09.03.1983
Efri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2747 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

149. mál, kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur tekið frv. þetta til meðferðar og mælir með að það verði samþykkt.

Mér þykir rétt að taka það fram, að þegar frv. var lagt fram í hv. Nd. var gert ráð fyrir, samkv. 2. gr. frv., að stofnsett skyldi sérstakt bæjarfógetaembætti í kaupstaðnum, Ólafsvíkurkaups!að. En í meðferð Nd. á málinu var samþykkt brtt. á þá leið, að 2. gr. frv. hljóðaði svo, að sýslumaður Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu skyldi jafnframt vera bæjarfógeti kaupstaðarins. Með þessari breytingu ber frv. að í þessari hv. deild.

Þetta mál mun hafa verið rætt sérstaklega af hálfu hreppsnefndarmanna í Ólafsvíkurhreppi og það komu sjö hreppsnefndarmenn ásamt sveitarstjóra Ólafsvíkurhrepps á fund félmn. í gær þegar n. hafði málið til umfjöllunar. Það varð niðurstaðan hjá þeim heimamönnum í Ólafsvík eða hreppsnefndinni að því var lýst yfir á þessum fundi, að hreppsnefndin væri því samþykk að frv. væri samþykkt óbreytt, þ. e. að sýslumaður Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu skyldi jafnframt vera bæjarfógeti kaupstaðarins.

Félmn. tók mið af þessu sjónarmiði og lagði því til, eins og ég hef áður sagt, að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá Nd.