09.03.1983
Efri deild: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að elta ólar við þessa löngu og afar merkilegu ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Þetta minnir nú orðið á kosningaræður. Þó vil ég upplýsa hér, þannig að það liggi fyrir, að till. um þetta veggjald lagði ég fram í ríkisstj. töluverðu fyrir áramótin, þ.e. fyrir nokkrum mánuðum, og ég efast ekki um að hæstv. ráðh. Alþb. hafi dreift þessari till. í þingflokki Alþb. þannig að hv. þm. hefur haft tækifæri til að koma með brtt., ekki bara í nokkrar vikur heldur mánuði. Ég hef ekki orðið var viðeina einustu brtt. frá hv. þm. Hann áttar sig allt í einu á því nú að því er virðist, þegar kosningar nálgast, að það sé eitthvað óvinsælt að leggja skatta á almenning. Ég tek undir það með síðasta hv. ræðumanni, sem er alveg rétt, að það er oft óvinsælt og kemur alltaf við einhverja.

En þetta vildi ég upplýsa: Ég lagði þessa till. fram töluverðu fyrir áramótin. Það má fletta því upp í fundargerðabók ríkisstj. og ég skal láta gera það. Ég gekk eftir svari við þessari till. aftur og aftur. Það má líka finna í fundargerðabók ríkisstj. og ég skal einnig athuga það. Engar brtt. fékk ég frá hv. þm. eða hans flokki.

Ég vil jafnframt taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að virðingarvert er hvað þeir Alþfl.-menn hafa litið á þetta mál af mikilli ábyrgð og ólíkt meiri ábyrgð en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson.