09.03.1983
Efri deild: 61. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2743 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

130. mál, málefni fatlaðra

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur tekið þetta mál til meðferðar og mælir með að frv. verði samþykkt með breytingu sem till. er gerð um á sérstöku þskj.

Mál það sem þetta frv. fjallar um er umfangsmikið og þýðingarmikið. Það má nokkuð marka af því, að málið hefur verið lengst af á þessu þingi til meðferðar í hv. Nd. og hjá hv. félmn. Nd. Það kemur ekki til þessarar hv. deildar og til félmn. Ed. fyrr en nú á allra síðustu dögum þingsins. Það var því ekki langur tími til stefnu fyrir félmn. til að vinna í þessu máli. Þetta var þeim mun bagalegra þar sem lögð er alveg sérstök áhersla á það að málið nái fram að ganga á því þingi sem nú er að ljúka. Það verður að viðurkenna það, að hv. félmn. hefur ekki unnið svo í þessu máli sem skyldi, af þeim ástæðum sem ég hef nú greint frá. En það verður þó að hafa í huga, að mál þetta kemur til þessarar hv. deildar og til hv. félmn. Ed. sem ágreiningslaust mál úr Nd. og með tilliti til þess að málið er ekki ágreiningsmál í Nd. þótti félmn. mögulegt að afgreiða það með svo skjótum hætti sem raun er á.

Hins vegar hefur nefndin talið nauðsynlegt að gera eina brtt. við frv. Það er brtt. á þskj. 519. Þessi brtt. er um ákvæði til bráðabirgða II, um það að 2. mgr. 2. tölul. orðist svo sem segir í brtt. Hér er ekki um að ræða efnisbreytingu en leiðrétt bagaleg villa, því að í bráðabirgðaákvæðinu, sem hér um ræðir, er talað um Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra og á öðrum stað Framkvæmdasjóð öryrkja. Hér á að vera í báðum tilfellum talað um Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það leiðir af því að IX. kafli frv. fjallar einmitt um sjóð, sem heitir Framkvæmdasjóður fatlaðra en ekki Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra, eins og stendur í bráðabirgðaákvæði því sem ég hef vitnað til.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég ítreka það sem ég áður sagði, að við hefðum gjarnan viljað fá frekari tíma til umfjöllunar um málíð, en ég hef greint frá því hvers vegna við höfum tekið það ráð að afgreiða það með svo skjótum hætti sem raun ber vitni um. Ég vil í því sambandi og benda á það, sem ég hef ekki gert áður, að það er gert ráð fyrir því samkv. frv. að þær reglugerðir, sem gefnar verða út samkv. væntanlegum lögum, verði sendar félmn. beggja deilda til umfjöllunar. Með því að svo er þykir okkur nokkur trygging fyrir því að vel sé á því máli haldið sem varðar útgáfu reglugerða og er þýðingarmikið í þessu sambandi. M. a. af þessari ástæðu er okkur hugarhægra við svo skjóta afgreiðslu á máli þessu.