09.11.1982
Sameinað þing: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

267. mál, bann við því að bændum sé greitt fullt verð fyrir afurðir

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör við þessum fsp. Þessi svör gefa tilefni til allviðtækrar umr. um þessi mál, sem ekki er tækifæri til nú.

En í fyrsta lagi finnst mér undarlegt hver dráttur er á greiðslu útflutningsbóta frá hendi fjmrn., eins og hæstv. landbrh. gat um. Hvernig stendur á þessum drætti? Af hverju er þetta látið bíða svona von úr viti? Ég skil ekki heldur hvað tefur útflytjendur þessara afurða að gera gjaldeyrisskil tafarlaust, en þau liggja ekki að öllu leyti fyrir, eins og hæstv. ráðh. sagði.

Nú skil ég að það er ekki hægt í svona svari að lesa allt upp. Ég vildi því í fullri vinsemd fara þess á leit við hæstv. landbrh. að ég fengi afrit af þessu bréfi Framleiðsluráðsins, sem hann las upp úr, ef þar væri eitthvað sem skýrði frekar.

Eins furða ég mig á því, að ábyrgð á greiðslu verðskerðingar er hjá sláturhöfum. Hversu lengi eiga sláturhafar að bera ábyrgð á einhverri verðskerðingu sem kemur eftir dúk og disk? Eru engin tímatakmörk sett fyrir því hversu lengi sláturhafar séu skyldir að biða? Ég furða mig á því. Það er nú ekki litið að halda eftir einhverri ákveðinni hlutdeild afurðaverðs í 60% verðbólgu og við þá vexti sem núna eru.

Og lítum á sláturkostnaðinn á þessu hausti. Slátrun kostar 15,78 kr. á hvert kjötkg og fyrir hvert kg af gæru 12,28. Þá er miðað við að gæran sé reiknuð 21% af kjötþunga. 15 kg skrokkur og 3.15 kg gæra gerir 275,40 kr. í sláturkostnað, en grundvallarverðið er 979,06 kr. Sláturkostnaður er kominn í 28.1% af grundvallarverði. Það er dregið frá strax. Hver ætli þessi sláturkostnaður sé í reynd, þegar tekið er tillit til þess dráttar sem verður á uppgjöri til bænda? Ætli hann sé ekki nálægt 35 eða jafnvel 40%? Fer mönnum ekki almennt að blöskra þessi sláturkostnaður? Gefur það mönnum ekki tilefni til að rifja upp hvort sú stefna hefur ekki verið röng sem hefur verið viðhöfð við uppbyggingu sláturhúsa í landinu á undanförnum árum? Hvað ætli yrði sagt um að standa undir slíkum fjárfestingum, sem eru notaðar í 4–5–6 vikur í mesta lagi á ári? Það væri ekki hátt fiskverðið ef miðað væri við þessa tímalengd hjá hraðfrystihúsunum og fiskverkunarstöðvunum. Ég hugsa að það yrði að gefa fiskinn þá.

Það kemur upp í huga manns að þessi atvinnugrein og þessi stétt, bændastéttin, sé að kafna í milliliðakostnaðinum og töfunum sem verða á því að hún fái laun sin greidd. Ég held því að það sé full ástæða til að rifja alvarlega upp þessi mál öll. Ég er ekki með þessum orðum að ráðast að núv. hæstv. landbrh. Hérna er um miklu alvarlegri og viðameiri ástæður að ræða, sem ná miklu lengra aftur í tímann, og ég held að starfsemi Framleiðsluráðsins þurfi sannarlega endurskoðunar við.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, hér er aðeins um fsp.-tíma að ræða., þó að verið hefði full ástæða til að ræða þessi mál betur, en endurtek þakkir mínar til hæstv. ráðh. fyrir svörin.