09.03.1983
Neðri deild: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2844 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

240. mál, útvarpslög

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á útvarpslögum nr. 19/1971.

Það er meginefni þessa máls, að í þessu frv. er tekinn upp sá kafli í frv.-drögum svokallaðrar útvarpslaganefndar sem fjallar um réttindi til útvarps. Aðalatriði þessa frv. eru þessi:

Einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarps, sem er skilgreindur bæði sem útvarp og sjónvarp, er afnuminn. Setja skal upp sérstaka útvarpsréttindanefnd, er fái það verkefni að veita öðrum aðilum eða umsækjendum leyfi til útvarps til skamms tíma, ekki lengur en tveggja ára, enda skuli það leyfi vera háð tilteknum skilyrðum og afturkallanlegt. Skilyrðin eru mörg, en þar á meðal má nefna að leyfishafar skulu bera ábyrgð á útsendu efni, þeir skulu fullnægja ákveðnum gæðakröfum, þeir skulu virða ákvæði höfundarréttarlaga og annarra laga, svo sem eins og laga um vernd barna og ungmenna, og þeir skulu virða ákveðnar grundvallarreglur um tjáningarfrelsi við þessa starfsemi.

Þá er það og mikilvægt atriði í þessu lagafrv. að settar eru ákveðnar reglur um birtingu auglýsinga og gjaldtöku fyrir þær. Þar eru aðalreglurnar þær, að ef um er að ræða þráðlausa útsendingu er heimild til auglýsingaöflunar og útsendingar, en ef um er að ræða lokuð kerfi, svo sem sjónvarpsútsendingar um þráð eða kapal, er auglýsingaöflun og gjaldtaka fyrir auglýsingar óheimil. Þetta er meginefni þessa máls.

Herra forseti. Nú hagar svo til að hæstv. menntmrh. hefur látið undir höfuð leggjast að framfylgja þeirri helstu skyldu handhafa framkvæmdavalds að framfylgja lögum í landinu. Það er opinbert leyndarmál að á undanförnum 2–3 árum hafa risið upp hér fyrirtæki sem ástunda útvarps/sjónvarpsrekstur og brjóta í bága við íslensk lög að mati sérfróðra manna. Á borði hæstv. ráðh. liggur t.d. álit svokallaðrar myndbandanefndar um þetta efni frá því í desember árið 1981. Samkv. þeirri skýrslu er það niðurstaða höfunda, nefndarinnar sem starfar undir formennsku Gauks Jörundssonar lagaprófessors, að fjölmörg lög sem í fullu gildi eru séu brotin að meira eða minna leyti í þessari starfsemi. Þar ber fyrst að nefna útvarpslögin sjálf og þá einkum ákvæði þeirra um einkarétt Ríkisútvarpsins til útvarps, en einnig má nefna önnur lög, svo sem t.d. lög um höfundarrétt, lög um fjarskipti frá því, ef ég man rétt, u.þ.b. árið 1941, lög sem að flestra mati eru í mörgum veigamiklum atriðum kolúrelt. Þá eru nefndir til sögunnar fleiri lagabálkar, svo sem hegningarlög og ákvæði þeirra t.d. um klám, og eigendur einkaréttar. Til eru nefnd lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, lög um kvikmyndaeftirlit og þá þeir kaflar þeirra laga sem fjalla um eftirlit barnaverndarnefndar. Þetta er ærið langur listi um lög sem talið er að brotin séu á degi hverjum vegna þeirrar starfsemi sem upp hefur risið á s.l. 2–3 árum.

Ég endurtek að það er ein helsta skylda handhafa framkvæmdavaldsins að framfylgja þeim lögum sem sett eru á Alþingi og í gildi eru. Ef stjórnvöld eru hins vegar þeirrar skoðunar að þessi lög séu úrelt ber þeim að beita sér fyrir því að fá slík lög numin úr gildi eða fá sett önnur lagaákvæði sem eru þá frekar í samræmi við breytt viðhorf og nýja starfshætti.

En það er ekki einasta að hæstv. menntmrh., sem er æðsti yfirmaður þessara mála, hafi látið undir höfuð leggjast að framfylgja lögum. Hann hefur sett kíkinn fyrir blinda augað. Bent hefur verið á þá athyglisverðu staðreynd að hið opinbera innheimtir aðflutningsgjöld og aðra skatta af því efni sem notað er við þessa starfsemi og því er jafnvel haldið fram að í því sé fólgin óbein viðurkenning.

Svo er að heyra að hæstv. menntmrh. hafi lýst þeirri skoðun sinni að hann sjái fulla ástæðu til og viðurkenni þörfina á því að breyta úreltum lögum í mörgum greinum. Engu að síður ber svo við að ríkissaksóknari bregður við allt í einu nú fyrir nokkrum vikum og höfðar mál fyrir sakadómi á hendur einu þeirra fyrirtækja sem rekur kapalsjónvarpskerfi og er því gefið að sök að hafa sjónvarpað um þráð í 15 kerfum í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði og gert sig þannig sekt um brot á einkarétti Ríkisútvarpsins og rekið þessa starfsemi án leyfis allt frá árinu 1981. Hins vegar eru fleiri slík fyrirtæki með sambærilega starfsemi og við þeim hefur ekki verið hróflað.

Þá er á það að benda, að á borði ráðh. hefur legið skýrsla útvarpslaganefndar. Í þeirri skýrslu er að finna drög að nýju frv. til laga um útvarpsrekstur, þar sem tekið er á þessu máli. Ég hef þegar, herra forseti, rakið meginefni þessara frv.-draga útvarpslaganefndar, en þau beinast að því, að fremur en að láta reka á reiðanum og láta þróun mála ganga fyrir sig stjórnlaust er með þeirri lagasmíð gerð tilraun til að viðurkenna áorðnar staðreyndir um gerbreytta tækni í þessum málum og hins vegar að stýra þeirri þróun samkv. einhverri fyrir fram gerðri stefnu og þá í tilraunaskyni til skamms tíma. Ég hef þess vegna, herra forseti, tekið þann kost að flytja hér á hv. Alþingi þann kafla úr frv.drögum útvarpsréttindanefndar sem fjallar um rétt útvarps og ég hef þegar gert grein fyrir aðalatriðum þessa frv. ef að lögum verður.

Til greina gat auðvitað komið að notfæra sér frumkvæðisrétt þm. og flytja frv.-drög útvarpslaganefndar í heild, en með vísan til þess að aðrir kaflar frv.-draga útvarpslaganefndar lúta fremur að endurskoðun á minni háttar atriðum eldri útvarpslaga og samsvara þeim að mestu lét ég það ógert.

Það sem brýnast er að leysa eru þau mál sem varða einkarétt Ríkisútvarpsins. Sú spurning, sem menn þurfa fyrst og fremst að svara, er þessi: Eru menn reiðubúnir að afnema þau ákvæði og hvað skal þá gera í staðinn? Hér er mótuð ákveðin leið.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það eru skiptar skoðanir á því hvort sú stefna sem fram kemur í þessu frv. sé sú eina rétta. Þar eru uppi ýmis álitamál. Ég tel þó kjarna málsins vera þann, að með þessu frv. er mótuð ákveðin stefna í stað stjórnleysis og það er stefnt að auknu frjálsræði með ábyrgð þeirra aðila sem þess frjálsræðis eiga að njóta. Og það er kjarni málsins.

Það nær engri átt að ætta að stinga höfðinu í sandinn, neita að viðurkenna staðreyndir eða láta þessa hluti flæða yfir þjóðfélagið atveg stjórnlaust. Það ber að bregðast við þessum nýju viðhorfum og móta ákveðna stefnu um það, hvernig gera megi tilraunir með breytta starfsemi. Fyrst og fremst koma þá til álita tvö sjónarmið. Annars vegar er það: Á að stýra þessari þróun með einhverjum hætti? Ef veita á öðrum leyfi til þessarar starfsemi, hvaða skilmála á þá að setja og hvaða stefnu ber að fylgja eða er nóg, eins og sumir ætla, að gefa þetta hreinlega frjálst eða fela þetta einhverjum öðrum aðilum, eins og heyrst hefur, t.d. sé nóg að leggja þetta á vald sveitarstjórna, ef fyrir liggi heimild sveitarstjórna skuli þetta frjálst að öðru leyti?

Einnig verða menn að taka afstöðu til þess, hvernig menn vilja líta á tekjuöflunarmöguleika þeirra fyrirtækja, sem upp kunna að rísa í þessari starfsemi, og þá er auglýsingamálið mikilvægast. Ég er sammála þeirri skoðun, sem fram kemur í áliti útvarpslaganefndar, að a.m.k. á þessu skeiði, meðan gerðar eru tilraunir í tvö ár, í þeim tilvikum t.d. þar sem um er að ræða lokuð kapalkerfi, þar sem hægt er að innheimta afnotagjöld með þeim hætti, sé ekki ráðlegt að innleiða auglýsingar, en hins vegar skuli það heimilt þar sem um er að ræða þráðlausar útsendingar og gjaldtöku með afnotagjöldum verður ekki við komið.

Herra forseti. Ég vek athygli sérstaklega á ákvæði til bráðabirgða. Þau hljóða svo:

„Alþingi skal þegar í stað kjósa útvarpsréttarnefnd, sbr. 8. gr. Starfstími hennar skal fyrst um sinn vera tvö ár, sbr. þó 8. gr.“, en þar er gert ráð fyrir fjögurra ára starfstíma og að nefndin verði kosin í upphafi hvers þings að loknum alþingiskosningum.

Í annan stað segir svo: „Leyfi til útvarps, sem veitt verða í fyrsta sinn samkv. ákvæðum 10. gr., má ekki veita til lengri tíma en tveggja ára.“

Þetta er undirstrikað, að hér er lagt til að fitjað verði upp á tilraunastarfsemi og árangurinn síðan metinn innan tveggja ára reynslutíma.

Sama á við um seinustu mgr. í þessu ákvæði til bráðabirgða, en þar segir:

„Lög þessi skal endurskoða innan tveggja ára frá setningu þeirra.“