09.03.1983
Neðri deild: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2841 í B-deild Alþingistíðinda. (2801)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð til viðbótar því sem hæstv. fjmrh. sagði. Það kom fram hjá síðasta ræðumanni að hér væri um viðbótarálögur á bifreiðaeigendur að ræða. Ég vek athygli á því, að í nál., sem dreift var á hinu háa Alþingi í nóv. 1981 og unnið var af nefnd sem í sátu embættismenn, m.a. fjmrn., samgrn., Vegagerðar o.fl. voru lagðar fram tillögur um hvernig mætti færa tekjur af umferðinni beint í Vegasjóð eða beint til vegagerðar. M.a. lagði nefndin til að tollar væru lækkaðir og í staðinn tekið upp þetta gjald. Þessu var dreift hér í nóv. 1981.

Ég vil jafnframt upplýsa, af því að hv. þm. gagnrýndi að mál þetta væri seint komið fram, að ég hreyfði þessu máli í ríkisstj. fyrir alimörgum mánuðum, þ.e. töluvert fyrir áramótin. Hins vegar taldi bæði ég og aðrir í ríkisstj. eðlilegt að kynna þetta fyrir stjórnarandstöðunni. Ég viðurkenni að það var ekki gert fyrr en þing kom saman eftir áramót. Af ýmsum ástæðum vildi ég heldur að þetta fengi umr. í þingflokkum ríkisstj. M.a. get ég upplýst að þetta var nú samþ. held ég án mótatkv., a.m.k. í þingflokki Framsfl., á sínum tíma.

Ég vil taka það fram að ég tel að þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv. séu réttmætar. En ég vil harðlega andmæla því að hér sé um viðbótarálögur að ræða. Þessum till. n. frá nóv. 1981 var fylgt með því að í tvígang hafa tollar verið lækkaðir og um leið og það var gert var um það rætt að færa greiðslur bifreiðaeigenda þannig til Vegasjóðs.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ýmsar greiðslur bifreiðaeigenda renna beint í ríkissjóð, eins og söluskattur af bensíni o.s.frv. Að þessu hefur oft verið fundið og talið að þarna mætti meira renna beint í Vegasjóð. En það er ekkert nýtt. Það er búið að vera svo í fjölda ára að greiddur hefur verið söluskattur af bensíni og innflutningsgjöld af bifreiðum o.s.frv. og rennur það fé beint í ríkissjóð. Hér er verið að draga nokkuð úr því og færa beint í Vegasjóð, sem ég hef alltaf skilið á hv. þm., ekki síst Sjálfstfl., að þeir legðu mikla áherslu á.

En ég vil jafnframt geta þess að það voru athugaðar aðrar leiðir í þessu sambandi, m.a. að hækka bensíngjaldið og þá þungaskattinn líka, en það var af mörgum talið mjög orka tvímætis. Ef sama hlutfall hefði átt að vera milli bensíngjaldsins og þungaskattsins þá eftir sem áður hefðu t.d. bifreiðar sem mikið eru notaðar, við skulum segja langferðabifreiðar og þess háttar bílar, greitt sem næmi um 40–50 þús. kr. í þetta gjald. Ekki var talið fært að fara slíka leið.

Mér er hins vegar alveg ljóst að þetta kemur eitthvað misjafnt niður. Það er nú svo með flest gjöld. Það er rétt, sem hefur komið fram, að t.d. bifreiðar sem standa mikinn hluta ársins greiða tiltölulega meira miðað við notkun. Hins vegar held ég að skynsamlegt sé nú fyrir menn sem nota slíkar bifreiðar t.d. að sumarlagi að afskrá þær annan hluta ársins. Þá lækkar þetta gjald í réttu hlutfalli við það.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því, að menn hafa lagt á það mikla áherslu að auka bundið slitlag og það hefur verið gert á undanförnum árum. Það voru lagðir 370 km á þremur árum. Það eru 60% þess bundins slitlags sem nú er. Þessu fylgir mjög mikill sparnaður og hefur verið áætlaður fyrir langferðabifreiðar og vöruflutningabifreiðar. Ég er ekki með þær tölur og vil þess vegna ekki fara með þær hér, en það eru verulegar upphæðir í sparnaði. Því miður finnst mér bera á því, þegar þetta mál kemur til umr., að allir vilja hafa góða vegi, en þeir segja bara: Ekki borga ég.

Og svo þetta: það er ekki nýtt, ég vek athygli á því, að að sjálfsögðu hagnast jeppaeigendur á lækkun tolla eins og aðrir og á lækkun á tollum af hjólbörðum eins og aðrir og þar með einnig bændur.

Ég held að það sé dálítill misskilningur, sem hér hefur verið færður fram í sambandi við þetta frv. og vildi freista þess að vekja athygli á aðdraganda þess og töluvert langri meðferð þessa máls.