09.03.1983
Neðri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2821 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

218. mál, vegalög

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breytingu á vegalögum er komið frá hv. Ed. Hér er um að ræða tvær breytingar sem eru fluttar samkv. till. þm.-nefndar þeirrar sem fjallaði um langtímaáætlun á síðasta þingi. Nefndin gerði þá till., eins og fram kemur í grg. með langtímaáætlun, að skilgreiningu á stofnbrautum yrði breytt þannig að ýmsir þéttbýlisstaðir tengdust aðalvegakerfi landsins, þ.e. stofnbrautakerfi landsins með stofnbrautum. Um þetta fjallar 1. gr., þar sem segir með leyfi forseta:

„Við það stofnbrautakerfi, sem þannig fæst, skal tengja með stofnbraut öll þéttbýli, sem hafa 400 íbúa eða fleiri, enda sé tengingin ekki lengri en 20 km, svo og þéttbýli með 200–400 íbúa, ef tenging þeirra er ekki lengri en sem svarar 1 km fyrir hverja 100 íbúa í þéttbýlinu.“

Þeir staðir sem þannig mundu tengjast stofnbrautakerfinu með stofnbrautatengingu eru síðan taldir í grg. Í 2. gr. er gert ráð fyrir að fella niður 1. mgr. 32. gr. Í þeirri mgr. gildandi vegalaga, sem eru frá 1964, er gert ráð fyrir að 12% af mörkuðum tekjum Vegasjóðs til þjóðvega renni til þjóðvega í þéttbýli. Með þessu fjármagni hefur mjög mikið áunnist við lagningu þjóðvega í þéttbýli. Er talið að nú hafi verið lagðir bundnu slitlagi rúmlega 80% af akfærum vegum eða þjóðvegum í þéttbýli. Hins vegar er þetta mjög ójafnt. Á sumum stöðum hafa allir slíkir þjóðvegir verið lagðir bundnu slitlagi. Annars staðar er átakið skammt á veg komið. Því þykir ekki lengur rétt að skipta þessu fjárframlagi eftir höfðatölureglunni, en gera fremur ráð fyrir framlagi í þessu skyni í vegáætlun og er svo gert í þeirri vegáætlun sem nú hefur verið lögð fram, — gert ráð fyrir 5 millj. kr. í ár, en samtals rúmlega 10 millj. kr. á næstu árum. Er þannig áættað af Vegagerðinni að ljúka megi því að leggja bundið slitlag á þjóðvegi í þéttbýli á fimm árum.

Ég vil jafnframt geta þess, að á vegum hæstv. félmrh. hefur farið fram athugun á hvernig hraða mætti lagningu bundins slitlags á aðra vegi jafnframt í þéttbýli, aðra vegi en þjóðvegi, og hefur orðið samkomulag um það milli hans og mín að afla þurfi lánsfjár til slíkra framkvæmda þannig að sú vegalögn geti fylgt.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en legg til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgn.