09.03.1983
Neðri deild: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2831 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

4. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. meiri hl. (Jósef H. Þorgeirsson):

Herra forseti. Allshn. þessarar deildar hefur haft til athugunar frv. til l. um lokunartíma sölubúða. Frv. þetta er efnislega shlj. frv. sem flutt var á síðasta þingi og þá leitaði allshn. allvíða álits á því frv. og taldi því ekki ástæðu til að leita álits á því frv. sem flutt er á yfirstandandi þingi.

Þau álit sem allshn. fékk á síðasta þingi voru sundurleit að efni og ég held að það sé nauðsynlegt að fara örfáum orðum um þessi álit.

Kaupmannasamtök Íslands sendu frá sér álit og lýstu furðu sinni á fram komnu frv. varðandi lokunartíma sölubúða. Samtökin telja að eins og aðrar starfsstéttir eigi það fólk sem vinnur verslunarstörf fullan rétt á að skynsamleg löggjöf sé í gildi um atvinnu þess. Ennfremur segir í þessu áliti, að í nær öllum nágrannalöndum okkar séu í gildi lög um afgreiðslutíma verslana, sem koma í veg fyrir vinnuþrælkun og mismunun á opnunartíma verslana eftir sveitarfélögum. Einnig telja samtökin að nauðsynlegt sé að sett verði lög sem tryggi verslunarfólk fyrir óhóflegum vinnutíma og verslunina gegn stórauknum kostnaði sem óhjákvæmilega kæmi fram í hærra vöruverði.

Það er tillaga Kaupmannasamtakanna að sett verði lög um opnunartíma verslana og honum verði skipt í þrennt:

Í fyrsta lagi verði ákvæðið um svonefndan grunntíma, sem verði á tímabilinu frá kl. 9–18 fimm daga vikunnar og frá 9–12 á laugardögum. Einnig verði ákvæði um valtíma, þar sem heimilt verði að hafa verslanir opnar ákveðinn tímafjölda á viku að auki, t.d. átta tíma. Og í þriðja lagi vilja þau að ákveðið verði um tímabundin frávik frá þessum grunntíma og valtíma og það yrði vegna atvinnustarfsemi eða þjónustu við ferðamenn eða vegna mannfagnaðar.

Bæjarstjórn Seltjarnarness taldi sig í grundvallaratriðum vera samþykka frv., en bendir þó á að nauðsynlegt geti reynst að hafa í gildi reglur m.a. um lágmarksopnunartíma til að tryggja rétt neytenda, svo og reglur er komi í veg fyrir truflun í íbúðahverfum vegna nætursölu.

Hreppsnefnd Mosfellshrepps lýsti einnig stuðningi við frv.. en bendir á að á hinn bóginn hljóti starfsemi verslana sem og annarra aðila að takmarkast við það að valda ekki nærliggjandi íbúðahverfum og öðrum hlutaðeigandi aðilum ónæði eða tjóni. Hreppsnefndin segir að eðlilegt sé að marka slíkan ramma í lögreglusamþykktum, þannig að lög nr. 17 frá 1936 virðast hreppsnefndinni vera óþörf.

Samband ísl. samvinnufélaga álítur að eðlilegt sé að þjónustutími verslana sé ákvarðaður af hverju sveitarfélagi fyrir sig. enda beri sveitarstjórnir ábyrgð á nægri og skynsamlegri þjónustu til handa íbúunum hver á sínu félagssvæði.

Bæjarstjórn Kópavogs lýsti andstöðu sinni við frv. Bæjarstjórnin telur ekki rétt að fella úr gildi lög nr. 17 frá 1936 um samþykktir um lokunartíma sölubúða og álítur rétt að heimild til setningar reglugerðar um lokunartíma og fleira sé hjá hverri sveitarstjórn, sérstaklega með tilliti til mismunandi aðstæðna í hverju sveitarfélagi.

Landssamband ísl. verslunarmanna lét í ljós það álit, að það hefði kynnt sér rækilega umsögn Verslunarmannafélags Reykjavíkur um frv. Telur landssambandið að þar komi fram allt það helsta sem það vilji um málið segja.

Verslunarmannafélag Reykjavíkur sendir frá sér ítarlegt álit, sem mælir gegn þessu frv., og telur félagið að það hafi sýnt sig að ekki sé unnt að koma á vaktaskiptum í verslunum nema að mjög litlum hluta. Slíkt hafi verið reynt árið 1965 með skipulögðum hætti samkv. samningum milli aðila vinnumarkaðarins, en reyndist óframkvæmanlegt. Hafa verður í huga, segir félagið, að um 3000 manns vinna í 600–700 verslunum á félagssvæði VR og ef koma á við vaktaskiptum þyrfti að tvöfalda tölu starfsmanna. Allir sjá að slíkt er ekki auðvelt og sá vinnukraftur liggur ekki á lausu, segir félagið.

Þá segir félagið, að rétt sé að benda á að enda þótt verkalýðshreyfingin hafi að mörgu leyti eflst síðustu áratugina og ætti þess vegna að vera betur í stakk búin en áður að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna án lagaverndar, eins og bent er á í grg., hafi Alþingi talið ástæðu til að setja löggjöf í síauknum mæli á undanförnum árum um fjölmörg hagsmunamál launþega. Má þar t.d. nefna lög um 40 stunda vinnuviku, lög um orlof, lög um aðbúnað á vinnustöðum og lög um starfskjör launafólks, svo fáein dæmi séu nefnd.

Verslunarmannafélagið víkur að því að í grg. með frv. sé því haldið fram að mjög strangar reglur gildi um afgreiðslutíma verslana í Reykjavík. Hið rétta er, segir félagið, að samkv. gildandi reglum er hægt að veita þjónustu í 70 stundir í viku yfir þrjá sumarmánuði, júní til ágúst, og 78 stundir í viku níu mánuði ársins. Segir félagið að tæplega sé réttmætt að tala um að slíkur þjónustutími sé mjög þröngur, þar sem hann nálgast að vera helmingi lengri en dagvinnutími flestra stétta. Ekki er að efa að neytendum þætti þetta ríflegur tími hjá opinberum stofnunum, sem ekki hafa treyst sér til að veita þjónustu nema brot af þessum tíma, segir í áliti félagsins.

Félagið bendir einnig á að bæði lögreglustjórinn í Reykjavík og borgarlæknir hafi á sínum tíma eindregið mælt gegn afnámi reglugerðar um opnunartíma sölubúða í Reykjavík, þegar till. var um það flutt í borgarstjórn á árinu 1966. Félagið segir að í umsögn lögreglustjórans hafi sagt m.a.:

„Frá löggæslulegu sjónarmiði væri það óæskileg þróun ef engar hömlur væru settar um afgreiðslutíma verslana og þær mættu vera opnar að næturlagi. Gæti það leitt til ýmiss konar vandkvæða. Nægir í því sambandi að benda á tilhneigingu fólks til þess að senda börn og ungmenni til innkaupa utan löglegs útivistartíma, vaxandi ölvun á almannafæri er líða tekur á kvöld, svo og það að ólögleg starfsemi kynni að þróast í verslunum ef þær hefðu ótakmarkaða heimild til sölu að næturlagi.“

Í umsögn borgarlæknis sagði m.a.:

„Það verður að teljast afturför ef sælgætis- og tóbaksverslanir, sem nú selja um söluop, yrðu opnaðar aftur fyrir viðskiptavini og þannig stofnað að nýju til svokallaðs búðarhangs unglinga, sem á sínum tíma var mikið og réttilega gagnrýnt opinberlega.“

Að síðustu vil ég víkja að umsögn Verslunarráðs Íslands. Ráðið tekur undir þær skoðanir er fram koma í grg. með frv., en engu að síður telur Verslunarráðið frv. ófullnægjandi og sendi frá sér drög að lögum um afgreiðslutíma verslana, þar sem segir í 1. gr. að afgreiðslutími verslana skuli vera frjáls, en engu að síður og ennfremur segir í 3. gr. að afgreiðslutíma verslana sé ekki heimilt að binda í kjarasamningum vinnuveitenda og stéttarfélaga og í 5. gr. segir að þrátt fyrir ákvæði 1. gr. sé sveitarfélögum heimilt að setja reglur um afgreiðslutíma verslana í sínu byggðarlagi þegar slíkar reglur hafa þann tilgang að vernda frið í íbúðarhverfum eða taka mið af almennum öryggissjónarmiðum.

Samband ísl. sveitarfélaga sendi frá sér álit og stjórn þess lýsti sig einróma samþykka frv.

Eins og að framan greinir hníga öll þessi álit í mismunandi áttir og er ekki auðvelt að leita í þeim að leiðbeiningum um með hvaða hætti væri eðlilegast að afgreiða þetta frv.

Megininntak þessa máls er það, að um það er deilt hvort rétt sé að viðhalda þeirri reglu, sem verið hefur í lögum á Íslandi allt frá árinu 1917, sem kveður á um það, að hvert sveitarfélag hafi heimild til þess að setja um það samþykktir hve lengi sölubúðir séu opnar í viðkomandi sveitarfélagi. Þeir sem vilja afnema þessa heimild sveitarfélaganna til að takmarka opnunartíma sölubúða vilja að opnunartíminn sé fullkomlega gefinn frjáls, en aðrir, sem eru mótfallnir því að þessi heimild sé afnumin, telja að það sé eðlilegt og sjálfsagt að sveitarfélögin á hverjum stað taki ákvörðun um með hvaða hætti opnunartíma sölubúða sé háttað í sveitarfélaginu og það megi treysta því að sveitarfélögin á hverjum tíma hafi yfir það yfirsýn hvað henti í sveitarfélaginu.

Þessi er skoðun meiri hl. allshn. Nd. og leggur n. því til að þetta frv. verði fellt. Að þessu áliti nm. standa sex nm., en Vilmundur Gylfason, 4. þm. Reykv., skilaði séráliti og lagði til að frv. yrði samþykkt.