09.03.1983
Neðri deild: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2836 í B-deild Alþingistíðinda. (2790)

4. mál, lokunartími sölubúða

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Það er komið miðnætti og kannske ekki ástæða til að lengja umr. almennt mikið og kannske spurning hvort þingið á að starfa miklu lengur svona kvöld eftir kvöld. En ég tel þó ástæðu til að fara nokkrum orðum um þetta frv., þar sem ég var ekki til staðar þegar 1. umr. þess fór fram.

Ég vil taka það strax fram, að ég ætla að mæta nokkur orð til stuðnings þessari till., sem hv. 4. þm. Reykv. Vilmundur Gylfason hefur hérna flutt, og áliti minni hl. hérna.

Ég hef verið búsettur bæði hérna í Reykjavík, þar sem þessum ákvæðum er beitt af mjög mikilli hörku um opnunar- og lokunartíma verslana, og ég hef undanfarin alimörg ár, tæp 13 ár, búið suður í Keflavík, þar sem þessu ákvæði hefur ekki verið beitt. Á því tímabili sem ég hef búið suður frá hefur orðið breyting. Þar voru söluop opin fyrstu árin sem ég bjó þar, einungis með takmörkuðu vöruvali, sem að vísu var aldrei farið nákvæmlega eftir, heldur var alltaf verið að bæta við vörutegundum eftir vörutegund. Auðvitað var viðskiptavininum, sem kom og beið kaldur fyrir utan dyr, seldur mjólkurpottur er á vantaði vegna þess að söluopin voru auðvitað ekkert nema partur af versluninni.

Endirinn varð sá, að verslanir voru hafðar opnar eins lengi og kaupmenn ákváðu og náðu samningum við sína starfsmenn um. Reynslan hefur verið sú, að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir bæjarstjórnar Keflavíkur til þess að kaupmenn kæmu sér þá saman um tillögur á hvern hátt yrði staðið að þessum málum hefur slíkt samkomulag ekki náðst formlega, en óformlega hefur það náðst á þann hátt að verslanir eru almennt opnar til kl. 10 á kvöldin, en 8 um helgar og til, held ég að ég muni rétt, kl. 1 á sunnudögum, og segi ég sunnudagsopnunina með nokkrum fyrirvara þó.

Ég hef ekki orðið var við nein vandkvæði í framkvæmd þessa atriðis suður í Keflavík frá löggæslusjónarmiði eða hangs í sjoppum á einn eða annan hátt. Og ég verð að segja það, að ég held að Keflvíkingar almennt séu mjög ánægðir með þessa þjónustu. Ég held að starfsfólkið sé það í raun líka vegna þess að þetta eykur þó vinnutímann hjá því og það fær þarna aukavinnu greidda eftir því sem samningar gera ráð fyrir á hverjum tíma.

Það var meira að segja svo um tíma, — og verslanirnar hjá okkur suður frá held ég að teljist allar vera heldur í stærri mælikvarðanum, það er minna um kaupmanninn á horninu, eins og Vilmundur talaði um áðan, heldur meira um markaði, — að allmargir komu úr Reykjavík til að versla í þessum mörkuðum okkar á kvöldin og ekki síst um helgar.

Ég held að það sé óvarlegt að fella þessa till. frá hv. þm. Þetta eru lög sem eru búin að vera í gildi frá árinu 1936, sem er að mjög takmörkuðu leyti farið eftir nema í einstaka sveitarfélagi, eins og t.d. í Reykjavík, og ég held að það sé kominn tími til að afnema þau að fullu. Það má þá endurskoða þessar reglur eftir nokkur ár ef þær þykja gefa slæma reynslu. En reynslan suður í Keflavík, fullyrði ég, bæði eftir áliti starfsmanna að dæma og ég tala nú ekki um viðskiptavinanna, er góð. Ég legg til að till. verði samþykkt.