09.11.1982
Sameinað þing: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

267. mál, bann við því að bændum sé greitt fullt verð fyrir afurðir

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessar fjórar fsp. eru þessa efnis: Það er spurt samkv. hvaða lagaheimild Framleiðsluráð landbúnaðarins geti lagt bann við því að bændum sé greitt fullt verð fyrir sauðfjárafurðir frá haustinu 1981. Ennfremur er spurt um hvort þetta bann hafi verið lagt á í samráði við landbrh. Þá er spurt um hvert tilefni þess er að Framleiðsluráðið taldi sig knúið til að banna sláturleyfishöfum að greiða bændum fullt verð. Og í fjórða og síðasta Lagi: Mega bændur eiga von á því að sláturleyfishófum verði nú á næstunni bannað að greiða þeim fullt verð fyrir afurðir haustsins 1982?

Það er ekki óeðlilegt að slíkar fsp. séu bornar fram þegar slíkar auglýsingar og samþykktir eru gerðar. Grundvallarverðið, sem bændur eiga að fá, hygg ég að flestar aðrar starfsgreinar í þjóðfélaginu vilji fá greitt án þess að neinar refjar fylgi. Því skiljum við það ekki, sem erum ekki mikið inni í landbúnaðarkerfinu, hvernig slíkt getur átt sér stað. Líka veit ég dæmi þess, að til eru þeir sláturleyfishafar sem greitt hafa fullt grundvallarverð og einnig nokkru betur.

Ég býst við að flestar starfsstéttir mundu illa sætta sig við að fá ekki greidd laun sín að fullu. Undarlegt væri t.d. ef verkalýðsforustan gæfi út tilkynningu um að halda ætti eftir ákveðnum hluta af launum verkamanna eða ef útgerðarmenn gæfu út tilkynningu um að fiskkaupendur ættu að halda eftir ákveðnum hluta af kaupverði þess fisks sem útgerðin hefur lagt á land. Mér finnst því nauðsynlegt fyrir okkur þm., sem ekki erum kunnugir þessu kerfi að komast nokkuð niður í því. Það er af þessari ástæðu sem ég flyt þessa fsp. og vænti greiðra svara frá hæstv. ráðh. eins og við fyrri fsp. áðan.