09.03.1983
Efri deild: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (2711)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal halda mig við dagskrármálið.

Ég kveð mér hljóðs til þess að leiðrétta það sem kom fram og var rangt hjá hv. síðasta ræðumanni. Ég hef aldrei gefið yfirlýsingu um að tryggur væri stuðningur stjórnarandstöðunnar, þ.e. bæði Alþfl. og Sjálfstfl., við þetta mál. Ég sýndi málið þm. úr báðum þessum flokkum og gerði grein fyrir því síðar í ríkisstj.Alþfl. hefði lýst því yfir við mig að hann mundi styðja málið. Hins vegar hef ég ekki fengið slíka yfirlýsingu frá Sjálfstfl. Ég gerði þó grein fyrir því að einn þm. Sjálfstfl. hefði verið vingjarnlegur í garð málsins, en tók skýrt fram að það lægi ekki fyrir nein stuðningsyfirlýsing frá þingflokki Sjálfstfl. Ég hef aldrei rætt við hv. þm. um þetta mál og veit ég ekki hvaðan hann hefur þessar röngu upplýsingar.

Hv. þm. hélt því fram áðan að málið hefði verið illa undirbúið af þeim hæstv. ráðh. sem málið flytur, en hann hlýtur að hafa mismælt sig þar því að það er hans flokksbróðir, fjmrh., sem flytur málið. Ég skal skýrt taka það fram að það er þó ekki hann sem hefur undirbúið það. Þetta mál er að mínu mati mjög vandlega undirbúið. Það vann að því nefnd sem í áttu m.a. sæti fulltrúi fjmrn., Árni Kolbeinsson, fulltrúi Vegagerðar og fulltrúi samgrn. Þeir fengu það verkefni með fullu samkomulagi fjmrh. og mín að gera tillögur um leiðir til að færa fjármagn beint til vega, jafnvel úr ríkissjóði. Skýrslur þeirra voru lagðar fram og sýndar hér á hinu háa Alþingi fyrir meira en ári. Þær voru og eru mjög ítarlegar. Ein af þeim tillögum, sem þar kom fram, er sú, sem nú er verið að framkvæma, að lækka tolla til ríkisins af bifreiðum, en taka í staðinn upp veggjald. Þetta mál er því búið að liggja fyrir lengi.

Um þessa framkvæmd varð samkomulag við hæstv. fjmrh. og að sjálfsögðu innan ríkisstj., sem leiddi til þess að tollar voru í tvígang lækkaðir á bifreiðum, um um það bil 120 millj. kr. á ári, sem er sama upphæð sem gert er ráð fyrir að innheimta með veggjaldinu. Ég vísa því algerlega á bug að þetta mál sé illa undirbúið og kemur mér spánskt fyrir sjónir ef hv. þingflokksformaður hefur ekki fylgst með allri meðferð þessa máls. Ég held að það hljóti að vera.

Hv. þm. talaði mikið um aukna skattlagningu og upplýsti að þeir Alþb.-menn hefðu barist með oddi og egg gegn slíku. Ég verð að viðurkenna að ég kannast ekki við það. En það mun vera fyrir utan þetta dagskrármál og skal ég ekki fara fleiri orðum um það.

En þegar menn tala um að leggja fé í vegi verða menn jafnframt að gæta að því hvað sparast með betri vegum. Á undanförnum þremur árum hafa verið lagðir 370 km af bundnu slitlagi og eru þeir nú orðnir um 670 km. Í þessu felst gífurlegur sparnaður fyrir vegfarendur. Á því er ekki nokkur vafi og reyndar auðvelt að reikna það út. Fyrir enga er þessi sparnaður meiri en þær stóru og þungu bifreiðar sem nota vegina jafnframt mest. Á því byggðist sú tillaga að leggja einnig á þessar bifreiðar veggjald.

Nú er orðið samkomulag um að lækka tolla á hjólbörðum og því fagna ég. Ég tel það vera framfaraspor. Góðir hjólbarðar eru öryggistæki og mega ekki vera of dýrir. Ég fagna því að í meðferð hv. nefndar hefur orðið samkomulag um slíkt.

Ég tel einnig að nefndin hafi út af fyrir sig lagfært það hámark sem þetta veggjald getur náð. Það má lengi deila um hvort of langt er gengið þar til skerðingar á tekjum Vegasjóðs, en ég tjáði mig strax hlynntan því að hámark yrði þar sett á þannig að ekki kæmi illa niður á t.d. bifreiðum sem eru mjög þungar, en kannske nota vegina lítið.

Ég tel því fyrir mitt leyti að eins og frv. er nú orðið a.m.k. eigi allir að geta sætt sig við þetta veggjald hafandi í huga bundið slitlag, sem verður lagt fyrir þessa peninga, og þann sparnað sem því fylgir, sem er mjög mikill og auðvelt út af fyrir sig að upplýsa, og jafnframt þá lækkun sem ráðgerð er á tolli á hjólbörðum.