09.03.1983
Neðri deild: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2840 í B-deild Alþingistíðinda. (2800)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal ekki flytja langa tölu um þetta mál, sem kemur hér frá hv. Ed. Það er þó athyglisvert við 1. umr. þessa máls hér í hv. Nd. að tveir hv. þm. stjórnarflokkanna gera aths. við þetta mál, annars vegar hv. 8. landsk. þm. og hins vegar hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl.

Það kom fram. líkast til við 3. umr. fjárlaga. þegar þau voru afgreidd fyrir jól. í ræðu hæstv. samgrh., að til stæði að setja þennan skatt á landsmenn til að standa undir gjöldum til vegagerðar. Ég vil gagnrýna slíka málsmeðferð. Auðvitað var eðlilegt að strax í haust hefði verið ráðgert hvernig standa skyldi straum af kostnaði við þessi mál og er alls ófullnægjandi hvernig að þessum málum er staðið hvað þetta varðar.

Í öðru lagi held ég að það fari ekki milli mála, og verður það vonandi skýrt betur fyrir mér í þessari umr. ef svo er ekki, að talsverðir fjármunir af gjöldum á umferð og umferðartæki, bæði bensín, innflutningsgjöld og tollar, fara beint í ríkissjóð. Hér er þess vegna um algerlega nýja skattheimtu að ræða til viðbótar við hina stórkostlegu skattheimtu sem átt hefur sér stað hjá hæstv. núv. ríkisstj. og forvera hennar vegna þess eins að fjármunir sem gætu farið til vegamála hafa verið teknir til annarra nota. Auðvitað fer viss hluti þessarar skattheimtu beint út í verðlagið, einkum og sér í lagi þegar um er að ræða skattheimtu þeirra aðila sem hafa atvinnu af því að reka flutningatæki, bæði fólksbifreiðar og vöruflutningabifreiðar.

Ég viðurkenni, eins og hv. síðasti ræðumaður, að þetta frumvarp hefur lagast, það hefur skánað heldur í meðferð Ed., en ég vek athygli á því, hverju er verið að læða inn í þessu frv. Ég vísa til aths. við 1. gr. frv., en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Í frv. þessu er lagt til að gúmmígjald verði fellt niður, en þess í stað kveðið á um greiðslu árlegs veggjalds er skuli vera 1 kr. af hverju kg eigin þyngdar bifreiðar.“

Með þessu orðalagi er auðvitað verið að gefa það í skyn að þarna sé samræmi á milli gjalda. En ég þykist vita að þessi nýi skattur sé margfaldur á við niðurfellingu á gúmmígjaldinu.

Ég vísa, herra forseti, til afstöðu sjálfstæðismanna, hv. þm. Sjálfstfl. í Ed. Við höfum lýst yfir andstöðu við þetta frv. Við munum beita okkur gegn því og vinna að því að þetta nýja skattafrv. hæstv. ríkisstj. verði fellt.