10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2852 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

Um þingsköp

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir orð hv. þm. Sverris Hermannssonar, þar sem hann óskaði þess eindregið að menn dokuðu við eftir hæstv. forsrh., þannig að hann mætti vera viðstaddur þegar menn frýja honum hugar og dugnaðar. Sjálfur verð ég að líta í eigin barm og játa það, að mér finnst best að fá að vera viðstaddur sjálfur þegar þess háttar er beint til mín.

Að öðru leyti vil ég taka undir þá ósk, sem borin hefur verið hér fram á undan mér af ýmsum þm., til hæstv. forseta að þess verði nú til kostað að ekki þurfi að verða kvöldfundir hér þá fáu daga sem eftir eru eða þá fáu sólarhringa sem eftir eru til þingslita. Það má hugsa til þess, að í gildi eru lög, lagabálkar, sem upp á það hljóða hversu mönnum má halda til vinnu, hversu langan tíma. Hirði ég ekki að þylja upp heiti þeirra lagabálka.

En jafnvel þótt hinir vöskustu menn í hópi okkar hv. alþm. treysti sér til fyrir karlmennsku sakir og drengskapar, svo að ég víki nú að orðfæri Bergþóru heitinnar á Bergþórshvoli, að leggja nótt við dag og halda greind sinni jafnvakandi eigi að síður, þegar fjallað er um hin þýðingarmestu mál, þá má hugsa til þess að einnig þessu er misskipt meðal vor alþm. Í þessum hópi eru menn sem ekki treysta sér til þess að láta loga jafnskært á skarinu sínu jafnvel sólarhringum saman með slíkum vinnubrögðum. Í okkar hópi eru menn, sem ekki hafa heilsu til slíkra vinnubragða en eiga þó fullkominn rétt á því að fá að leggja sitt hér til málanna, enda skil ég ekki, hv. alþm., hvers konar æðibunugangur þetta er með hækkandi sól, að við þurfum að leggja hér nótt við dag sem þrælar eða íslenskir sjómenn fyrir vökulögin af ótta við að missa pláss. Eða er það kannske þannig að menn óttist um að missa plássið?