08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er þá víst komið að lokum 3. umr. um frv. til l. um stjórnskipun lýðveldisins Íslands. Hér hafa fallið nokkrar röksemdir varðandi þær brtt. sem ég hef mælt fyrir í kvöld, einkum hjá hv. 9. þm. Reykv., og satt að segja hver annarri ruglingslegri. Ég sé að hann er ekki í salnum, en ætla í örstuttu máli að svara honum.

Það hefur verið sagt, gagnstætt því sem ég hef haldið fram, að hér sé ekki um að ræða franskt kerfi, eins og það hér er orðað. Ég hef aldrei haldið því fram að hér væri um að ræða með einum eða öðrum hætti franskt kerfi. Ég hef þvert á móti sagt að það sem við erum að leggja til er ekki þingræðisskipan í þeim skilningi sem venjulegast er lagður í það orð, og ég hef sagt að með einum eða öðrum hætti er sú stjórnskipan, sem við erum að gera tillögur um, við lýði í Bandaríkjum Norður-Ameríku, í Frakklandi og í Finnlandi. Ég hef nefnt þetta sérstaklega. Hv. þm. ruglast á því sennilega, að í vinnuskjölum sem sýnd voru í Alþfl. gamla fyrir allmörgum árum var þetta nafn stundum notað til skýringar. Það er allt og sumt. Og í þeirri till. til þál., sem flutt var á þskj. 94 og prentuð hefur verið í Gutenberg í 5000 eintökum sem kunnugt er, er hluti af þessum vinnuskjölum prentaður sem fskj. og með ártölum einnig til að undirstrika með hverjum hætti sú umr. fór fram, þó svo málið hlyti þar ekki brautargengi.

Í annan stað er eitthvað verið að rugla með látinn mann, hershöfðingja gamlan í Frakklandi, de Gaulle að nafni, og verið að tala um það, sem er auðvitað alveg rétt, að í stjórnarskrá, sem við hann er kennd, í Frakklandi á árinu 1958 kveður 16. gr. svo á að um tiltekinn tíma geti framkvæmdavald, ef það svo kýs, tekið sér alræðisvald. Allt er þetta rétt, en enginn hefur lagt það til hér. Þetta var vegna þess að það voru metnar sérstakar neyðarástæður í Frakklandi á þeim tíma. Þetta er nú gamalt herland, hvers söguleg rás hefur stundum ráðist með valdi. Við búum ekki við neitt slíkt hér, enda hefur engum dottið í hug að leggja neitt slíkt til.

Það er sagt að þar sé þingrofsvald og það sé þvert á móti verið að leggja til að slíkt verði ekki hér. Þetta er alveg rétt. En hér er ekki verið að leggja til neitt Gaulliskt kerfi. Það er bara útúrsnúningur minni spámanna, sem leiðist að einhverjum skuli detta þetta í hug.

Í fjórða lagi er sagt að í Frakklandi sé kosið með um það bil sömu aðferð til löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Þetta er bæði rétt og rangt. Aðferðin er vissulega sú sama, en hins vegar er franska þingið þannig uppbyggt að það er í þágu dreifðari byggða. Þær eru auðvitað dálítið öðruvísi en hér, því að það er kannske ekki nákvæmt að bera saman Marseille og Þórshöfn, en engu að síður, eins og þeir hafa skilgreint hinar dreifðari byggðir, er samsetning þings þar í þágu dreifðari byggða meðan framkvæmdavald, kosið með þeirri aðferð þar eins og hér er lagt til, einn maður — eitt atkvæði, verður í hegðan og háttum í þágu hinna þéttari byggða. Að því leyti er þetta samanburðarhæft.

En kjarni málsins er sá, að þó að hugtakið „franskt kerfi“ hafi verið notað í einhverjum gömlum vinnuskjölum í Alþfl. fyrir nokkrum árum er enginn að leggja slíkt til. Það er verið að leggja til að framkvæmdavald sé kosið sérstakri kosningu. Það er gert í Bandaríkjum Norður-Ameríku, það er gert í Frakklandi og það er gert í Finnlandi, hvað með sínum hætti, en við erum hvorki að leggja til bandarískt, franskt né finnskt kerfi, heldur íslenskt kerfi sem tekur í öllum meginatriðum mið af íslenskum aðstæðum.

Hins vegar verð ég að segja það um þennan hv. þm., að sá málflutningur sem hér er verið að halda á loft um kröfuna einn maður — eitt atkvæði er vitagagnslaus þegar sú krafa í sinni einföldu útlistun er annaðhvort krafa um 130–140 þm., ef menn meina eitthvað með þessu, eða á hinn bóginn krafa um að kjördæmi eins og Vestfirðir og Norðurl. v. hafi milli einn og tvo þm. Þetta er svo vitagagnslaust nöldur að engu tali tekur. Þetta er ekki hægt. Það dettur engum í hug að alþm. eigi að verða 130 og 140 eða einhvers staðar á því rekinu, en ef menn eru að tala um regluna einn maður — eitt atkv., en að öðru leyti óbreytt kerfi, er gerð krafa um þann þingmannafjölda. Ef menn eru á hinn bóginn að tala um að hafa þm. 60 eða jafna atkvæðisrétt, þá eru menn að tala um einn komma eitthvað þm. fyrir minnstu kjördæmin. Væntanlega dettur heldur engum siðuðum manni í hug að með slíkum hætti sé hægt að leysa svokölluð jafnvægisvandamál í landinu.

Eins og ég hef sagt áður: Þeir sem hafa setið í stjórnarskrárnefnd eða reiknað á vegum hennar eru auðvitað hvorki fífl né illmenni. Þeir hafa einfaldlega verið að taka að sér verkefni sem eru óleysanleg. Það má segja að það sé ekki mikið vit að sjá ekki það, sem allir sáu fyrir fjórum árum, að verkefnið var óleysanlegt. Hins vegar var það siður í flokkakerfinu í gamla daga, meðan það réði betur við sjálft sig, að freista þess að ráða við hraðskákina, geta leyst mál á örfáum dögum eða vikum fyrir kosningar, en flokkakerfið er orðíð svo ónýtt, baklandið er svo fáliðað, talentinn er svo lítill, að þeir ráða ekki við hraðskákina lengur. Þessir karlar, sem hér miðstýrðu flokkakerfinu 1959, Eysteinn, Bjarni heitinn Benediktsson o. fl., kunnu þessa hraðskák, en núverandi forusta í þessu flokkakerfi, og satt að segja í félagskerfinu víða, ræður ekkert við slíka leiki. Þess vegna er þetta mál komið í fullkomið klúður.

Ég vil segja það, að verið er að yfirbjóða stillta þm. þéttbýlisins, eins og okkur hv. 7. þm. Reykv. og bjóða þá betur í atkvæðisrétti, en það er náttúrlega svo einfalt, svo ómerkilegt og svo lágkúrulegt að engu tali tekur, enda sýnist mér kjósendur almennt taka undir sjónarmið mín og munu enn frekar gera í þeim kosningum sem fyrir stafni eru. Ég sé ekki betur en það blasi um það bil við. Og það er ekki aðeins verið að yfirbjóða hv. 4. þm. Reykv., heldur einnig jafnaðarmenn af landsbyggðinni, skulum við segja, eins og hv. þm. Karvel Pálmason og ganga fram fyrir skjöldu í mannréttindamálum. Æ, ég veit það ekki, en a. m. k. vona ég að sá skörulegi hópur af lítt stjórnreyndu fólki, sem hér verður næsti þingflokkur Bandalags jafnaðarmanna, fari ekki á slíkt yfirboðsról.

Kjarni málsins, herra forseti, er sá, að í þeim till. sem við flytjum sem seríu brtt. við þetta frv. og eru í stjórnkerfismálum hugmyndafræði Bandalags jafnaðarmanna er verið að gera það eitt að færa til jafnvægisásinn, að búa til nýtt og skynsamlegt jafnvægi á milli sumpart ólíkra hagsmuna og sjónarmiða í þéttbýli og í dreifbýli. Vitaskuld er vissu ójafnvægi viðhaldið, það er auðvitað alveg ljóst, en líka er ljóst að ekki er verið að afnema þingræði að því er fjárlög varðar, að því er lagasetningu varðar, að því er eftirlitsvald varðar. Það er verið að afnema það að því er skipan ríkisstjórnar varðar og eftir sem áður munu að þessu leytinu til hagsmunir hinna dreifðu byggða vega þyngra. Ég segi að þó að ég sé þm. með hækkandi gengi hér í Reykjavík stend ég ótrauður á því að reka áróður fyrir hugmyndafræði af þessu tagi og ég stend jafnt á vinnustaðafundi í Landsbankanum í Reykjavík sem á fundi vestur á Ísafirði og ber að því leyti af hinu staðnaða fjórflokkakerfi að ég segi hið sama í miðri Reykjavík, á fjörðum vestur og á nesjum norður. Þetta er hægt. Það er furðulegt að aðeins skuli vera eitt lítið bandalag með einn — að vísu nokkuð góðan — þm. sem hefur efni á því að hegða sér með þessum hætti meðan flokkakerfið gamla er þverklofið upp og niður. Ef til væru — svona almennt — heiðarlegri fjölmiðlar í landinu vissi fólk auðvitað meira um það. Ég nefni aðeins dæmi af Alþfl. Ég held að það séu fjórir á móti þessu. Þeir eru níu eftir og fjórir á móti. (Gripið fram í.) Ha, ég veit það ekki.

Sá sem andæft hefur þessu og skilur ekkert í að sá sem nú stendur í ræðustól skuli vera farinn úr Alþfl. nefndi tvö mál sem þau væru miklir talsmenn fyrir í hinum gamla Alþfl. Annað er um eftirlitsvald þingnefnda. Það er fyrsta frv. sem ég flutti hér á þingi 1978. Hitt er um afnám brbl., sem rétt er að þingflokkur Alþfl. flutti í haust og ég var 1. flm. að. Þakka skyldi þeim að hafa þetta enn á stefnuskrá sinni. En það skiptir ekki máli. Aðalatriðið er hitt, að áðan var spáð styrjöld á milli framkvæmdavalds, þar sem einn maður hefur eitt atkv., og löggjafarvalds, þar sem sanngjarnt tillit er tekið til hagsmuna landsbyggðar, og sagt að svona kerfi mundi fela í sér að hér væri stöðugt blóðugt stríð um yfirráðin yfir fjármagninu á milli þessara og þýddi allt að vikulegar eða mánaðarlegar þjóðaratkvgr.

Ég vil aðeins segja það, og það er alveg rétt, að þjóðaratkvæði er sett inn í þessi drög að franskri fyrirmynd. Þar segir okkur reynslan að framkvæmdavald svona kosið og löggjafarvald kosið með ójafnri aðferð, skulum við segja, — vitneskjan um þetta stjórnmálalega vopn gerir það að verkum að menn mætast með skynsamlegri hætti á miðri leið. Eins og um allar svona hugmyndir liggur á bak við þær trú á manninn og trú á því að menn hegði sér skynsamlega! Öll stjórnkerfi eru undir því komin og alveg sama hvort menn tala um þingræði, um skilninginn að þingið eitt myndi ríkisstjórnir og felli þær, eða þjóðræði, þar sem þjóðin kýs ríkisstjórn og felli hana þá. Hvort tveggja þessara stjórnkerfa er undir því komið að mannskepnan hagi sér sem siðuð vera sé. Reynsla í Frakklandi segir að menn eru ekki að efna til styrjaldar af þessu tagi. Auðvitað mundi það ekki heldur vera svo hér, en einhvern tíma gæti slíkt skeð. En að spá upplausn og tíðum árekstrum, sem endi svo í gerð þjóðarinnar í málum eftir mál, er auðvitað alveg fráleitt.

Stjórnlist kjörins framkvæmdavalds af þessu tagi felst í því að stjórna með þingi og ekki á móti því, mynda ríkisstjórn inni í þingi ef þarf. Þingið vegur eftir sem áður þungt. Það fer með fjárlagavaldið, það fer með löggjafarvaldið í það heila, en hinir geta beitt þjóðaratkvæði ef þeir vilja ekki framkvæma lög. Það er ekki verið að brjóta á bak aftur þéttbýli eða dreifbýli — alls ekki dreifbýli. Það er það sem eftir stendur af þessari lítilmótlegu gagnrýni, þessari tilraun hér inni í Reykjavík að yfirbjóða rólynda örugga þm. eins og okkur hv. 7. þm. Reykv., að bjóða betur í atkvæðisrétti. Það er svo yfirmáta ómerkilegt fyrir nýaðflutta manninn að engu tali tekur. En látum svo vera.

En aðalatriðið er að varnagli er sleginn um að hvor aðilinn um sig geti beitt þjóðaratkvæði. Menn geta haft skoðanir á því að æskilegt sé að beita þjóðaratkvæði oftar en ekki. Ég er t. d. þeirrar skoðunar. Ég get vel skilið að aðrir menn séu annarrar skoðunar í þeim efnum. Aðalatriðið er þó hitt, að sá varnagli er til staðar vegna þess að Bandalag jafnaðarmanna er að leggja til að jafnað sé öðrum megin, en hagsmuna dreifbýlis sé gætt hinum megin. Það býr nærri fjórðungur ur milljón manna í landi sem er meira en 100 þús. ferkm. Aðeins þetta hefur í för með sér sérstakar aðstæður og við eigum að taka mið af þeim. Það erum við að gera. Ég treysti mér í umr. við þann sem sterkari er á skoðanasvellinu en sá sem hér hefur gagnrýnt, og það í miðri Reykjavík, til varnar sjónarmiðum Bandalags jafnaðarmanna.

Að öðru leyti, herra forseti, hefur í löngu máli verið gerð grein fyrir þeim fjölmörgu brtt. sem ég hef mælt hér fyrir. Ég undirstrika, og veit að hv. þm. vita um það, að saman mynda þær seríu sem er drög að nýju frv. að öðruvísi stjórnarskrá. Nokkur atriði standa þó sjálfstæð. Ég nefni afnám greinar um brbl., nefni afnám greinar sem fjallar um þingrofsrétt og síðast en ekki síst nefni ég þá grein, sem við viljum bæta við 31. gr., þar sem kveðið er á um þingmannafjöldann, um kosningaaðferðina. Hún er mjög veigamikil. Það er mjög veigamikill liður í okkar stefnumörkun.

Hið forkostulega fjórflokkakerfi hefur lýst því yfir í greinargerð með þessu frv. að stefnt skuli að, þ. e. gamla orðalagið, „auknu lýðræði og sérstakri valddreifingu“. Ég geri mér vonir um að einn og einn af þeim hátimbruðu herrum muni þess vegna greiða atkv. till. sem fer í þá átt, en auðvitað kolfellur hún eins og annað það sem við erum að leggja til. Að þessu leyti þó hefur brautin verið rudd.

Það er einnig orðið deginum ljósara að við erum að fara út í kosningabaráttu þar sem þessar hugmyndir hafa verið kynntar og verða kynntar. Mín skoðun er sú, að allur almenningur í landinu eigi eftir að átta sig á því að hann hefur verið blekkingum beittur af formönnunum fjórum með því frv. sem þeir hafa lagt fyrir, að frv. er ein blekking, ef frá er skilin lækkun kosningaaldurs í 18 ár, og að frv. fjallar um ekkert annað en fjölgun um þrjá þm. Svo ætla þeir kannske Árna Johnsen og Gunnari Schram að vinna úr þessu á næsta þingi eða hverjum öðrum sem nú sitja hér ekki, en eiga eftir að sitja hér. Allt þetta á fólk eftir að skilja þegar það fær betri upplýsingar um það sem hér gerist. Þá held ég að margt fólk í þessu landi, og jafnvel fleira en nú gerir, líti í vaxandi mæli til nýrra lausna og annarra átta í þessum efnum.

Herra forseti. Það var ekki meiningin að halda uppi neinu frekara þófi hér. Ég skal fúslega viðurkenna að að hluta til hefur það verið gert. Notað hefur verið lengra mál en kannske hefði þurft. Ástæðan er að okkur sumum þykir þetta vera alvörumál mikið.

Ég vil sérstaklega að lokum taka út eina brtt. sem mér þykir skipta nokkru máli. Það er afar skemmtilegt að sjá hvernig fulltrúar flokkakerfisins gamla munu skiptast í þeirri atkvgr. á morgun. Það er till. um að kjósandanum verði gert heimilt að greiða atkv. með þeim hætti að hann merki við raðaðan lista, samansettan af fáum eða mörgum eftir atvikum, sem kemur löggjöf ekkert við, að hann fái að merkja við einn einstakling eða marga einstaklinga. (GJG: Áttu við Dagsbrúnarkerfið?) Demokrat Guðmundur J. Guðmundsson, hv. 7. þm. Reykv., hefur talað.

Það sem skiptir máli í þessu er að löggjafinn getur ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að hópar sem telja sig beitta órétti, eins og konur eru í vaxandi mæli farnar að gera, telja það málstað sínum til heilla — telji þær svo hafa þær auðvitað rétt fyrir sér í lýðræðislegum skilningi talað — að bjóða fram sérstaklega.

Annarra sjónarmiða, sjónarmiða umhverfisverndarmanna, er farið að gæta í sama skilningi. Þó að kannske sé ekki um framboð að ræða nú kann það að verða innan ekki langs tíma.

Og við horfum á fleiri og fleiri skoðanir fólks sem finna ekki hljómgrunn í flokkakerfinu. Mér er sagt að Bandalagsfólk ætli að búa til slíkt plakat í einu kjördæmi landsins: Gegn flokkunum — X C. Menn segja ekki svona að ástæðulausu. Því finnst það vera allt eitt og sama fólkið sem merkt er D og merkt er G. Af þeim ástæðum búa menn til framboð fyrir sérstök ein sjónarmið og þegar þetta er orðið félagsmynstrið í landinu á löggjafinn að viðurkenna það og hann á að gefa kost á annars konar mynstri. Ef konur eða karlar vilja kjósa konur þvert af flokkakerfinu, menn sem eru með Blönduvirkjun eða menn sem eru á móti Blönduvirkjun eða hver önnur sjónarmið sem mönnum finnst skipta meira máli en einhver uppstokkun sem mótaðist að meira eða minna leyti til í fyrri heimsstyrjöld og fram í kreppu, þá á fólk að eiga kost á því.

Hét er nefnilega verið að takast á um mjög veigamikil sjónarmíð. Flokkakerfi og fjölmiðlakerfi, meira og minna á þess vegum, heldur því mynstri að fólki að einhver veigamestu og kannske veigamestu sjónarmið í landinu séu félagsleg sjónarmið. Hver eru félagsleg sjónarmið? Það er það sem Sigurður Grímsson orti á sinni tíð: Mér fannst ég finna til. Ef mönnum finnst eitthvað skipta máli í félagslegum efnum skiptir það máli. Það er kjarninn. Ef mönnum finnst skipta máli að sjónarmið minnihlutahóps, sem telur sig órétti beittan, vegi þyngra en einhver uppskiptisjónarmið stjórnmálaflokka byggðra á heimskreppunni miklu skiptir það máli. Þá á fólk að fá að mynstra sín sjónarmið í lýðræðislegum kosningum með þeim hætti. Þetta mun væntanlega leiða til þess að fylkingar munu leysast upp eins og þær eru nú og umskapast. Eitt grínið í þessu t. d. í kvöld er að það skaðar ekki að nefna það, það er svo augljóst, að þetta mynstur gengur ekki. Þessi brtt., herra forseti, stendur því sjálfstætt fyrir sínu þó svo hún hangi saman við þær hinar meiri stjórnkerfisbreytingar sem við erum að leggja til.

En allt um það. Ég geri ráð fyrir að fundi sé um það bil að ljúka. Það er augljóst að við andstæðingar þessa hlægilega frv. munum að því leyti tapa að það verður samþykkt. Það munu einnig ekki verða eins mikil mótmæli út um samfélagið. Ég hef sagt áður að ég tel að þetta frv. veki heldur óánægju í dreifbýli og fyrirlitningu í þéttbýli, en hins vegar eru enn heldur litlar hugmyndir, sennilega, vítt og breitt um landið um hvað þetta inniheldur og hvað ekki. En allt um það. Þetta er síðasta umr. í þessari deild. Flokksaginn mun verða meiri í hinni. Og við verðum að bíða eftir atkvgr. á morgun.