09.03.1983
Efri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2749 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

149. mál, kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég geri að sjálfsögðu ekki aths. við það sem hv. 5. þm. Vesturl. og hv. 3. þm. Vesturl. hafa talað um mikilvægi þess að Ólafsvíkingar hafi sem besta þjónustu, þó að bæjarfógetaembættið sé ekki stofnað í kaupstaðnum. En að gefnu tilefni þykir mér rétt að taka fram að það er hægt að setja á stofn skrifstofu frá sýslumannsembættinu í Stykkishólmi í Ólafsvíkurkaupstað, hvenær sem vilji stjórnvalda er fyrir hendi, án þess að það sé sérstök heimild í lögum til þess. Það þarf ekki að setja sérstaka heimild í lög til þess. Við höfum líka dæmi fyrir okkur í þessum efnum, þar sem ýmsum hreppum hafa á undanförnum árum verið veitt kaupstaðarréttindi án þess að sérstakt bæjarfógetaembætti sé þar stofnað, en hins vegar gripið til þess ráðs að opna skrifstofu frá því sýslumannsembætti, sem næst er þessum kaupstað.