09.03.1983
Neðri deild: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2838 í B-deild Alþingistíðinda. (2797)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um fjáröflun til vegagerðar, en frv. þetta var lagt fyrir Ed. og hefur verið afgreitt þaðan nýverið.

Frv. þetta felur það í sér að lagt er gjald, svokallað veggjald, á eigendur bifreiða eftir þyngd bifreiðanna. Gjaldið er lagt á allar bifreiðar og nemur 1 kr. á hvert kg bifreiðar upp að ákveðnu marki eftir breytingu sem gerð hefur verið á frv. í Ed., en þegar frv. var lagt fram var gjaldið lagt á allar bifreiðar, 1 kr. pr. kg.

Samþykkt þessa frv. er forsenda þess að unnt sé að afgreiða vegáætlun með þeim hætti sem undirbúið hefur verið og rætt hefur verið í fjvn. seinustu dagana og ljóst er að ef frv. nær ekki fram að ganga yrðu vegaframkvæmdir í landinu 120 millj. kr. minni á þessu ári en ella verður og mundi það fyrst og fremst koma niður á varanlegu slitlagi. Á það hefur verið bent við meðferð málsins að hér sé ekki alfarið um að ræða nýjar álögur á bifreiðaeigendur, vegna þess að með lækkun aðflutningsgjalda á seinustu tveimur árum hafa aðflutningsgjöld verið lækkuð að því marki að bifreiðaeigendur eða þeir sem kaupa bifreiðar á árinu 1983 mundu hafa greitt 120 millj. kr. meira en þeir gera ef ekki hefðu verið lækkuð aðflutningsgjöldin. Það má því með nokkrum rétti segja að hér sé um að ræða skipti á gjöldum þannig að í staðinn fyrir aðflutningsgjöld, sem hafa verið lækkuð, kemur hér sérstakt veggjald. Og upphæðin er í grófum dráttum sú sama, a.m.k. sú upphæð sem miðað var við þegar frv. var lagt fram, þ.e. 120 millj. kr.

Í Ed. voru gerðar nokkrar breytingar á frv., þar sem á það var bent að eigendur vörubifreiða og vöruflutningabíla hefðu ekki notið þess hagræðis sem felst í lækkun aðflutningsgjaldanna, heldur hefði sú lækkun fyrst og fremst komið til góða eigendum smábíla. Með hliðsjón af þessu var ákveðið af Ed. að lækka gjaldið á bifreiðar og bithjól, sem eru þyngri en 2 tonn, og hæst verður veggjaldið 7600 kr. fyrir hverja bifreið eftir þá breytingu sem Ed. hefur gert, en að sjálfsögðu gat gjaldið farið allmiklu hærra eins og frv. var upphaflega lagt fram miðað við 22 tonna þyngd á bifreiðum, sem getur stundum verið um að ræða. Þá hefði gjaldið orðið þrisvar sinnum hærra en nú hefur verið ákveðið. Enginn vafi er á að þessi breyting er mjög til bóta, mjög skynsamleg, og var hún raunar gerð í samráði við mig, enda var ég þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt.væri að koma til móts við sjónarmið vöruflutningabifreiðaeigenda og gefa nokkurn slaka miðað við það sem upphaflega var ráðgert með frv.

Í öðru lagi er á það að benda að gúmmígjald er aflagt með þessu frv., en vegna þess að eigendur vörubíla og vöruflutningabíla hafa ekki notið góðs af tollalækkun eða lækkun aðflutningsgjalda með sambærilegum hætti og eigendur smábíla hefur verið ákveðið í Ed., einnig að höfðu samráði við mig, að lækka tolla á hjólbörðum, sem ætlaðir eru fyrir vöruflutningabifreiðar, úr 40% í 20%. Þá er að sjálfsögðu ekki aðeins um að ræða að tollurinn á hjólbörðum lækki, heldur lækkar þá söluskatturinn líka vegna þess að hann leggst ofan á tollinn. Þetta er áreiðanlega hvort tveggja sanngjarnt og eðlilegt miðað við að þessi tegund bifreiða naut ekki lækkunar á aðflutningsgjöldum eins og smábílarnir. Hitt er annað mál, að engir hafa meiri hag af lagningu varanlegs slitlags á vegi en eigendur vörubíla og vöruflutningabifreiða, og raunar má heita víst að þeir hefðu fengið verulegan hluta, ef ekki allan þennan skatt, endurgreiddan með hækkuðum töxtum.

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að fjölyrða frekar um þetta mál. Hraða þarf afgreiðslu þess eins og nokkur kostur er, því að ekki er hægt að taka vegáætlun hér fyrir til endanlegrar afgreiðslu fyrr en búið er að afgreiða þetta mál. Ég vil því leyfa mér að skora á hv. n., sem fær málið til meðferðar. að hraða afgreiðslunni eins og kostur er.

Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.