09.03.1983
Neðri deild: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2807)

246. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Frsm. (Jósef H. Þorgeirsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. Nd. um frv. til l. um vísitölu byggingarkostnaðar, en frv. þetta er flutt að beiðni hagstofustjóra og fjallar um nauðsynlegar breytingar á lögum um vísitölu byggingarkostnaðar. En þessar breytingar eru eingöngu tæknilegs eðlis.

Núgildandi vísitala byggingarkostnaðar var sett á laggirnar með lögum nr. 93 frá 1975 og var samkv. þeim ákveðin í okt. 1975. Í 7. gr. þeirra laga er mælt svo fyrir að Hagstofan skuli eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta fara fram athugun á því hvort byggingarhættir hafi breyst svo að ástæða sé til að endurskoða vísitölu byggingarkostnaðar. Slík endurskoðun hefur verið á döfinni s.l. tvö ár. Niðurstaða hennar liggur nú fyrir í formi tillagna um breyttan grundvöll vísitölu byggingarkostnaðar. Verk þetta hafa unnið þeir Guðmundur Pálmi Kristinsson deildarverkfræðingur hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Vilhjálmur Ólafsson viðskiptafræðingur, deildarstjóri á Hagstofunni.

Með setningu byggingarreglugerðar nr. 292 frá 12. maí 1979, sem gildir fyrir allt landið, voru á ýmsum verksviðum gerðar auknar kröfur til gæða bygginga. Má þar nefna bæði einangrun, sterkari steypu, meiri járnabindingu veggja og aukið öryggi raflagna. Eiga þessar breytingar verulegan þátt í því að talið var nauðsynlegt að endurskoða grundvöll vísitölu byggingarkostnaðar. Við þetta bættist einnig að tækniþróun hefur á síðari árum gengið í átt til vandaðri frágangs á ýmsum verksviðum. Val efnis til bygginga hefur og tekið talsverðum breytingum á þeim tíma sem grundvöllurinn frá 1975 var unninn. Þá hafa og komið til breyttar byggingaraðferðir. Má þar sem dæmi nefna að uppmæling uppsláttar er í hinum breytta grundvelli miðuð við notkun léttra kerfismóta, unninna með handafli, svo og að í honum er glerísetning með loftræstri aðferð.

Að því er varðar innréttingar var reiknað með aukinni stöðlun, sem þýðir lækkun kostnaðar.

Annað, sem hefur orðið að taka tillit til í þessu sambandi og skiptir miklu máli, eru breytingar á uppmælingatöxtum sem hafa átt sér stað síðan árið 1975 og einkum hin síðari ár. Er hér um að ræða breytingar sem hafa orðið á taxtamínútum verðskráa. Verkefnið sem lá fyrir var þannig að reikna upp byggingarkostnað vísitöluhússins til samræmis við núverandi byggingarhætti í víðustu merkingu þess orðs. Hér þurfti sem sé að taka tillit til aukinna gæðakrafna og annars í byggingarreglugerð frá 1979 og til fyrrnefndra breytinga að því er varðar áorðna tækniþróun og þess háttar.

Eins og fram kemur í þeim orðum sem ég hef nú flutt er hér aðeins um að ræða tæknilega breytingu á grundvelli byggingarvísitölunnar. Nefndin hefur fengið til sín hagstofustjóra Klemens Tryggvason og er sammála um að mæla með því við þessa deild að frv. verði samþykkt.