09.03.1983
Neðri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2757 í B-deild Alþingistíðinda. (2639)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég sé mig knúinn til þess að gera hér aths. við þá fullyrðingu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, sem hann flutti hér í sinni ræðu áðan, að þrír flokkar hefðu ákveðið — og þar með Alþfl. að stefna þjóðinni út í tvennar kosningar á þessu ári. Ég fullyrði að Alþfl. hefur ekki tekið slíka ákvörðun. Ég mótmæli því harðlega að þessi hv. þm. fullyrði slíkt í ræðu án þess að nokkur fótur sé fyrir því. Mín persónulega skoðun, svo að hún komi hér líka fram um þetta vegna þessara ummæla, (Forseti: Þetta er um þingsköp en ekki um þig.) er sú, að ég tel það algerlega fráleitt að stefna þjóðinni út í tvennar kosningar við þær kringumstæður sem hér eru.

Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að bera hönd fyrir höfuð þeirra aðila, sem ekki eiga hér hlut að máli, þ. e. Alþfl., og ég tel ástæðulaust hjá hæstv. forseta að gera aths. við það, þó að slíkt komi hér fram, þegar rangtúlkað er og beinlínis ósannindi eru flutt hér úr ræðustól.