09.03.1983
Neðri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

187. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir það sem hv. frsm. samgn. sagði hér um vinnubrögð okkar í samgn. í sambandi við þetta frv. Það eru ýmsir hlutir sem við teljum að hefðu þurft að koma til athugunar þegar farið var að endurskoða lög um skipulag fólksflutninga með langferðabifreiðum. Okkur var tjáð að það hefði verið í hug þeirrar nefndar sem undirbjó frv. að gera meira en fram kemur í þessu frv.

Formaður n. spurðist fyrir um það hjá ráðh. hvað hann teldi mikilsvert að þær breytingar sem í þessu frv. felast kæmust í gegn á þessu þingi. Lagði ráðh. mikið upp úr því og við stóðum raunverulega að samþykkt frv. út frá þeirri skoðun að nauðsynlegt væri að tveir þættir, þ. e. breyting á skipulagsnefnd fólksflutninga og breyting á gjaldtöku, kæmust í gegn nú þó að aðrir þættir, sem æskilegt væri að skoða betur, yrðu ekki samþykktir á þessu þingi. Og ég vil undirstrika það, sem hv. frsm. sagði hér áðan, að ég held að það hafi verið samhljóða álit nm. að æskilegt væri að þessi mál væru skoðuð miklu betur og ýmsum lagagreinum breytt umfram það sem í þessu frv. felst.