09.03.1983
Neðri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2821 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

155. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á l. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en frv. þetta er stjfrv. og hefur verið afgreitt frá Ed. Það er rétt að taka það strax fram að hér er um að ræða samkomulagsmál milli fjmrn. annars vegar og starfsmannafélaga ríkisins hins vegar, þ.e. BSRB og BHM, því að frv. er undirbúið af stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en í honum eiga sæti annars vegar fulltrúar ríkisins og hins vegar fulltrúar Bandalags háskólamenntaðra manna og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.

Hér er um að ræða nokkur mikilvæg atriði til breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en gert er ráð fyrir að heildarendurskoðun á gildandi lögum um lífeyrissjóðinn haldi áfram og henni er ekki lokið þó að hér sé gerð till. um nokkur þau atriði sem brýnast er talið að breytingar séu gerðar á.

Þau atriði sem skipta hér mestu máli eru: Í fyrsta lagi fær sá sjóðfélagi ekki verðbættan lífeyri nú sem hefur verið skemmri tíma sjóðfélagi en 15 ár, en með þeim breytingum sem hér er gerð till. um fá menn verðbættan lífeyri ef menn hafa verið sjóðfélagar í 3 ár eða lengur. Að sjálfsögðu er það með öllu ófullnægjandi að menn sem hafa verið allt að 15 ár í störfum hjá ríkinu þegar þeir hætta njóti ekki samsvarandi réttar og aðrir sem réttar njóta samkv. lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. En þessi mismunur hefur viðgengist alllengi. Hér er þetta lagfært að mestu. Þó er talið eðlilegt að maður þurfi að hafa verið sjóðfélagi þrjú ár eða lengur til að njóta þessara sérstöku réttinda.

Í öðru lagi er rétt að benda á, að í flestum lífeyrissjóðum gildir sú regla að eftirlaunagreiðslur til manna miðast við það starfshlutfall sem menn hafa að meðaltali gegnt yfir starfsævina, en í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins hafa menn fengið eftirlaun í samræmi við það starfshlutfall sem gilti seinasta árið sem menn voru að störfum áður en þeir fóru á eftirlaun. Af þessu leiddi annars vegar það, að fólk sem hafði verið í fullu starfi alla ævi, en hafði látið undan síga á seinustu starfsárum sínum og tekið hálft starf eða þriðjungsstarf, lækkaði verulega í eftirlaunum og svo öfugt, að fólk, sem var í hálfu starfi lengst af, en fór í fullt starf á seinasta ári starfa síns, fékk fullan lífeyri. Að sjálfsögðu samrýmist slík skipan ekki eðlilegum réttlætissjónarmiðum. Því hefur orðið samkomulag um það í sjóðsstjórninni að gera breytingu í þá átt að miðað verði við starfshlutfall það sem viðkomandi starfsmaður hefur að meðaltali gegnt um ævina. Þannig var frv. úr garði gert og í fullu samræmi við það samkomulag sem gert hafði verið í stjórn lífeyrissjóðsins.

Í Ed. var raunar gerð breyting á þessu fyrirkomulagi á þann veg, að það fólk sem hefur notið meiri réttar en því ber eðli máls samkvæmt heldur þeim rétti enn um sinn, en þeir sem fengið hafa minni rétt en þeim ber eðli málsins samkvæmt fá leiðréttingu nú þegar. Þessi breyting var gerð í framhaldi af brtt. sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson flutti í Ed. og var í tvennu lagi og birt er á þskj. 432. Ég ætla ekki að rökræða um efni þessarar breytingar, sem gerð var á frv. í Ed. Ég held. að viss rök mæli með því að þeir sem hafa áunnið sér ákveðinn rétt vegna gildandi laga haldi þeim rétti, en það var einmitt efni 1. tölul. brtt. sem Kjartan Jóhannsson flutti. Hitt orkar kannske meira tvímælis, hvort eigi að viðhalda þessu sérkennilega fyrirkomulagi í sjö ár frá gildistöku þessara laga. En á það féllst hv. Ed. og þannig kemur málið hingað til Nd.

Vissulega er eðlilegt að menn fái aðlögunartíma þegar um er að ræða breytingar af þessu tagi, sem hér er gerð, en menn hljóta nú að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að skipulag, sem er í eðli sínu jafnósanngjarnt og hér er um að ræða, verði að leiðrétta á þann veg að allir sitji við sama borð héðan í frá eða a.m.k. að ekki allt of löngum aðlögunartíma liðnum.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv., en vek enn á því athygli að hér er um samkomulagsmál að ræða og þetta mál á ekki að þurfa að verða ágreiningsmál hér við afgreiðslu á hv. þingi í hv. Nd.

Ég vil eindregið hvetja til þess að málið nái afgreiðslu á þessu þingi og þar sem stutt er eftir af þingstörfum vil ég mjög hvetja fjh.- og viðskn. til að taka þetta mál til snarlegrar meðferðar þannig að unnt verði að afgreiða málið fyrir þinglok.

Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.