09.03.1983
Efri deild: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2802 í B-deild Alþingistíðinda. (2715)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að svara ummælum hæstv. samgrh. og óska eftir því að hann verði sóttur hingað í deildina.

Hæstv. samgrh. sagði áðan að hann væri undrandi á því hvaðan ég hefði þær upplýsingar að það hefði verið sagt að flokkar stjórnarandstöðunnar hefðu lýst yfir stuðningi við þetta mál. Ég get sagt hæstv. ráðh. að innan þingflokks Alþb. var skýrt frá þeim ummælum ráðh. að svo væri. Það var einnig greinilegt á fundum fjh.- og viðskn. Ed., að það kom þm. Framsfl. í n. jafnmikið á óvart og mér að niðurstaða málsins skyldi vera að þm. Sjálfstfl. lýstu yfir andstöðu við málið. Þetta er því engin einkaskoðun, sem ég hef verið að lýsa hér í umr., heldur var sá skilningur ríkjandi víða innan þings að það hefði náðst í undirbúningi málsins af hálfu hæstv. samgrh. víðtækur stuðningur við málið.

Herra forseti. Hæstv. ráðh. líður greinilega eitthvað illa undir þessum umr. um vegamál. Vill ekki forseti gera ráðstafanir til þess að það verði náð aftur í ráðh.? (Forseti: Það er velkomið að óska eftir því við hæstv. ráðh. að hann komi hér til umr. Hann mun vera í ræðustól í Nd. Sú mun vera ástæðan.) Ef hæstv. samgrh. er í ræðustól í Nd. óska ég eftir því að það verði gert hlé á umr. hér í Ed. þar til hæstv. ráðh. getur komið hingað aftur. Þau ummæli, sem hann lét hér frá sér fara í ræðustól áðan um undirbúning málsins og meðferð n. á því, eru þess eðlis að það er óhjákvæmilegt að þeim verði svarað og hann hafi tækifæri til að hlýða á þau svör. Ég hef engan áhuga á því að eiga við hann orðastað fjarstaddan. (Forseti: Þessi umr. hefur nú þegar staðið nokkuð lengi og ég hafði vænst þess og reyndar lofað hv. dm. því að fundurinn drægist ekki mjög úr hömlu.) Herra forseti. Það er til einföld lausn á þeim vanda. Hún er að ná í hæstv. samgrh. og halda honum hér í svona 2–3 mínútur. (Forseti: Ég reikna með því að hæstv. ráðh. þurfi að ...) (ÞK: Bara að fresta málinu.) (Forseti: Já, það er auðvitað möguleiki á því að fresta málinu alveg, ef um það er beðið, því að ég get ekki áttað mig á því nægilega vel hvað hæstv. ráðh. verður lengi í ræðustól Nd., en þannig er háttað nú að mál ganga mjög á víxl og erfitt að eiga við það atriði út af fyrir sig.) Ég tek skýrt fram að ég er ekki að óska eftir frestun málsins til morguns, en ef hæstv. forseti og aðrir þm. vilja gera það er það í lagi af minni hálfu. En þetta mun ekki taka langan tíma. (Forseti: Ég skal verða við þeirri ósk að fresta þessari umr. til kl. 10.20, ef svo mætti vera að hæstv. ráðh. væri þá kominn hingað í deildina. Það er út af fyrir sig sjálfsagt. Ég get hins vegar ekki ábyrgst að sá frestur nægi.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég þakka fyrir að það var gert þetta fundarhlé svo að hæstv. samgrh. gæti verið hér. Ég hafði skýrt honum frá því að það voru fleiri en ég sem voru þeirrar skoðunar að Sjálfstfl. ættaði að styðja þetta frv. Það kom á óvart á fundum n. og lá ekki ljóst fyrir þar í byrjun máls að svo mundi ekki verða.

Hæstv. ráðh. gerði einnig aths. við þá skoðun mína að málið væri illa undirbúið, en eins og kom fram hjá honum var undirbúningur málsins á hans vegum.

Ég vil skýra mál mitt aðeins nánar. Það hefur nú komið fram í þessum umr., bæði hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni og hæstv. fjmrh., að það komu margar leiðir til greina þegar meta skyldi með hvaða hætti ætti að afla fjár til vegagerðar. Það var alls ekki sjálfgefið að sú leið sem valin var í frv. væri sú eðlilegasta og rétta, enda kom það strax í ljós við meðferð málsins að talið var óhjákvæmilegt að gera á frv. mjög miklar breytingar, breyta algerlega þeim skattstiga sem í frv. var og rjúka til og gera breytingar á tollalöggjöf með nokkurra sólarhringa fyrirvara til að sætta menn við að fallast á afgreiðslu þessa frv.

Það er alls ekki sjálfgefið að það sé eðlilegur þáttur í skattlagningu, þótt hún eigi að beinast að uppbyggingu vega á þeim grundvelli að notkun betri vega skili sér í aukinni hagsæld fyrir bifreiðaeigendur, að miða skattinn eingöngu við þyngd bifreiða. Það er hægt að færa allmörg og ítarleg rök fyrir því að slíkur grundvöllur veiti ekki rétta mynd af þeirri hagsæld sem viðkomandi bifreiðaeigandi hefur af bættum vegum. Það fer m.a. eftir notkun bifreiðar, eftir því hvar keyrt er, á hvaða svæðum, í hvaða landshlutum o.s.frv. Ef verkefnið var að afla tekna með sanngjörnum hætti til vegaframkvæmda voru fleiri leiðir en þessi sem komu til greina. Sú skýrsla, sem unnin var af hálfu þeirrar nefndar sem hæstv. ráðh. nefndi hér í sinni ræðu, gaf það til kynna að par mætti fara ýmsar leiðir.

Ýmsir nm., þar á meðal ég, hefðu kosið að hafa betri tíma og tóm til að finna þessari tekjuöflun til vega annan og réttlátari farveg en hér er gert. Það voru mjög óeðlileg vinnuskilyrði að nefndin yrði að binda athugun sína við þá tímapressu að atgreiðsla vegáætlunar beið hjá Vegagerð ríkisins og hjá kjördæmahópum einstakra þm. eftir því að nefndin kæmi sér niður á það, í hvaða formi þessi skattlagning skyldi vera. Þess vegna sköpuðust engar aðstæður í nefndinni til að skoða hinar ýmsu leiðir, sem þarna komu til greina, né heldur til að athuga hvort það væru ekki fleiri breytingar en þær sem krafist var utan þings að væru gerðar á frv. og gefa sér þannig tíma til að skoða málið í heild sinni. Ef það lá ljóst fyrir fyrr á þessu þingi að nauðsynlegt væri að afla tekna til vegagerðar hefði verið miklu eðlilegra að leggja þetta frv. fram 1–2 mánuðum fyrr og gefa nefndinni, ef talið var nauðsynlegt að breyta frv. eins og greinilega kom í ljós, tækifæri til að skoða málið og velja á milli hinna einstöku leiða. En okkur var í reynd stillt upp við vegg. Það gekk á okkur klukkan. Vegáætlunin beið, þinginu var að ljúka, einstaka kjördæmahópar voru búnir að fjalla um vegaframkvæmdir í sínum kjördæmum og við n. var einfaldlega sagt: Ef þið afgreiðið ekki málið nú í grófum dráttum í þessari mynd þýðir það að vegáætlun verður að meira eða minna leyti að stokka upp og þær ákvarðanir, sem einstaka kjördæmahópar þm. hafa tekið varðandi vegaframkvæmdir í þeirra kjördæmum, verða að breytast. Við þessar kringumstæður tel ég reyndar að nefndin hafi unnið allgott verk að skapa þó það form um þessa skattlagningu að hún gæti náð hér fram að ganga þótt engan veginn ríki um það ánægja.

Það er þetta sem ég átti við, að málið væri illa undirbúið: Það kemur hér inn á þing á lokadögum þingsins, tengt afgreiðslu vegáætlunar, krafist er að nefndin geri á fáeinum dögum grundvallarbreytingar á frv. og glími við þær miklu óánægjuöldur utan þings sem risu út af þessu frv. Ég vil segja hæstv. samgrh. það, að meðan ég hef verið formaður í fjh.- og viðskn. Ed. hafa aldrei út af nokkru frv. komið jafnmargar mótmælaundirskriftir eða jafnmargir einstaklingar og hópar haft samband við mig sem formann nefndarinnar af sjálfsdáðum til að mótmæla frv. og benda á fjölmarga agnúa í því og mótsagnir sem þar var að finna. Við nm. stóðum frammi fyrir gagnrýni, sem mér fannst persónulega rétt frá fjölmörgum einstaklingum og hópum utan þings. Hún var þess eðlis að nauðsynlegt var að frv. tæki breytingum. Það er mjög erfitt að setja nefnd þings í þá aðstöðu að hún á fáeinum dögum eigi að breyta frv. sem búið er að vera mánuðum saman til meðferðar og athugunar í þeim ráðuneytum sem að þessu hafa staðið.

Þetta eru nokkrar skýringar á þeim ummælum mínum áðan að ég teldi þetta mál illa undirbúið, það hefði ekki komið í þeim búningi til n. sem hefði gert henni kleift að sinna því sómasamlega né heldur með sæmilegum fyrirvara, miðað við þau margvíslegu mótmæli sem fram komu utan þings.