10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2860 í B-deild Alþingistíðinda. (2833)

172. mál, varnir vegna hættu á snjóflóðum og skriðuföllum

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir greinargóð svör við fsp. minni, en mér þykir svarið gefa tilefni til nokkurra aths. af minni hálfu. Og það er fyrst og fremst vegna þess hver töf hefur orðið á þessu máli, þ.e. því máli að ríkisstj. léti undirbúa og leggja fram á Alþingi frv. til l. um skipulag varna gegn tjóni af völdum snjóflóða og skriðufalla. Hæstv. ráðh. vék að þessu og það var meginþáttur hans máls að skýra í hverju þessi töf væri fólgin. Hæstv. ráðh. sagði að það hefði ekki verið ljóst hvar í stjórnarkerfinu þessi málaflokkur ætti heima og hann hefði falið ráðuneytisstjóranum í félmrn., að því er mér skildist, að kanna það mál og skila skýrslu um það.

En jafnframt kom fram í máli hæstv. ráðh. að í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, árið 1978, hefði verið tekin ákvörðun um að vista þessi mál í.samgrn. Með hliðsjón af þessum upplýsingum er mér ekki alveg fullkomlega ljóst í hverju það liggi að þetta hafi ekki mátt öllum vera ljóst fyrst búið var að vista málið í samgrn.

Hæstv. ráðh. skýrði svo frekar sínar aðgerðir í þessu máli og þátt Vilhjálms Lúðvíkssonar í því. Og mér skilst að á fundi, sem haldinn var nú í byrjun febr., hafi eftir allar þessar athuganir komið í ljós að ekki væri vöntun á lögum um þessi efni, heldur þurfi skipulag, og það hafi verið settur á fót starfshópur til þess að kanna hvaða lög væri um að ræða eða til þess að gera tillögur um heildarlöggjöf ef það þætti rétt. Síðan upplýsir ráðh. að 10. febr. hafi verið skipuð nefnd til þess að vinna að því að efla varnir og samræma aðgerðir til varnar gegn snjóflóðum og skriðuföllum og að nefndinni sé ætlað að vinna að framkvæmdum á grundvelli gildandi laga.

Ég hef í sjálfu sér ekkert við þetta að athuga, ef það er alveg augljóst að ekki sé hyggilegra að setja heildarlöggjöf um þessi efni. En það komu ekki, fannst mér, fram nægileg rök fyrir því af hálfu ráðh. að það væri röng stefna, sem hv. Alþingi tók með samþykkt þáltill. frá 2. apríl 1981, en þar er fjallað um að það sé sett löggjöf um þetta efni.

Hæstv. ráðh. sagði að vísu að fyrst og síðast væri þetta fjárhagsmál. Auðvitað er það rétt að það skiptir miklu máli. En það er líka mikið skipulagsmál hvernig haldið er á þessum málum. Og ég leyfi mér að efast um að það sé rétt að setja ekki heildarlöggjöf um varnir gegn tjóni af völdum snjóflóða og skriðufalla eins og Alþingi hefur þegar falið ríkisstj. að gera.