09.11.1982
Sameinað þing: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

58. mál, birgðir afurða

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa fyrri fsp., sem ég flyt hérna, um birgðir afurða. Ég spyrst hér fyrir um, hve miklar birgðir kindakjöts voru hjá afurðasölufyrirtækjum á tilteknum dögum í júní, júlí, sept. og okt. og hvert var verðmæti þeirra, í öðru lagi hjá hvaða fyrirtækjum þessar óseldu birgðir voru á framangreindum dögum og í þriðja lagi hve mikil afurðalánin voru út á þessar afurðir á hverjum framangreindra daga og hverjir höfðu fengið þau.

Í raun og veru skýra þessar fsp. sig sjálfar, svo að ég þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Ég tel nauðsynlegt að fá þessar upplýsingar til að geta gert mér grein fyrir hverjar birgðir kjöts eru hjá afurðasölufyrirtækjum á hverjum tíma, hverjir eru með þessar birgðir og hve há afurðalánin eru á hverju tímabili fyrir sig og jafnframt hverjir hafa fengið þau. Að þessum upplýsingum fengnum mun ég leggja mat á hvernig þessum málum er háttað.