09.03.1983
Efri deild: 64. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þess sem fram kom í ræðu hv. 11. þm. Reykv. Ólafs Ragnars Grímssonar áðan um að það hafi komið okkur fulltrúum Framsfl. í fjh.- og viðskn. mjög á óvart að fulltrúar Sjálfstfl. skyldu ekki ætla að standa að þessu frv. Ég vil segja það, að við höfðum sjálfsagt heyrt það eins og hann og fleiri að rætt hafi verið við fulltrúa í þingflokki Sjálfstfl. um að þeir mundu styðja þetta frv. Einnig hafði verið rætt við fulltrúa í þingflokki Alþfl. En við höfðum ekki fengið neinar yfirlýsingar um það eða að það væri gerð einhver samþykkt í þingflokki Sjálfstfl. eða þingflokki Alþfl. um að standa að þessu máli. Ég vil að þetta komi hér fram. Við vonuðumst hins vegar til þess að náðst gæti samstaða í n. og höfum við orðið undrandi er það fyrst og fremst af því að fulltrúar Sjálfstfl. vildu ekki styðja svo nauðsynlegt mál eins og það að afla tekna til vegagerðar og standa við langtímaáætlun þá, sem samþ. var hér í fyrra, eftir því sem hægt væri.

Það er auðvitað ljóst að aldrei er vinsælt að leggja á skatta. Það er það auðvitað ekki heldur nú frekar en fyrr. Ég vil samt segja það hér og nú að ég er ekki jafnsannfærður um það og hv. formaður fjh.- og viðskn., 11. þm. Reykv., að aldrei hafi fleiri mótmæli komið við frv. og aldrei hafi verið harðar lagt að okkur nm. í fjh.- og viðskn. að breyta frv. eða fella frv. en að þessu sinni. Ég skal fúslega játa það og taka undir það, að fjölmargir hafa haft samband við mig út af þessu máli. Margir ágætismenn hafa talað við mig og lýst óánægju sinni eða áhyggjum og farið fram á í það minnsta lagfæringar á málinu. Ég tel að við höfum í okkar nefndarstörfum reynt að gera það eins vel og eins mikið og við treystum okkur til eða töldum okkur fært, miðað við þó að þetta veggjald gæfi verulegar tekjur samt sem áður til vegagerðarinnar.

Ég gerði reyndar grein fyrir því í framsögu minni áðan að það hefur verið komið það langt til móts við þær bifreiðar, sem eru yfir 5 tonn að eigin þyngd, að í staðinn fyrir að þær greiddu samkv. upphaflegri mynd frv. um það bil 27 millj. af þessum 123, sem ráðgert var, munu þær nú greiða um það bil 7 millj., þegar dregið hefur verið frá bæði lækkunin sem gerð er á frv. sjálfu, á 1. gr. þess, og svo líka sá sparnaður sem verður hjá eigendum þessara bifreiða við lækkun tolls af hjólbörðum.

Ég vil aðeins að lokum, forseti, það kom ekki nægilega vel fram hjá mér í framsöguræðu minni fyrir þessu nál. meiri hl. fjh.- og viðskn., gera grein fyrir því, sem við fjölluðum um í nefndinni, að veitt verður undanþága frá greiðslu veggjaldsins þeim öryrkjum sem fengið hafa eftirgjöf af innflutningsgjöldum bifreiða sinna. Við fjölluðum um þetta nokkuð í nefndinni. Ég aflaði upplýsinga hjá fjmrn. og hjá tollstjóraembættinu um hvernig embættismenn teldu að hægt væri að standa að slíku. Þeir töldu að framkvæmd þess máls yrði flókin. Gjaldið yrði erfitt í innheimtu, það yrði erfitt, þegar ætti að fara að greiða veggjaldið, að fylgjast með því hver ætti að fá undanþágu, hver ætti að fá það eftirgefið. Þeir töldu að það væri eðlilegra og í samræmi við það sem áður hefur verið gert að lækka innflutningsgjöldin meira en verið hefur og þá yrði afslátturinn til öryrkja áfram í sama formi og verið hefur. Það yrði ekki gengið inn á það form að greiða niður rekstur bílanna til öryrkjanna, heldur yrði reynt að hækka meira eftirgjöfina á innflutningsgjöldunum.

Þetta vildi ég að kæmi fram. Ég gerði ekki nægilega grein fyrir því í upphafi máls míns eða framsögu fyrir okkar nál.

Það er, eins og allir vita, aldrei vinsælt og aldrei gott að þurfa að leggja á nýja skatta. En við stóðum frammi fyrir því nú, og það þekkjum við vel og kannske manna best, við sem höfum verið og starfað í fjvn. Alþingis, hvernig það er að glíma við þær tekjur sem ríkissjóður hefur hverju sinni til skiptanna. Auðvitað hefði verið gott ef það hefði náðst fram að tekjur til vegagerðar hefðu að meiri hluta til farið úr ríkissjóði en raun varð á og þess vegna ekki þurft að leggja á nýjan skatt til þessa verkefnis sérstaklega. En hefðum við þá e.t v. ekki staðið frammi fyrir því að þurfa að leggja á nýjan skatt til þess að greiða fyrir framkvæmdum á vegum annarra ágætra ráðh., hvort heldur sem það hefði verið til iðnaðar- og orkumála, til félags-, Heilbrigðis- og tryggingamála eða til menntamála, svo að eitthvað sé nefnt? Ég ætla ekkert að gera þar upp á milli. En þetta varð raunin. Við skiptum upp þeim tekjum sem ríkissjóður hafði og þess vegna stóðum við frammi fyrir því, ef við ætluðum að standa við þessa langtímaáætlun í vegagerð, að auka tekjur til vegagerðarinnar. Þetta var leiðin sem var valin. Hún var valin samkv. till. nefndar, sem um þetta fjallaði, starfshóps sem fjallaði um þessi mál, og það var sannarlega nokkur tími, a.m.k. fyrir stuðningsmenn ríkisstj., til þess að skoða það mál og hefðum við sjálfsagt getað gert einhverjar bætur á þessu fyrr.

En ég ítreka það: Ég tel að það sem hér hefur þó náðst og þær breytingar, sem gerðar hafa verið, hafi verið til bóta. Það er mín skoðun og ég þakka þeim samnm. mínum, sem ég starfaði með að því máli, fyrir ágætissamstaf við að ná því fram.