09.03.1983
Efri deild: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2799 í B-deild Alþingistíðinda. (2713)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Áður en þessari umr. lýkur vildi ég gjarnan fara nokkrum orðum um meginefni þessa máls og þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. með till. hv. fjh.- og viðskn. sem hér liggja fyrir.

Eins og kunnugt er er frv. þetta um bifreiðagjald lagt fram með það í huga að aðflutningsgjöld hafa verulega verið lækkuð á undanförnum árum, sérstaklega á undanförnum 18 mánuðum, og þau gjöld nema mjög svipaðri upphæð og þau gjöld sem nú er verið að leggja á, þ.e. um 120 millj. kr. Ríkissjóður hefði fengið 120 millj. kr. meira í tekjur ef aðflutningsgjöld hefðu verið óbreytt á árinu 1983. Þess vegna er ekki hægt að segja að hér sé um aukna skattabyrði að ræða frá því sem var áður en aðflutningsgjöldin voru lækkuð.

Hins vegar er ljóst, að við undirbúning frv. hefur ekki verið hugsað nægilega til þess að það eru fyrst og fremst eigendur smábíla sem hafa hagnast á lækkun aðflutningsgjaldanna. Þeir sem eiga stóra bíla, vörubíla og flutningabíla af ýmsum tegundum, hafa ekki fengið samsvarandi lækkun, en þeir verða að sjálfsögðu fyrir nokkurri gjaldtöku með álagningu þessa nýja gjalds, þótt að vísu megi segja að þeir eigi þess flestir kost að velta af sér þeirri byrði út í verðlagið. Ég tel að það hafi verið mjög skynsamlegt af hv. fjh.- og viðskn., og það er gert í fullu samráði við mig, að breyta frv. á þann veg að eigendur vöruflutningabíla og vörubíla, stórra bifreiða, þurfi ekki að greiða hlutfallslega jafnháan skatt og gildir um minni bifreiðarnar, enda gæti oft og tíðum verið um æðistórar og þungbærar upphæðir að ræða ef gjaldið, 1 kr. pr. kg, ætti að gilda um allar bifreiðar alveg óháð því hversu stórar þær eru. Þannig er enginn vafi á að hér hefur verið stigið spor í rétta átt og ég fagna því.

Eins og fram hefur komið felur frv. m.a. í sér að svokallað gúmmígjald er fellt niður. Það er líka spor í rétta átt og var auðvitað löngu kominn tími til að það gjald væri látið hverfa út úr skattakerfinu. Ekki skal ég segja hvort þetta gjald átti einhvern tíma rétt á sér, en það á það greinilega ekki lengur. Miðað við hvað góðir hjólbarðar eru mikið öryggisatriði varðandi hverja bifreið er ljóst að það er lítil skynsemi í því að skattleggja hjólbarða alveg sérstaklega.

Það vill svo til að hjólbarðar báru ekki aðeins þetta sérstaka gúmmígjald. Þeir báru líka toll og þeir bera vörugjald. Þessar vörur eru því enn töluvert tollaðar. Ég tel tvímælalaust rétta stefnu að horfið verði frá þeirri skattlagningu í nokkrum áföngum. Með hliðsjón af því að hér er um að ræða skipti á sköttum hvað varðar eigendur einkabifreiða, en eigendur vörubifreiða og vöruflutningabíla hafa ekki fengið samsvarandi lækkun í sinn hlut, þótti eðlilegt að nánar athuguðu máli að lækka aðflutningsgjöld af hjólbörðum sem sérstaklega eru ætlaðir fyrir þyngri bifreiðar, og ég samþykkti það fyrir mitt leyti að við tækjum ákvörðun um að lækka tolla af hjólbörðum úr 40% og í 20%, þegar um er að ræða þessa tegund hjólbarða, sem tolluð er í alveg sérgreindan tollflokk. Það á því ekki að valda neinum vandamálum að tollar eru lægri með þessari breytingu á hjólbörðum sem vörubílar og vöruflutningabílar eru keyrðir á en á venjulegum bílum, en þar verða þeir áfram 40%.

Það þarf auðvitað ekki að segja mönnum að tollalækkunin ein úr 40% í 20% felur ekki aðeins í sér lækkun, vegna þess að verið er að lækka þessa ákveðnu tollprósentu. Vörugjald leggst ofan á tollinn og sérstaklega leggst söluskatturinn ofan á allt verðið. — Það er kannske mismæli hjá mér að segja að vörugjaldið leggist ofan á tollinn, en það er sölugjaldið sem leggst ofan á tollinn. Því er um að ræða miklu meiri lækkun í raun og veru en bara þá sem felst í lækkuninni á tollprósentunni sjálfri. Ég hygg að flestir alþm. séu hlynntir því að aðflutningsgjöld á hjólbörðum verði lækkuð. Ég vil lýsa því yfir af minni hálfu að ég lít fyrst og fremst á þessa lækkun á aðflutningsgjöldum á hjólbörðum sem fyrsta áfanga í víðtækari lækkun aðflutningsgjalda á þessari vörutegund, sem tvímælalaust ber allt of há aðflutningsgjöld í dag, eins og svo raunar margar aðrar vörur.

Tollskráin okkar er sérkennileg bók. Þar er margt misræmið að finna. Fjmrn. hefur einmitt unnið að því að samræma aðflutningsgjöld, en það er mikil vinna. Henni er ekki að fullu lokið, en hefur verið gert ráð fyrir að hægt yrði að flytja frv. um það efni á næsta vetri.

Eitt af því sem torveldar endurskoðun tollskrár er að vísitölugrundvöllurinn, sem notaður er við útreikning á framfærsluvísitölu, er mjög úreltur og það er ákaflega erfitt að breyta tollskránni í grundvallaratriðum nema áður sé búið að breyta vísitölugrundvellinum til nútímalegra horfs. En það er ekki ástæða til þess í þessu tilviki að bíða eftir endurskoðun aðflutningsgjaldanna. Það er full ástæða til þess þvert á móti að stíga hér ákveðið spor, taka ákveðinn áfanga í þá átt að aðflutningsgjöld verði verulega lækkuð á hjólbörðum.

Ég vildi láta þessi sjónarmið mín koma fram hér um leið og málið er afgreitt við 2. umr. frá deildinni.