09.11.1982
Sameinað þing: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

267. mál, bann við því að bændum sé greitt fullt verð fyrir afurðir

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi gerði að umtalsefni nokkur atriði, í fyrsta lagi hve alvarlegur dráttur væri á greiðslu útflutningsuppbóta. Í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir að útflutningsuppbætur séu 160 millj. kr. Í fjmrn. og með vitund landbrn. hefur verið sett upp greiðsluáætlun varðandi þetta fjármagn og samkvæmt þeirri greiðsluáætlun hefur þegar verið greitt verulega örar en gert var ráð fyrir. Hins vegar er nauðsynlegt að halda eftir af útflutningsbótafé nokkurri fjárhæð til desembermánaðar til að jafna þann reikning sem greiddur hefur verið að lokum af þessu fé, þ.e. vegna vaxta og geymslugjalds.

Vegna þess að verðmætamat Hagstofunnar liggur því miður enn ekki fyrir, sem hefur verið margítrekað gengið eftir, er ekki hægt að segja til um með vissu hvað útflutningsbótarétturinn er mikill fyrir síðasta verðlagsár og þar með á þessu fjárlagaári, en líkur benda til að hann verði í kringum 190 millj. kr. í stað 160 sem eru í fjárlögum. Meðan þetta liggur ekki ljóst fyrir tel ég ekki röksemdir fyrir því að áfellast fjmrh. mjög harðlega þó að nokkur dráttur hafi orðið á því að uppgjör hafi farið fram. Að öðru leyti vænti ég þess, að einhvern næstu daga fái ég þessi gögn frá Hagstofunni, sem leggja grunn að því að unnt sé að gera þetta upp.

Hv. fyrirspyrjandi spurði: Hversu lengi eiga sláturleyfishafar að bíða eftir uppgjöri og bera ábyrgð á verðjöfnunargjöldum? Framleiðsluráð hefur haft þann hátt á síðustu árin, þegar séð hefur verið að fé mundi vanta til þess að ná endum saman, að taka svokölluð verðjöfnunargjöld. þetta hefur ekki verið gert nú og sú ákvörðun hefur verið tekin vegna þess að horfur eru á að mjög lítið muni skorta til þess að unnt sé að gera upp með fullu verði. Ég tel að unnt sé fyrir sláturleyfishafa að biða eins og nú er komið, t.d. 1–2 mánuði eða kannske 3 mánuði, í hæsta lagi fram yfir lok verðlagsársins, til þess að þetta liggi fyrir, en það eru tæplega röksemdir fyrir því að það sé gert lengur. Því ætti uppgjör að fara fram fyrir lok þessa mánaðar.

Í þriðja lagi vakti fyrirspyrjandi athygli á sláturkostnaði, sem væri orðinn mjög hár og kominn í t.d. 15,79 kr. á kjötkg, og spurði hvort mönnum blöskraði ekki. Ég tek undir það, að sláturkostnaður hér á landi er mjög hár. Það hafa af minni hálfu verið sett fram tilmæli um að farið væri mjög ofan í þau mál. Það hefur verið gert af sérstökum mönnum, sem til þess hafa verið settir, og auk þess er það hlutverk sexmannanefndar að fjalla um þau efni, sem er gert við verðlagningu á hverju hausti. En það haggar ekki því, að þessi kostnaður er hár og hækkaði hann þó minna við verðlagningu nú í haust en til að mynda verð á afurðunum sjálfum. Orsökin er auðvitað m.a. sú, eins og fyrirspyrjandi gat um, að þessi fyrirtæki eru rekin stuttan tíma á hverju ári, 2–3 mánuði í flestum tilvikum, sem er nokkuð annað en er í mörgum sláturhúsum erlendis, þar sem slátrun tekur lengri tíma. — En ég vil ekkert um það segja hvort þetta stafi af því að stefnan hafi verið röng. Það var nauðsynlegt að byggja upp sláturhús sem gátu fullnægt þeim kröfum sem settar eru til þess að við getum flutt út þessar afurðir. En það þarf auðvitað jafnframt að hafa í huga, að það er engin nauðsyn að allt sláturhúsakerfi landsins sé sett í það horf sem þar er krafist, heldur megi einnig starfa minni hús, sem geta í ýmsum tilvikum skilað jafngóðri verkun og ekkert síðri.

Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að alvarlegustu vandamálin í sambandi við afkomu bændastéttarinnar eru kannske þau, að það tekur langan tíma að fá greiðslu fyrir afurðirnar og það tekur langan tíma í landbúnaði að fjármagnið sem lagt er í rekstur skili sér í tekjum. Það tekur mun lengri tíma í landbúnaði en flestum öðrum atvinnugreinum. Þetta er sá vandi sem landbúnaðurinn á við að etja í verðbólguþjóðfélagi. Ýmsir töldu að hann væri nægilega mikill til þess að landbúnaðurinn ætti að hafa nokkra sérstöðu, en sú sérstaða er ekki viðurkennd nema af litlum hluta þeirra sem um slík mál fjalla, og er þó auðvitað stefnt að því að aðstaða atvinnugreinanna sé sem jöfnust. En þetta er mjög alvarlegt mál. Þess vegna hefur verið m.a. unnið að því að hækka rekstrarlán, sem gert var mjög verulega á þessu ári. Þess vegna mun ég ýta mjög á að uppgjör fyrir síðasta verðlagsár dragist ekki lengi úr þessu, en það er vitað að til er verulegt fjármagn til þess að það uppgjör geti farið fram.

Hv. 5. landsk. þm. sagði að sumir sláturleyfishafar hefðu greitt fullt verð í nóvembermánuði. Það er allt gott um það að segja, en út úr því kemur þó ekki fullt verð yfir verðlagsárið vegna þess að fullt verð yfir verðlagsárið er meðalverð ársins sem þá hækkar eftir því sem á árið líður. Auðvitað er álitamál hvort ekki þarf eitthvað að taka tillit til þess, þó það sé ákjósanlegt að peningarnir fáist sem fyrst.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta í þessum fsp.-tíma, en þetta eru mál sem væri hægt að tala um lengi og þyrfti þá miklu lengri ræðutíma til.