09.03.1983
Efri deild: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2769 í B-deild Alþingistíðinda. (2683)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta frv. er árangur af alllöngum og ítarlegum viðræðum sem hafa átt sér stað milli fulltrúa flokkanna hér í þinginu. Þær viðræður höfðu það fyrst og fremst að markmiði að leiða í ljós hverjar þær breytingar væru á stjórnskipunarlögum og kosningalögum sem líklegt væri að fá mætti meirihlutafylgi fyrir á Alþingi. Þessar viðræður hvíldu fyrst og fremst á formönnum flokkanna og að hluta til á formönnum þingflokka. Ég tel að þessir aðilar allir hafi lagt sig fram um að ná eins víðtækri samstöðu og þeir töldu unnt um þessar breytingar og ná fram eins góðri skipan þessara mála og þeir töldu mögulegt miðað við aðstæður.

Þetta frv. hefur sætt margvíslegri gagnrýni síðustu daga. Það er auðvelt að vera á móti þessu frv., en þeim hinum sömu sem gagnrýna frv. og það samkomulag sem hér hefur myndast reynist erfitt að benda á aðrar tillögur sem njóti meirihlutafylgis á Alþingi.

Menn segja: Ja, þetta frv. til stjórnskipunarlaga felur einungis í sér fjölgun þm. um þrjá. Að vísu er það ekki öldungis rétt því að það eru hér nokkur önnur ákvæði varðandi kosningarrétt, t. d. lækkun hans í 18 ár og varðandi kjörgengi. En þetta segir ekki allan sannleikann vegna þess að að baki þessa frv. býr annað frv., sem fylgir með í fylgiriti í drögum, þar sem gert er ráð fyrir mikilli umbreytingu á kosningalögum. Sú umbreyting felur í sér margvísleg nýmæli. En til þess að fylgja megi fram þeim kosningalögum þarf þær breytingar á stjórnarskránni sem hér er gert ráð fyrir. Þetta frv. gerir sem sagt ráð fyrir að þm. verði 63. Í drögum þeim að kosningalögum sem fylgja er nánar gerð grein fyrir því hvað í þessu mundi felast að öðru leyti: Fjölgun þm. í Reykjavík og Reykjanesi og ákveðinn þm.-fjöldi í öllum kjördæmum landsins, gert ráð fyrir 19 þm. í Reykjavík, 11 í Reykjanesi, 7 á Norðurl. e., 6 á Suðurl. og 5 í öðrum kjördæmum. Í því að tiltaka þessa tölu með þessum hætti felst líka sú breyting að fjöldi þm. úr hverju kjördæmi er ákveðinn — að vísu með einni undantekningu að því er varðar einn þm. sem getur lent í hvaða kjördæmi sem er.

Eins og þessum málum er skipað nú er fjöldi þm. úr hverju kjördæmi mjög breytilegur og það mun hafa hent öll fimm manna kjördæmin að hafa verið á tímabilinu frá 1959 með allt frá fimm og upp í sjö til átta þm. Nú verður ákveðið samkv. þessu hver þm.-fjöldinn yrði úr hverju kjördæmi. Jafnframt hefur komið í ljós að það er galli á kosningalögum okkar hver reikniaðferð er notuð við úthlutun þingsæta. Hún getur þýtt verulegt óréttlæti. Úthlutun þingsæta í kjördæmi getur gert næsta ókleift, eins og hún er nú, að ná jöfnuði á landsbyggðinni. Í rauninni hafa menn þess vegna verið með verulegt misrétti í úthlutun í kjördæmum, sem þeim hefur ekki tekist að leiðrétta við úthlutun uppbótarþingsæta.

Sú nýbreytni, sem hér er lögð til, þýðir að það næst meiri jöfnuður, meira réttlæti, í úthlutun þingsæta í kjördæmum. Jafnframt eru jöfnunarsæti milli stjórnmálaafla tilgreind og með hvaða hætti þau skuli gerð í þessum drögum að kosningalögum. Það sýnir sig á þeim reikniprófunum sem hafa verið gerðar að það næst verulega meiri jöfnuður milli stjórnmálahreyfinga, meira réttlæti, þ. e. þingstyrkurinn verði í betra samræmi við atkvæðastyrk.

Ég skal ekki rekja þessa efnisþætti nánar, en víkja aðeins að ýmiss konar gagnrýni sem hefur komið fram í sambandi við þetta frv.

Ég segi það fyrst, að það er mín persónulega skoðun að svokallað vægi atkv. eigi alls staðar að vera jafnt eða að kosningarrétturinn skuli vera jafn, eins og ég mundi allt eins orða það. Ég hef líka talið að heppilegt væri að landið yrði eitt kjördæmi. En þrátt fyrir þessa skoðun hlýtur hver og einn að líta til þess, hvaða áfanga sé hægt að ná á hverju stigi.

Þeirri gagnrýni er mjög haldið á loft varðandi þetta frv., að það sé ekki annað viðunandi en eitt atkv. komi á hvern mann, að atkvæðisréttur sé alls staðar jafn. Þetta er í sjálfu sér rétt að mínum dómi. En á hinn bóginn hlýt ég að líta á hvaða möguleikar séu á að ná fram jöfnuði. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að draga mjög verulega úr misvægi. Misvægið verður heldur minna að því er suðvesturhorn landsins varðar gagnvart hinum dreifðari byggðum en það var 1959. Ég tel þetta verulegan áfanga. Mér finnst ekki að þeir sem vilja berjast fyrir því að ná fullum jöfnuði í þessum efnum geti hafnað þeim kosti sem hér er meirihlutavilji fyrir einkum og sér í lagi þegar ljóst er að þeirra hugmyndir njóta alls ekki meirihlutafylgis á Alþingi og tillöguflutningur þar að lútandi er þess vegna gagnslaus.

Nú segja aðrir: Þm. eiga að vera 60. Jafnvel segja þeir um leið að það skuli vera fullur jöfnuður í atkvæðisrétti. Þeir sem segja jafnframt að eigi að vera fullur jöfnuður í atkvæðisrétti falla í sömu gryfjuna og hinir fyrri, nefnilega að fyrir því er ekki þingmeirihluti hér á Alþingi að stíga lengra skref en hér er gert ráð fyrir. Þeir sem binda sig við að þm. skuli vera 60 hafa ekki heldur getað sýnt fram á að með þeim hætti sé unnt að ná meirihlutafylgi hér á Alþingi við þá leiðréttingu, þá takmörkun á misvægi, sem hér er gert ráð fyrir. Þeir eru þá að gera því skóna að þeir geti sætt sig við meira misrétti, sem mér sýnist alls ekki hafa komið fram í málflutningi þeirra.

Það hefur líka verið gagnrýnt að með þessu móti sé stigið takmarkað skref með því að binda í stjórnarskrá fjölda þm. í einstökum kjördæmum, lágmarksfjölda þeirra, að menn muni þurfa að lifa við það um langa hríð að þetta misvægi hafi verið bundið í stjórnarskrá. Vissulega er rétt að það er bundið í stjórnarskrá. En vilja þessir sömu menn fórna þeirri leiðréttingu sem hér hefur fengist vegna þessa ákvæðis? Telja þeir að það sé betra að búa við það misvægi sem nú er en að fá þessa leiðréttingu, þó svo að þetta sé bundið í stjórnarskrá? Er það ekki svo, segi ég við þá sem þessari skoðun halda fram, að það aukast líkurnar á frekari leiðréttingu fyrir hvert skref sem stigið er?

Auðvitað geta menn verið þeirrar skoðunar að það eigi að vera mikið misvægi atkv. eftir búsetu. Ég er ekki þeirrar skoðunar og sé þess vegna ekki ástæðu til að fara orðum um það sjónarmið. Ég tel nefnilega að mismunun eftir búsetu eigi að jafna með öðrum hætti, að það eigi ekki að bitna á kosningarrétti.

Við Alþfl.-menn hefðum gjarnan kosið að kosningalögin hefðu verið afgreidd núna líka. Það var stefna okkar. Og okkur þykir mjög fyrir því að það skuli ekki hafa náðst samstaða um að gera þetta svo hér í þinginu. En það væri ánægjulegt ef það mætti enn takast. Rökin fyrir því eru ákaflega einföld.

Við búum við mikla óvissu í efnahagsmálum og þetta þing hefur nú náð víðtækri samstöðu um hvers konar fyrirkomulag skuli taka við. Þess vegna er mun heilbrigðara og hreinskiptara að þeirri afgreiðslu verði lokið núna af þeim mönnum sem eru hér að taka ábyrgð á þessari breytingu. Það gerir líka starf næsta þings auðveldara — þings sem þarf m. a. að takast á við efnahagsmálin. Það mun greiða fyrir því að það verði tekið á efnahagsmálunum ef kosningalögin væru afgreidd núna.

Það var líka stefna okkar Alþfl.-manna að ástæða væri til þess að taka fleiri atriði úr stjórnarskránni með í afgreiðsluna um þessar mundir. En um það náðist ekki heldur samstaða. Nú geta menn vissulega hafa orðið fyrir vonbrigðum með það að hvorugt þetta náði fram að ganga. En engu að síður sýnist mér það rangt sjónarmið að þiggja ekki þá breytingu og leiðréttingu, sem hér er kostur á, einungis vegna þess að ekki náist aðrar eða frekari leiðréttingar. Menn hljóta að vera betur settir að ganga þó frá þessari leiðréttingu en láta allt ógert vegna annarra atriða sem menn hafa áhuga á úr stjórnarskránni eða að því er varðar frekara jafnvægi atkvæða.

Ég endurtek þess vegna, að þegar lög af þessu tagi eru til afgreiðslu hér á þinginu er tillöguflutningur um breytingar gagnslaus nema ljóst sé að fyrir því sé þingstyrkur hér á Alþingi, því að stjórnarskránni og kosningalögunum verður ekki breytt nema meiri hl. sé fyrir því hér á þinginu. Það er í þeim anda sem ég tel að forsvarsmenn flokkanna, formenn flokkanna og þingflokksformenn, hafi unnið við að setja saman það samkomulag sem hér um ræðir.

Þegar menn reifa að hér sé um að ræða fjölgun þm. um þrjá finnst mér að menn ættu að hafa í huga að fyrir fáeinum mánuðum var almælt að þessi breyting og leiðrétting mundi ekki ná fram að ganga öðruvísi en þm. yrði fjölgað um 7–9. Um það lágu reyndar fyrir flokkssamþykktir í ýmsum flokkum. En hér hefur tekist að leysa þetta með 63 þm. Það lágu reyndar líka fyrir yfirlýsingar frá formanni stjórnarskrárnefndar um að búast mætti við því að þm. yrðu 67–69. Þannig yrði málið leyst. Það hefur nú tekist að ná ekkert síðri árangri, miðað við þau markmið sem þeir settu sér um vægi atkv. og um jöfnuð milli stjórnmálahreyfinga, en menn hefðu náð eftir þeim hugmyndum sem á floti voru miðað við 67–69 þm.

Við Alþfl.-menn ályktuðum á flokksþingi í byrjun nóv. um þetta efni. Þá bentum við á að unnt væri að ná þeim markmiðum sem menn settu sér með 63 þm. svo framarlega sem úthlutunarreglum þingsæta væri breytt. Þetta hefur gengið eftir. Ég er ánægður með að það skyldi takast að leysa þetta mál með þessum hætti.

Nú kunna menn að spyrja hvað sé fram undan. Það er skoðun okkar Alþfl.-manna að það sé eðlilegt að kosningar fari fram sem fyrst aftur eftir að þessi stjórnarskrárbreyting hefur verið samþykkt, enda verði hún samþykkt, en á hinn bóginn teljum við að úrlausn efnahagsmála verði að hafa forgang. Þess vegna teljum við ekki rétt á þessu stigi að ákveðið verði nú hvaða dag kosið skuli öðru sinni, hvaða dag kosið skuli eftir að þessi stjórnarskrárbreyting hefur verið samþykkt, sem ég geri ráð fyrir. Það er hlutverk hins nýja þings að ákveða það. En einmitt líka vegna þess hve efnahagsmálin eru brýn og hverja nauðsyn ber til að taka á þeim og til þess að ákveða framhaldið, þá teljum við rétt og sjálfsagt að hið nýja þing komi saman svo fljótt sem verða má að loknum komandi kosningum. Það væri hlutverk þess þings að sjá til þess að það yrði tekið á efnahagsmálunum og það yrði mynduð starfhæf ríkisstjórn.

Þá vil ég nota þetta tækifæri til þess að gera eilítið að umræðuefni störf þingsins eins og nú háttar. Ég vek athygli á að þinglausnir og þingrof þurfa alls ekki að fara saman. Þess eru mörg dæmi að lýst hafi verið yfir þingrofi langtum fyrr en þinglausnir fóru fram. Ég bendi t. d. á fordæmið 1963. Þar var lýst yfir þingrofi hinn 5. apríl, en þinglausnir fóru fram hinn 20. apríl. Ég bendi á þetta nú vegna þess að ég tel að mörg mikilvæg verkefni liggi hér fyrir þessu þingi og nú sé að verða heldur mikil fljótaskrift á afgreiðslum eða í annan stað hætta á að mikilvæg mál dagi uppi. Ég sé enga ástæðu til þess, þó að kosningar séu ákveðnar 23. apríl og þingrofi sé lýst yfir þessa dagana, að þinglausnir fari fram strax. Þingið getur vel starfað áfram að úrlausn þeirra mála sem hér liggja fyrir og verður að leysa. Það er ekkert sem hindrar að þingrofi sé lýst yfir hvern daginn sem er núna með ákvörðun um kosningar, en þingið getur starfað áfram og þinglausnir farið fram síðar. Ég held að þetta væru hin réttu vinnubrögð miðað við hver staða mála er í þinginu núna. Ég tel að þm. hljóti að vera reiðubúnir að vinna hér áfram að málum nokkra daga eða vikur eftir því sem nauðsyn ber til þó að yfirlýsing hafi verið gefin um þingrofið.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara öllu fleiri orðum um það frv. til stjórnskipunarlaga, sem hér liggur fyrir, á þessu stigi. Mín skoðun er sú, að hér sé um verulegan áfanga að ræða, kannske meiri áfanga en ýmsa grunar, nefnilega vegna þess að hér hefur ekki einungis tekist að ná tvennum markmiðum, sem menn settu sér í mjög veigamiklum greinum, um jöfnuð milli stjórnmálahreyfinga og að draga úr misvægi atkvæða eða atkvæðisréttar, heldur ekki síður hitt, að hér eru tekin upp nýmæli samkv. þeim drögum að kosningalögum, sem hér liggja fyrir, nýmæli sem reyndar hafa verið innleidd í einu eða öðru formi í ýmsum grannlöndum okkar, jafnvel fyrir 20 eða 30 árum, en sem við höfum látið ógert að gera. Þar á ég við reglur um úthlutun þingsæta. Þar er um veigamikla breytingu að ræða sem ég tel að muni marka þó nokkur spor. Við höfum komist upp úr ákveðnum farvegi, ákveðinni bindingu varðandi þær aðferðir sem notaðar eru til þess að reikna út þingsætin eftir kjörfylgi.

Skoðun mín er sú, að það muni eftir á verða sagt um þessa breytingu, ef hún nær fram að ganga í heild sinni, bæði að því er varðar stjórnskipunarlögin og eins kosningalögin eins og þau liggja hér fyrir, að hún hafi verið allmerk. Hún hafi verið merk fyrir tvennt: Í fyrsta lagi að mönnum hafi tekist að ná langtum meiri árangri með minni fjölgun þm. en áður — ég minni á að þm. var fjölgað um 8 1959 — og í annan stað verði sagt um þetta eftir á að það hafi verið brotið í blað að því er varðar aðferðir við úthlutun þingsæta, það hafi verið teknar upp merkar nýjungar í þeim efnum.