10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2856 í B-deild Alþingistíðinda. (2831)

172. mál, varnir vegna hættu á snjóflóðum og skriðuföllum

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að gera fsp. til félmrh. á þskj. 263 um varnir vegna hættu á snjóflóðum og skriðuföllum.

Ekki þarf að taka fram að náttúruhamfarir af völdum snjóflóða og skriðufalla hafa alla tíð valdið miklu tjóni hér á landi, miklu manntjóni og eignatjóni og þarf ekki að rifja þá sögu upp hér, en skemmst er að minnast þeirra atburða sem urðu á þessum vetri þegar snjóflóðin féllu á Patreksfjörð með hörmulegum afleiðingum. Það er einmitt vegna þess að reynslan hefur sýnt hve mikið tjón hlýst af snjóflóðum og skriðuföllum, sem menn hafa verið að tala um að vinna markvisst að vörnum til að mæta þessum náttúruhamförum.

Þessi mál hafa oftsinnis komið til umr. hér í þinginu áður. Á þinginu 1980–81 var flutt till. til þál. um heildarlöggjöf, skipulag og varnir vegna hættu af snjóflóðum og skriðuföllum. Það voru fimm valinkunnir alþm. sem voru flm. að þeirri till., þeir Helgi Seljan, Árni Gunnarsson, Stefán Valgeirsson, Sverrir Hermannsson og Stefán Jónsson.

Till. fjallaði um það að fela ríkisstj. að undirbúa og leggja fram á Alþingi frv. til l. um skipulag varna gegn tjóni af völdum snjóflóða og skriðufalla. Það var gert ráð fyrir því að við samningu löggjafar um þetta efni yrði höfð hliðsjón af vissum atriðum, sem fram voru tekin í þessari þáltill., svo sem að staðið yrði skipulega að gagnasöfnun um snjóflóð og skriður sem fallið hafa. Það yrði við skipulag byggðar tekin upp sú meginregla að byggja ekki hús til íbúðar eða atvinnurekstrar á svæðum sem talið er af sérfróðum aðilum að snjóflóð eða skriðuföll geti náð til. Það var gert ráð fyrir að gerðar yrðu tillögur um varanleg varnarmannvirki fyrir byggð á hættusvæðum. Það var gert ráð fyrir rannsóknum á þessu sviði og fyrirbyggjandi varnaraðgerðum. Það var gert ráð fyrir að á stöðum þar sem byggð er risin og hætta er á snjóflóðum verði komið upp eftirlitsog viðvörunarkerfi. Það var gert ráð fyrir að slík atriði sem þessi yrðu höfð í huga þegar samið yrði frv. að lögum um skipulegar aðgerðir til varnar snjóflóðum og skriðuföllum.

Þessi þáltill. frá þinginu 1980–81 var samþykkt 2. apríl 1981. Nú er því liðið nær eitt ár, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft til þess að sinna því verkefni sem þál. gerir ráð fyrir og ég hef þegar gert grein fyrir.

Það er með tilliti til þessa sem nú er flutt fsp. á þskj. 263 til félmrh. um það, hvað líði undirbúningi að frv. til l. um skipulag varna gegn tjóni af völdum snjóflóða og skriðufatla, sem ríkisstj. var falið að gera með þál. frá 2. apríl 1981.