09.11.1982
Sameinað þing: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

58. mál, birgðir afurða

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. hefur borið hér fram fsp. um birgðir afurða. Svar við þessari fsp. mundi verða, ef það væri rakið nákvæmlega hér í þessum ræðustól, í mjög mörgum liðum þannig að tæplega er tími til þess í fsp.-tíma. Ég mun því rekja meginefni svars við fsp., en fara fram á það við fyrirspyrjanda að hann láti sér nægja að fá afhent ítarlegra svar skriflega, sem hægt væri að útbýta á Alþingi ef þess væri óskað.

Í fyrsta lagi er spurt: „Hve miklar voru birgðir kindakjöts hjá afurðasölufyrirtækjum 1. júní s.l., 1. júlí, 1. sept. og 1. okt. og hvert var verðmæti þeirra?“

Þann 1. júní voru til 4169 tonn af dilkakjöti og 1065 tonn af kjöti af fullorðnu fé; alls 5234 tonn að verðmæti 292.5 millj. kr. Þann 1. júlí voru til 2981 tonn af dilkakjöti og 1007 tonn af kjöti af fullorðnu fé; alls 3988 tonn að verðmæti 277.8 millj. kr. Þann 1. sept. voru til 1413 tonn af dilkakjöti og 61 7 tonn af kjöti af fullorðnu fé; alls 2030 tonn. Verðmæti þessa voru 108.5 millj. kr. Þann 1. okt. voru til 550 tonn af dilkakjöti og 457 tonn af kjöti af fullorðnu fé; alls 1007 tonn að verðmæti 49.1 millj. kr.

Í öðru lagi er spurt: „Hjá hvaða fyrirtækjum voru þessar óseldu birgðir á framangreindum dögum?" Svar: Birgðir kindakjöts 1. júlí s.l. voru á vegum 44 aðila af 46 sem slátra og versla með kindakjöt. Tveir sláturleyfishafar höfðu lokið sölu á afurðum þess sauðfjár sem þeir fengu til slátrunar haustið 1981. 4 höfðu lokið sölu alls kindakjöts 1. júlí, 9 höfðu lokið sölu 1. sept., en ekki er fullbúin skrá um hverjir höfðu lokið sölu á kindakjöti 1. okt. s.l. Af einstökum aðilum má nefna, að þann 1. sept. voru 162 tonn í birgðum hjá Sláturfélagi Suðurlands, rúmlega 1700 tonn hjá kaupfélögum og um 150–160 tonn hjá öðrum, þar á meðal einkaaðilum með sláturleyfi.

Birgðir kindakjöts voru óvenjumiklar í haust þar sem útflutningsmarkaðir brugðust. Þau sláturhús sem hafa leyfi til útflutnings, sem heilbrigðisyfirvöld viðkomandi landa veita, eru langflest í eigu kaupfélaga, sem varpar ljósi á hvers vegna birgðir kaupfélaga voru svo miklar hlutfallslega í haust.

Ég vil svo endurtaka það, að ég hef undir höndum skrá þar sem sundurliðað er eftir einstökum fyrirtækjum hvar þessar birgðir eru til staðar á þeim dagsetningum sem spurt er um, en óska eftir því að fá að afhenda hana skriflega vegna þess að það er of tímafrekt verk að lesa hana alla upp.

Í þriðja lagi er spurt: „Hve mikil voru afurðalánin út á þessar afurðir á hverjum framangreindra daga og hverjir höfðu fengið þau?“

Svar: 1. júní var 21 lánshafi hjá Seðlabanka Íslands með aturðalán út á birgðir kindakjöts, alls 143.6 millj. kr. Það eru um 49% af andvirði kjötsins, sbr. áðurnefnda tölu um heildarverðmæti þess þann 1. júní s.l. 1. júlí voru lánshafar jafnmargir og alls voru lán frá Seðlabankanum 122.3 millj. kr. 1. sept. voru lánshafar 20 með 55.9 millj. kr. lán. Og 1.okt. voru þeir 14 með lán samtals 26.6 millj. kr. Rétt er að taka fram, að Samband ísl. samvinnufélaga tekur afurðalán út á kindakjöt fyrir hönd ýmissa sláturleyfishafa í umboði þeirra og jafnframt að þær upphæðir sem nefndar voru eru hámarkslánaréttur samkv. birgðaskýrslum. Vegna þess að lánin eru veitt út á kindakjöt og innmat án sundurliðunar í skýrslum Seðlabankans er ómögulegt að sjá hvort þessi lánaréttur hefur verið fullnýttur umrædda mánuði.

Til viðbótar afurðalánum Seðlabankans veita viðskiptabankarnir svokölluð viðbótarlán, sem eru reiknuð sem 40% af fjárhæð afurðalána Seðlabankans.

Ég mun jafnframt fara þess á leit við hv. fyrirspyrjanda, að hann sætti sig við að fá sundurliðun skriflega á þessum lánveitingum Seðlabankans til einstakra fyrirtækja á þessum dagsetningum, þannig að ekki þurfi að lesa það upp hét, og vænti þess að þar með sé þessari fsp. svarað.