10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2847 í B-deild Alþingistíðinda. (2813)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Vegna orða hæstv. forseta vil ég láta það koma hér fram að fyrir fáeinum dögum lagði hæstv. forseti Sþ. fram lista á fundum formanna þingflokkanna yfir þau stjfrv. sem ætlunin væri að reyna að afgreiða hér í þinginu. Mál voru þar flokkuð í þrjá flokka og það var skýrt tekið fram að þetta væri listi frá hæstv. forseta Sþ. Ég fór með þann lista á fund í mínum þingflokki og gerði grein fyrir honum þar og við fjölluðum um hann sem lista frá hæstv. forseta Sþ. en ekki sem lista frá hæstv. forsrh. En hæstv. forseti sagði hér fyrir fáeinum mínútum að okkur formönnum þingflokkanna hefði verið afhentur listi frá hæstv. forsrh. um mál sem ætti að afgreiða. Ég hef síðustu daga ekki séð slíkan lista, en hef hins vegar tekið við lista frá hæstv. forseta Sþ. sem var í hæsta máta eðlilegur. Við tókum hann til meðferðar og afgreiðslu og ég þakka hæstv. forseta Sþ. fyrir hann. En fyrst hér var sagt opinberlega úr forsetastól að ég hefði móttekið lista frá hæstv. forsrh. gat ég ekki látið þeim orðum ómótmælt, því að það er ekki rétt.