09.03.1983
Efri deild: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2800 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. úr hófi, en ég vildi gera örfáar aths. við það sem fram hefur komið hér. Sumar þær ræður, sem fluttar hafa verið við þetta mál, hafa verið allsérkennilegar, eins og hér hefur komið fram, en ég skal ekki blanda mér í það.

Hæstv. samgrh. talaði um að það hefði verið sett á laggir nefnd til að afla fjár til vegagerðar og færa fjármagn beint til vega, jafnvel úr ríkissjóði, eins og hæstv. ráðh. orðaði það. Ég henti á það strax við fjárlagaafgreiðslu í vetur, að vegáætlunardæmið var vísvitandi skilið eftir. Það var gert ráð fyrir stórfelldum niðurskurði á framlögum úr ríkissjóði til vega og miðað einvörðungu við að heildarframlögin yrðu 2.1% af þjóðarframleiðslu, sem væri í raun miklu minna vegna þess hve forsendur fjárlaga eru rangar. Síðan var því yfirlýst af hálfu samgrh. að það yrði tekin upp, þegar þing kæmi saman, ný fjáröflun til vegagerðar.

Það er nefnilega kjarni þessa máls, að þrátt fyrir þennan skatt kemur ekki meir til vegamála núna en í fyrra og þó er í gildi núna langtímaáætlun þar sem Alþingi samþykkti að auka allverulega heildarframlög til vegamála. Við fjvn.-menn höfum í höndum útreikninga frá Vegagerð ríkisins um þetta atriði, þannig að það þarf ekkert að deila um að þessi skattur bætir ekki krónu við raungildi fjármagns til nýrra vega og brúa í ár frá því sem það var í fyrra, þrátt fyrir að ný vegáætlun gerir ráð fyrir, sú langtímaáætlun, verulega auknu fé. En þetta sýnir bara að skorin voru niður framlög ríkissjóðs til vegamála og féð notað í eyðslu, en bætt við nýjum skatti til vega, sem er markaður til vega, og þann veg átti að fá stjórnarandstöðuna til liðs við þetta mál.

Hæstv. ráðh., bæði hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh., töluðu um að hér væri um einhver býtti á sköttum að ræða. Ef maður tekur dæmið alveg einhliða þannig og talar um innflutningsgjöldin, að þau hafi verið lækkuð, eins og fram kom í minni ræðu áðan, voru þau lækkuð á hvern bíl, það er alveg rétt, en aukning á innflutningi hafði í för með sér að ríkissjóður tapaði ekki eins mikið á því og hefði kannske mátt halda. En burtséð frá því að við tökum bara þetta dæmi, lækkun á innflutningsgjöldum á bíla og þennan nýja skatt, má kannske til sanns vegar færa að þarna sé um að ræða einhver skipti á sköttum. Hæstv. ráðh. sá ýmsa agnúa á því. Þetta kemur nefnilega misjafnlega niður á bifreiðaeigendum. Þeir sem hagnast á lækkun innflutningsgjaldsins eru aðrir en þeir sem fá þennan nýja skatt, það er alveg hárrétt hjá honum. En ef við tökum heildarskattlagningu á umferðina, á notkun bifreiða, undanfarin ár er skattahækkunin á bensín svo gífurleg að það mundi tvöfalda — hæstv. samgrh. er víst ekki viðstaddur — þá fjármuni sem hann hefði til framkvæmda við nýja vegi og brýr, ef öll sú skattahækkun hefði gengið til vegamála. Sáralítið af því gengur til vegamála. Þetta hefur farið í ríkissjóð. Þessi þróun hefur haldið áfram alveg fram á síðustu ár. Ég er hér með upplýsingar, sem hæstv. ráðh. getur fengið, og útreikninga Vegagerðar ríkisins um þetta efni. Ef við tökum þungaskattinn á km hefur hann þrefaldast að raungildi síðustu árin. Við getum því ekki verið að tala um einhver skipti á sköttum ef við leggjum á þennan nýja skatt. Það er víðs fjarri að svo sé.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta, en ég vildi þó víkja að orðum hv. 2. þm. Reykn. Kjartans Jóhannssonar. Hann sagði að raungildi vegaframkvæmda hefði minnkað um fjórðung á árunum 1974–1978. Ég skal ekki rengja þessa fullyrðingu hans. En þá verður auðvitað að benda á að einhverjum mestu átökum í vegamálum á Íslandi var að ljúka þegar þetta tímabil hófst, þ.e. vegagerð um Skeiðarársand.

En það sem hann sagði um langtímaáætlun í vegagerð er einhver misskilningur. Það er ekki vegna þess að það hafi verið einhver samdráttur í vegaframkvæmdum á þessu tímabili sem Alþingi samþykkti langtímaáætlun í vegagerð. Við sjálfstæðismenn höfðum flutt till. um gerð langtímaáætlunar í vegagerð allar götur síðan 1978. Árið 1980 flutti núv. hæstv. ríkisstj. till. um sama efni. Hún gekk miklu skemmra en till. okkar. Við gerðum ráð fyrir að það gengju til vegamála um 2.5% af þjóðarframleiðslu á ári. Þessi till. ríkisstj. gerði ráð fyrir 2%. Fjvn. tók þessar tillögur báðar á þinginu 1981 og steypti þeim saman til samkomulags og það varð heildarsamkomulag á Alþingi um þessa langtímaáætlun. Þessi langtímaáætlun segir svo, að í ár skuli ganga 2.2% af þjóðarframleiðslu til vegamála. Það verður vanefnd á fyrsta framkvæmdaári þessarar langtímaáætlunar þrátt fyrir þennan nýja skatt, vegna þess að framlög til vegamála ná kannske 2.1 % í ár með þessum skatti, en ekki 2.2%. Þar munar allverulegri fjárhæð.

Ég vildi aðeins minna á þetta. Sannleikurinn í málinu er sá, að þessar tillögur okkar sjálfstæðismanna lágu fyrir mörgum þingum. Síðan flutti núv. hæstv. ríkisstj. till. um sama efni, sem gekk skemmra, en fjvn. gekk fram í því að sameina menn um eina þáltill., sem var samþykkt, ef ég man rétt, vorið 1981, um gerð langtímaáætlunar. Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram.