09.03.1983
Neðri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2816 í B-deild Alþingistíðinda. (2734)

143. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur verið til meðferðar í hv. Ed. Frv. hefur fengið þar rækilega umr. og ég trúi að félmn. þessarar deildar hafi einnig komið þar við sögu.

Í frv. þessu er að finna nokkrar breytingar á húsnæðislögunum frá 1980 og er það þá fyrst, að í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að framlag úr ríkissjóði til Byggingarsjóðs ríkisins hækki nokkuð frá því sem verið hefur eða sé a.m.k. 115 millj. kr. á meðalverðlagi ársins 1982.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að byggingarsamvinnufélög bætist við þá framkvæmdaaðila í byggingariðnaði sem lána skal til þegar veitt eru lán úr Byggingarsjóði ríkisins. 2. gr. felur því í sér sérstaka áherslu sem menn vilja leggja á byggingarsamvinnufélögin sem framkvæmdaaðila í húsbyggingum hér á landi.

Í 3. gr. frv. er kveðið á um það, hvernig veita á lán samkv. 1. tölul. 11. gr. laganna, en þar er gert ráð fyrir að lán séu veitt til að kaupa eða byggja nýjar íbúðir, svokölluð F-lán. Í greininni segir:

„Heimilt er húsnæðismálastjórn að hafna eða skerða lánveitingu til umsækjenda, sem áður hafa fengið fullt lán úr Byggingarsjóði ríkisins eða Byggingarsjóði verkamanna og eiga íbúð, er talist getur fullnægjandi að dómi húsnæðismálastjórnar.“

Í 4. gr. frv. felst breyting á 17. gr. gildandi laga nr. 51 frá 1980. Þar er kveðið á um hvernig eigi að ákvarða lán samkv. 3. tölul. 11. gr. laganna til sveitarfélaga, stofnana á þeirra vegum og/eða ríkisins eða félagasamtaka sem byggja íbúðir, hjúkrunarheimili eða dagvistarstofnanir fyrir aldraða eða dagvistarstofnanir fyrir börn.

Í 5. gr. frv. er ákvæði um hverju megi nema lán til viðbyggingar eða endurbóta á eldra húsnæði, að það megi nema allt að 40% af láni til nýbyggingar til sömu fjölskyldu.

Í 6. gr. er gert ráð fyrir að falli niður orðin „með bakábyrgð sveitarstjórnar,“ en það er talið óþarfi að gera ráð fyrir ábyrgð sveitarstjórnar til viðbótar við veð.

Í 7. gr. er sams konar breyting.

Í 8. gr. frv. er sérstakt ákvæði sem tekur til aldraðra og öryrkja eða fatlaðra, en þar segir að ef lántaki er 70 ára eða eldri eða er fatlaður og fjárhag hans þannig varið að sýnt þyki að hann fái ekki staðið undir afborgunum af láninu er heimilt að fresta afborgunum um óákveðinn tíma. Gilda þá ekki ákvæði 1. málsl. þessarar greinar um hámarkslán. Lánið fellur þó í gjalddaga og endurgreiðist að fullu við eigendaskipti.

Í 9. gr. er ákvæði um byggingarsamvinnufélögin og í 10. gr. er fjallað um með hvaða hætti vextir skulu ákvarðaðir að því er varðar Byggingarsjóð ríkisins, en þar segir:

„Húsnæðismálastjórn skal við gerð fjárhagsáætlunar fyrir hvert ár gera tillögur til félmrn. um vexti af hverjum lánaflokki Byggingarsjóðs ríkisins. Ákvörðun um vextina tekur ríkisstj. að fengnum tillögum Seðlabanka Íslands.“

Þetta er nýmæli frá því sem er í gildandi lögum í þessum efnum, en í gildandi lögum eru vextir Byggingarsjóðs ríkisins fastákveðnir.

Í því frv. sem upphaflega var lagt fyrir Ed. var einnig gert ráð fyrir að vextir Byggingarsjóðs verkamanna yrðu ákvarðaðir af ríkisstj. og samkv. tillögum Seðlabankans hverju sinni. Frá þessari brtt. var fallið í hv. Ed. til að betra samkomulag gæti náðst um málið.

Án þess að lesa og fara yfir einstakar brtt., herra forseti, þá vil ég aðeins hnykkja á aðalatriðum þessa máls og minna á að það var á s.l. sumri að ég skipaði starfshóp til að fjalla um fjárhagsvanda hinna opinberu byggingarsjóða, Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, og til þess að kanna og gera tillögur um ýmsa þætti húsnæðismála. Í starfshópnum störfuðu hv. alþm. Alexander Stefánsson og Guðmundur G. Þórarinsson, Jón Ormur Halldórsson aðstoðarmaður forsrh., Ólafur Jónsson formaður húsnæðismálastjórnar og Þorvaldur Mawby, framkvæmdastjóri byggingarsamvinnufélagsins Byggung. Auk þeirra störfuðu að málinu sem sérfræðilegir ráðunautar þeir Ingi Valur Jóhannsson og Jón Rúnar Sveinsson. Þessi hópur skilaði áliti til ríkisstj., ítarlegum tillögum um húsnæðismál. Ég tel að það sé nauðsynlegt vegna umræðna um húsnæðismál, sem nú standa yfir, að ég reki þessar till. nokkuð.

1. till. fjallaði um að lán til þeirra sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð hækki verulega á næstu árum og eigi minna en um 25% að raungildi þegar á árinu 1983 frá og með næstu starfsáætlun Húsnæðisstofnunar. Af þessu tilefni vil ég taka fram að ég hef þegar gert tillögur til húsnæðismálastjórnar um að lán til þeirra, sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð, hækki á þessu ári að raungildi um 25%.

Í öðru lagi gerir nefndin tillögu um að framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins verði tvöfaldað að raungildi frá árinu 1982. Er við þeirri ósk orðið með flutningi frv. þessa.

Í þriðja lagi gerði nefndin ráð fyrir að öllum lífeyrissjóðum á landinu verði skylt að kaupa skuldabréf fyrir eigi lægri fjárhæð en sem nemur 45% af ráðstöfunartekjum sínum af Byggingarsjóði ríkisins, Byggingarsjóði verkamanna, ríkissjóði, Framkvæmdasjóði eða öðrum fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna, sem viðurkenndir eru af fjmrn. Hér er um að ræða meiri kaup frá lífeyrissjóðunum en hefur verið gert ráð fyrir á undanförnum árum. Ég tel að hvaða ríkisstjórn í landinu, sem ætlar sér að reyna að ráða við peningamál og lánsfjármarkað með skikkanlegum hætti, verði að taka á fjárstreymi lífeyrissjóðanna betur en gert hefur verið á undanförnum árum. Ég tel að þessi tillaga um 45% af ráðstöfunartekjum lífeyrissjóðanna sé í alla staði eðlileg og sjálfsögð, en ljóst er hins vegar að um slíkt er ekki að svo komnu máli samkomulag á Alþingi og þess vegna mun miðað við 40% í þeirri fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. sem liggur nú fyrir hv. Alþingi.

Í fjórða lagi gerði nefndin tillögu um að reglum lífeyrissjóðanna um lánveitingar til sjóðfélaga verði breytt á þann veg að lán verði aðeins veitt til húsnæðismála. Gengið verði frá þessum málum með samningum við lífeyrissjóðina. Vegna þessa liðar skrifaði ég fyrir nokkrum mánuðum fjmrn., sem fer með málefni lífeyrissjóðanna, og óskaði eftir að í tengslum við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og fjármögnun hennar á árinu 1983 yrði þetta mál tekið upp til sérstakra viðræðna við lífeyrissjóðina.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að fella niður ákvæði í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem kveða á um bindingu útlánsvaxta byggingarsjóðanna, eins og ég gat um áðan.

Í sjötta lagi segir hér:

Ríkisstj. beitir sér fyrir samkomulagi við viðskiptabanka og sparisjóði um samræmda þátttöku í fjármögnun húsnæðismála. Í þessu skyni verði stofnaðir nýir húsnæðisreikningar í viðskiptabönkum og sparisjóðum þar sem innlán í 2–4 ár veiti rétt til 15 ára viðbótarláns við lán frá Byggingarsjóði ríkisins. Upphæð láns ákvarðast af reglum sem taka mið af innlánstíma. Það fjármagn sem bankarnir lána til lengri tíma í þessu skyni verði heimilt að draga frá bindiskyldu viðkomandi banka hjá Seðlabanka Íslands. Jafnframt verði kannað hvort unnt sé að beita skattfríðindum til að hvetja til sparnaðar í bönkum í þágu húsnæðismála.“

Vegna þessa ákvæðis, sem ég las hér síðast, hefur þegar farið fram ákveðin könnun á vegum Seðlabankans, en að því er varðar fyrri hlutann, þ.e. að stofnaðir verði sérstakir húsnæðisreikningar í viðskiptabönkum og sparisjóðum, hefur viðskrn. fyrir nokkrum mánuðum tekið að sér að vinna að þessu verkefni og 14. jan. s.l. skrifaði ég viðskrn. bréf og óskaði eftir upplýsingum um hvernig gengju viðræður þess við viðskiptabankana um þetta atriði.

Í sjöunda lagi er gert ráð fyrir því í till. nefndarinnar að viðskiptabankarnir taki að sér að veita framkvæmdaaðilum í byggingariðnaði framkvæmdalán á byggingartímanum, sem Byggingarsjóður ríkisins endurgreiðir þegar íbúðirnar eru lánshæfar samkv. reglum sjóðsins. Hér er um að ræða mál sem lengi hefur verið á döfinni, og viðskiptabankarnir hafa ekki tekið illa á að þeir veiti framkvæmdaaðilum í byggingariðnaði framkvæmdalán sem Byggingarsjóður síðan endurgreiðir.

Í áttunda lagi segir svo í tillögum nefndarinnar:

„Til hagræðingar og einföldunar fyrir lántakendur húsnæðistengdra lána leiti Húsnæðisstofnun samstarfs við banka, sparisjóði og lífeyrissjóði um nýtt fyrirkomulag lánveitinga og afborgana húsnæðislána. Fyrirkomulag þetta byggi á því, að lántakandi eigi aðgang að upplýsingum og gögnum frá öllum ofangreindum aðilum í sínum eigin viðskiptabanka, þar sem útborgun og innheimta húsnæðistengdra lána fari sömuleiðis fram.“

Hér er um að ræða ákaflega stórt hagsmunamál húsbyggjenda í landinu, að útborgun húsnæðistengdra lána verði öll á einum stað, þannig að menn þurfi ekki að ganga á milli fjölmargra stofnana til þess að fá lán til að fjármagna íbúðabyggingar sínar.

Í níunda lagi er gert ráð fyrir að innheimta skyldusparnaðar verði bætt frá því sem verið hefur og reglur um endurgreiðslu hertar. Í því frv. sem hér liggur fyrir var í upphafi gert ráð fyrir að herða reglur um endurgreiðslur, en frá þeim tillögum var fallið að verulegu leyti í hv. Ed.

Í tíunda lagi er gert ráð fyrir mjög veigamikilli breytingu á endurgreiðslum húsnæðislána en þar segir svo í till. nefndarinnar:

„Verðtrygging afborgana og vaxta húsnæðislána verði ætíð bundin við þá af vísitölunum tveimur, kauplagsvísitölu og lánskjaravísitölu, sem er lægri. Hins vegar verði eftirstöðvar lánsins reiknaðar upp eftir lánskjaravísitölu. Ef til að mynda lán sem veitt var til 26 ára er ekki að fullu greitt (vegna bindingar eftirstöðva við lánskjaravísitölu) verði veitt nýtt lán sem framlengir það gamla eftir þörfum. Með þessu móti er tryggt að afborganir af húsnæðislánum hækki ekki úr hófi fram á tímum lífskjarasamdráttar.“

Hér er um að ræða ákaflega veigamikið atriði. Ég verð að segja það, að ég tel að þetta sé eitt af merkustu atriðunum í tillögum þeirrar nefndar sem um málið fjallaði.

Í 43. gr. upphaflega frv. var gert ráð fyrir að uppfylla þetta ákvæði í tillögum húsnæðisnefndarinnar. Þetta ákvæði er nú orðað svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar að fresta hluta afborgana af fullverðtryggðum lánum Byggingarsjóðs verkamanna og Byggingarsjóðs ríkisins ef greiðslubyrði lánanna eykst frá því sem hún var í okt. 1982 vegna hækkunar á lánskjaravísitölu umfram hækkun vísitölu kauptaxta verkamanna

skv. útreikningum kjararannsóknarnefndar. Þeim afborgunum sem frestað er samkv. framansögðu skal bætt við höfuðstól lánsins og lánstíminn lengjast eftir þörfum svo að greiðslubyrði lánsins aukist ekki af þeim sökum.“

Hér er um að ræða mjög svipað efnisatriði og var í frv. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur o.fl., sem lá hér fyrir Alþingi. Þar var hins vegar gert ráð fyrir að þetta ákvæði næði til allra lána, af hvaða toga sem er. Mér finnst út af fyrir sig vel koma til greina að setja slíkt almennt ákvæði í lög. Ég vil láta þá skoðun mína koma hér fram. Við erum hér hins vegar eingöngu að fjalla um húsnæðislánin og mér finnst eðlilegt að húsnæðislánin séu tekin þarna sérstaklega út úr og Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna hafi þarna forustu og sýni gott fordæmi öðrum lánasjóðum í landinu, hvort sem þar er um að ræða lífeyrissjóði eða bankana, sem ættu einnig að geta komið til móts við húsbyggjendur í þessu efni, þannig að þeir verði ekki fyrir sérstökum búsifjum vegna aukahækkana lánskjaravísitölu á sama tíma og samdráttur á sér stað í kaupmætti launa.

11. till. húsnæðismálanefndarinnar hefur vakið mjög mikla athygli. Hún var um það, að hafnar verði skipulegar byggingar leiguíbúða og verði lögð áhersla á eftirtalda liði:

Í fyrsta lagi verði veitt lán til byggingar sérhannaðra leiguíbúða fyrir aldraða með hlutafjárþátttöku leigjenda. Hér er um að ræða mjög mikilsvert nýmæli, sem vonandi verður til þess að stuðla að því að aldraðir sem eiga íbúðir séu reiðubúnir að leggja einhvern hluta af eign sinni í byggingar sem sérstaklega eru reistar í þeirra þágu.

Í öðru lagi verði gert sérstakt átak í leiguíbúðarmálum námsmanna og skal stefnt að því að byggðar verði eigi færri en 150 námsmannaíbúðir á næstu þremur árum. Leitað verði eftir þátttöku eftirtalinna aðila auk Húsnæðisstofnunar í fjármögnun þess átaks: Byggðasjóðs, Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Lánasjóðs sveitarfélaga.

Þetta ákvæði um leiguíbúðir námsmanna hefur vakið athygli í námsmannasamtökunum. Á laugardaginn var sat ég fund á vegum stúdentaráðs Háskóla Íslands, þar sem sérstaklega var um þetta mál fjallað, og það hefur komið fram að þeir leggja mjög mikla áherslu á að þetta skref verði stigið og að þetta ákvæði frv. verði samþykkt.

Herra forseti. Þessar eru meginbreytingarnar sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Eins og ég gat um í upphafi máls míns hefur mál þetta þegar fengið nokkra meðferð í hv. Ed.

Ég vil leggja á það áherslu, að þó að vafalaust sé ágreiningur um eitt og annað í húsnæðismálum á hér að vera um að ræða lagfæringar sem tiltölulega góð samstaða á að geta tekist um. Með tilliti til þess, herra forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn. og ég treysti því að mönnum takist og hv. n. takist að ljúka máli þessu á þeim tíma sem eftir lifir af yfirstandandi þingi.