09.11.1982
Sameinað þing: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

17. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Hv. alþm. hlustuðu áðan á hv. 3. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, lýsa því yfir annars vegar að hér fælist í því sem til væri lagt aðdróttun um skuggaleg viðskipti, óheiðarleika og hvað annað sem flutt var og hins vegar neitaði þm. því hér aðspurður í ræðustól að hann hefði sjálfur flutt slíkar tillögur. Vera má að hann muni ekki, en ég man. Má ég lesa? (Gripið fram í: Jú.)

Tillaga til þingsályktunar á 100. löggjafarþingi 1978, um rannsóknarnefnd þingmanna til að kanna rekstur, fjárfestingar, erlend umsvif og stjórnmálaleg tengsl Sambands ísl. samvinnufélaga og tengdra fyrirtækja með sérstöku tilliti til einokunaraðstöðu og markaðsdrottnunar — bara marxískur frasi! — þessara fyrirtækja. Flm.: Albert Guðmundsson.

„Alþingi ályktar að kjósa rannsóknarnefnd skipaða sjö þm.“ — Hvað er það hjá mér? Alþingi ályktar að fela sérstakri rannsóknarnefnd, sem skipuð sé 7 þm. — „til að gera athugun á rekstri, fjárfestingum, erlendum umsvifum og stjórnmálalegum tengslum.“— Ég geng ekki svona langt. Ég kann mannasiði. Eigum við að halda áfram? — „Sambands ísl. samvinnufélaga og tengdra fyrirtækja með sérstöku tilliti til einokunaraðstöðu og markaðsdrottnunar“ — kemur það enn — „þessara fyrirtækja. Störf nefndarinnar skulu einkum miðast við að leita svara við eftirtöldum spurningum“. Þetta eru 15 atriði.

Hann stóð hér og sakaði okkur flm. um óheiðarleika og aðdróttanir. Það sem ég er auðvitað að undirstrika er tegundin af málflutningnum. Ég lagði sérstaka áherslu á að um engar slíkar aðdróttanir væri að ræða. Það heyrðu það allir þm. eða 59, að till. væri flutt í allt öðrum tilgangi. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem þó hefur aðrar skoðanir í utanríkismálum, undirstrikaði það sama.

En hvernig var spurt á þinginu 1978, hv. þm. Albert Guðmundsson? „Hver eru tengsl SÍS og tengdra fyrirtækja við Framsfl. og hver hefur verið hagur beggja af þessum tengslum?“

Eigum við að athuga nr. 2? „Að hve miklu leyti hafa sérstakar frádráttarheimildir samvinnufélaga í lögum um tekju- og eignarskatt skapað SÍS og kaupfélögunum víðtæka einokunaraðstöðu?“ Kemur það enn.

Það er spurt nr. 3: „Í hve ríkum mæli nýtur SÍS og tengd fyrirtæki meiri og hagkvæmari lánafyrirgreiðslu en annar atvinnurekstur?“

Það er spurt nr. 4: „Hver er hagur SÍS og kaupfélaganna af núverandi greiðslufyrirkomulagi afurðalána?“

Við getum ekki skilið við Albert. Það er spurt nr. 5: „Hver er hagnaður SÍS og kaupfélaganna af búfjárslátrun og hvert rennur sá hagnaður?“

Ég gæti lesið áfram í nr. 13: „Að hve miklu leyti er markaðsdrottnun þessara fyrirtækja í gegnum hátt vöruverð þáttur í þeirri dýrtíð, sem á undanförnum árum hefur rýrt kjör almenns launafólks á Íslandi? Svo segja þeir að við séum að gefa í skyn, dylgja, eins og þeir segja alltaf, þessir herramenn, við séum að gefa í skyn og strigakjafturinn, 4. þm. Reykv., fari á stóryrðakostum. Menn heyrðu það hérna áðan. — En þetta er sjálfur kjarni málsins: Vörn hans áðan var nauðvörn. Hún var nauðvörn einokunarmanna. Nú mundi held ég hv. 3. þm. Reykv., sem ég sé að er búinn að biðja um orðið, og lesi menn svo grg. með þessu, segja að hann hafi flutt þessa till. af því að hann hafi verið að láta eins og fífl út af till. hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Það er út af fyrir sig eflaust alveg rétt að hann var að láta eins og fífl. Hann var bara að því líka áðan.

Kjarni málsins er sá, að það er sjaldgæft að varnaraðili einokunarviðskipta eða hverra annarra viðskipta komi upp um sig eins og hv. 3. þm. Reykv. hefur gert í dag. Hann hikaði ekki við að flytja svona till. af því að honum er sérstaklega í nöp við Samband ísl. samvinnufélaga og telur að þar séu — ég veit ekki hvað — pólitískir hagsmunir. Hann hikar ekki við í sínum málflutningi að koma með allar gömlu Tímalummurnar um aðdróttanir, dylgjur og þetta allt saman. Það er ekkert slíkt í því plaggi sem hefur verið kynnt í dag. Það var sérstaklega varað við því í málflutningnum að menn flyttu sig yfir á slíkt plan og beðið um að svo væri ekki gert. Við dylgjum ekki, en þeir hafa dylgjað oft og mörgum sinnum og um margt og mikið.

Ég gleymdi því, herra forseti, í framsöguræðu minni í dag að mælast til þess að till. yrði vísað til hv. allshn. Sþ. 1978 var sams konar till. vísað til utanrmn. og ég sé eftir á að hyggja að það hafa verið mistök. Till. á heima hjá allshn. Þetta er ekki utanríkismál. Þetta eru almenn viðskiptamál. Ég vil bæta því við, að ég fellst á að þetta er ónákvæmlega orðað í tillgr. Tillgr. sjálf um úttekt á verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll stendur fyrir sínu, en þar sem minnst er á dótturfyrirtæki hefði átt að standa „önnur slík fyrirtæki“ eða eitthvað slíkt. Ég vil biðja nm. um að laga þann texta, eins og tveir hv. ræðumenn hafa bent á. Það er alveg ljóst hvað við er átt, en hér er um nokkra ónákvæmni að ræða og það verður væntanlega leiðrétt.

Það var gerð aths. við að ég hefði talað um samstarf lýðræðisþjóða. Ég talaði um samstarf lýðræðisþjóða og ég átti við samstarf lýðræðisþjóða. Bandaríki Norður-Ameríku eru að minni hyggju lýðræðisþjóð, en það er sérsamningur á milli slíkra tveggja sem ég átti við. Ég var ekki að skírskota til Atlantshafsbandalagsins. Mér er mætavel 1 jóst að það ríkir svívirðilegt stjórnarfar í Tyrklandi, en mér er hitt jafnljóst, að Bandaríki Norður-Ameríku eru lýðræðisþjóðfélag og kannske það fullkomnasta í veröldinni. Finnst mér að margir þm., a.m.k. hv. 11. þm. Reykv., mættu átta sig betur á þeirri einföldu staðreynd.

Hér er lagt til að sérstakri rannsóknarnefnd verði falið að kanna tiltekin einokunarviðskipti. Ég hef sagt að við Reykvíkingar þekkjum mætavel stórhýsi sem stendur hér ofan við Reykjavík, nánar tiltekið á Ártúnshöfðanum. Menn hér hafa spurt um það, með hverjum hætti ágóði hafi þarna verið fluttur til. Það er ein af fjölmörgum spurningum sem svara verður um þetta.

Ég vil ekki blanda mér í umr. um með hverjum hætti öðrum þessum málum er komið fyrir eða hvernig yfir höfuð það eigi að gera. Eitt er þó alveg ljóst, að maðurinn sem flutti till. um SÍS fann að því að það ætti að kalla menn fyrir þessa nefnd. Maðurinn sem flutti till. um SÍS verður að átta sig á því, að 39. gr. í stjórnarskránni gerir beinlínis ráð fyrir að þetta sé hægt.

Í annan stað vil ég taka undir það, að með svona vald þarf að fara mjög varlega því að persónuvörnin er auðvitað alltaf okkar dýrasta gersemi. En það breytir ekki hinu, að hér er um að ræða fríðindi sem ríkisvaldið hefur uppálagt tilteknum hópi manna í formi viðskipta. Og menn sem njóta fríðinda af hendi ríkisvaldsins verða auðvitað að vera undir það búnir, að það hið sama ríkisvald vilji eiga við þá orð. Það getur ekki komið nokkrum manni á óvart og alls ekki manni sem hefur einokunarrétt í viðskiptum af hendi ríkisvaldsins. Það er það sem gildir um þessa menn og þess vegna eiga almennar röksemdir um persónuvörn ekki við.

En ég vil með almennum orðum taka undir með hv. þm

. sem flutti till. um SÍS, að það þarf að fara mjög varlega ævinlega þegar persónuleg verðmæti eru annars vegar. Við sem skiljum borgaraleg verðmæti — líka samvinnumanna — vitum það manna best.