórnmálaflokka, fjölmiðla og fjármálavalds. Með tilliti til framangreinds verðum við að álíta, að þrátt fyrir minna atkvæðavægi séu áhrif íbúa stór-Reykjavíkursvæðisins til stjórnunar þjóðmála mun meiri en íbúa landsbyggðarinnar.

Aðalframleiðsla þjóðarinnar á sér stað út um hinar dreifðu byggðir, en fjármunir renna til Reykjavíkur og eru síðan skammtaðir þaðan úr hnefa.

Þeirri skoðun okkar viljum við nú koma á framfæri að fjölgun þm. leysir engan vanda. T. d. virðist heil heimsálfa, Ástralía, komast vel af með aðeins 64 þm.

Allmiklar umræður hafa verið hér innan sýslunnar um þetta mál, bæði á pólitískum og almennum fundum. Einstaka fundarsamþykktir leggja ríka áherslu á að komi til breytinga á stjórnatskránni verði fjöldi þm. í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, eins og þeim er nú skipað, aldrei meiri en 215 hlutar af heildartölu alþm. þjóðarinnar.

Ef þú og þitt samstarfsfólk telur að kalla þurfi fram andstöðu gegn fyrirhugaðri kjördæmabreytingu og þið eruð reiðubúin að starfa að þessu málefni ættum við að leggjast á eitt og ráða ráðum okkar hvernig bregðast skuli við til varnar, þannig að íbúar landsbyggðarinnar geti búið við mannsæmandi kjör og haldið áfram að starfa að verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið.

Með bestu kveðjum og von um samstarf.

F.h. áhugamanna í Framsóknar-, Sjálfstæðis-, Alþýðuflokks- og Alþýðubandalagsfélögum í Vestur-Húnavatnssýslu.“

Undir þetta rita Aðalbjörn Benediktsson, Hvammstanga, Örn Björnsson, Gauksmýri, Karl Sigurgeirsson, Hvammstanga, Egill Gunnlaugsson, Hvammstanga, Baldur Ingvarsson, Hvammstanga, Vilhelm Guðbjartsson, Hvammstanga, Björn Sigurvaldason, Litla-Árnesi, og Matthías Halldórsson, Hvammstanga.

Þetta mun vera sú Hvammstangaályktun sem hv. þm. Matthías Bjarnason gat um í ræðu fyrr í kvöld og taldi lítið til koma, eins og samþykktar úr Önundarfirði, sem lesin var upp á þingfundi í gær.

Ég er ekki að segja að þetta dreifibréf, sem sent mun hafa verið allvíða, muni hafa haft veruleg áhrif. Þó vitum við að snemma þessa árs var haldinn fundur á Akureyri og þaðan gerð ályktun um þessi mál og mjög í sama anda. Einnig í vetur var í bæjarstjórn Siglufjarðar samþykkt ályktun um þessi málefni, sem ég vildi leyfa mér að lesa, með leyfi forseta, og festa þar með í þingtíðindum. Þessi ályktun er svohljóðandi:

„Í sambandi við þá umræðu sem nú á sér stað í þingflokkunum um breytingu á kosningalögum og jöfnun á vægi atkv. vill bæjarstjórn Siglufjarðar beina þeim tilmælum til alþm. að þeir meti í raunhæfu ljósi þann geysilega aðstöðumun, sem íbúar dreifbýlisins hafa á við þéttbýlissvæðin við Faxaflóa, og viðurkenni að eðlilegt sé að vægi atkv. sé meira í hinum strjálu byggðum heldur en á þéttbýlissvæðunum á Reykjanesi og Reykjavík. Sé þessa sjónarmiðs ekki gætt gæti fyrr en varir komið til enn aukinna búferlaflutninga frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, sem flestum finnst nú nóg um, og byggð þannig lagst niður, sem orðið gæti dýrkeypt þjóðinni allri. Vilji alþm. ekki virða þennan rétt dreifbýlisins um mótvægi við gífurlegan aðstöðumun til hinna ýmsu þjónustuþátta ríkisins við þegna sína ber að gera aðrar raunhæfar ráðstafanir til jöfnunar lífskjara jafnframt.“

Þessi ályktun er samþykkt af öllum bæjarfulltrúum í bæjarstjórn Siglufjarðar.

Hér vil ég meina að ég hafi lesið upp tvær samþykktir sem eru þvert á alla stjórnmálaflokka. Hér er ekki einn flokkur með forustu. Hér er ekki einn flokkur aftastur. Hér eru allir flokka sammála. Að ég les þetta hér upp er ekki vegna þess að það sé til umr. neitt í þessu frv. til stjórnskipunarlaga á þskj. 367, heldur er það að gefnu tilefni vegna ræðu frsm. stjórnarskrárnefndar, sem starfar þó um þessar mundir af hálfu beggja deilda, og þess að stjórnarskrárnefndir hafa unnið saman.

Hv. frsm. ræddi þá ályktun, sem kom úr Önundarfirði og var lesin upp hér í gær, og taldi lítið til hennar koma. Ef hann væri hér inni nú og hefði hlustað á þessar samþykktir hefði hann að sjálfsögðu risið upp og sagt að sér þætti lítið til þeirra koma einnig. En ég veit ekki hvaða álit hann hefur, sá ágæti maður, hv. alþm. Matthías Bjarnason, á skoðunum manna út um hinar dreifðu byggðir landsins ef hann telur þessar samþykktir sem slíkar, — þessar þrjár, sem upp hafa verið lesnar, tvær sem ég hef lesið upp í kvöld og eina, sem var lesin upp hér í gær, — þvætting einn.

Herra forseti. Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram: Í fyrsta lagi samsvörun milli tölul. 2 á bls. 3 á þskj. 367 og brtt. þeirra hv. þm. Stefáns Valgeirssonar og Ólafs Þ. Þórðarsonar, en einnig vildi ég vekja athygli á samþykktum frá áhugamönnum um stjórnarskrármál í Vestur-Húnavatnssýslu undirrituðum af fulltrúum allra flokka og ályktun eða samþykkt sem var gerð í bæjarstjórn Siglufjarðar í vetur og samþykkt með öllum atkv. bæjarstjórnarmanna.

Eins og ég sagði áðan er ekkert undarlegt þó að mönnum verði skrafdrjúgt um frv. til stjórnskipunarlaga. Og ég harma það nú, eins og fyrr í dag þegar ég kvaddi mér hljóðs um dagskrá, að hér skuli vera kvöldfundur um þetta mál. Þetta er þriðji kvöldfundurinn um sama málið. Ég harma að svo skuli vera þrengt að alþm. að ekki nema 1, 2, 3, 4, 5, 6 eða 7 menn hafa þrek til að hlýða á umr. til enda og kynni að vera að þeim færi að fækka áður en henni lýkur. Menn hafa ærinn starfa hér í þinginu um þessar mundir. Menn þurfa að vakna snemma til vinnu á morgnana. Ég efast um að sanngjarnt sé að ætlast til þess að menn séu hér við vinnu langt fram á kvöld á hverju kvöldi og eigi svo að standa sig á erilsömum degi.

Eins og ég gat um í upphafi hef ég ekki haft tíma til að ígrunda þær brtt. sem hér hafa komið fram og harma ég það á vissan hátt, en það sýnir ennþá hvað fáránlegt er að vera að gera breytingar á stjórnarskránni á síðustu dögum þingsins og keyra þær í gegn með allt að því offorsi á kvöld- og næturfundum.