10.03.1983
Sameinað þing: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2862 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

Um þingsköp

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Efst á dagskrárlistanum í dag er fsp., sem ég er 1. flm. að ásamt öðrum þm. Reykjaneskjördæmis, fsp. til forsrh. um hlutdeild Hafnarfjarðarkaupstaðar í framleiðslutekjum frá ÍSAL. Ég hef nú beðið nokkuð þolinmóður eftir því að fá svör við þessari fsp. Mér brá þess vegna í brún þegar hæstv. forseti tók hana ekki til umr. hér þó hún væri efst á dagskrá. Þegar ég leitaði skýringar, þá var svarið það, að svar við fsp. væri ekki tilbúið.

Þessi fsp. er ekki ný, hún er þriggja mánaða gömul. Hún var send hæstv. forsrh. 8. des. s.l. Það eru þrír mánuðir og tveir dagar síðan. Það er ótvírætt samkv. þingsköpum, að það er ætlast til þess að fsp. frá þm. sé svarað. Það er gert ráð fyrir því að fsp. sé tekin á dagskrá ekki síðar en átta virkum dögum eftir að hún var leyfð — og þá væntanlega í þeim skilningi að fsp. sé þá svarað um það leyti sem hún er tekin á dagskrá, ekki að það dragist í þrjá mánuði, hvað þá að þegar hún er orðin efst á dagskrárliðunum sé ekki unnt að svara henni. Það er ótvírætt samkv. þingsköpum að ráðherrar eiga að svara fsp. frá þm. Það stendur beinlínis í þingsköpum: Ráðherra eða ráðherrar, er hlut eiga að máli, svara síðan fsp. Þessi fsp. varðar viðræður milli ríkisstj. og Hafnarfjarðarkaupstaðar um hlutdeild bæjarins í framleiðslutekjum ÍSALs. Það er spurningin um efndir á samkomulagi, sem var gert 1976, og það er spurningin um efndir á yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. gaf hér fyrir ári síðan: Mér finnst það gersamlega óviðunandi, herra forseti, að þm. fái ekki svör við fsp. sínum og get ekki annað en borið fram harðorð mótmæli gegn því að þessari fsp. sé ekki svarað hér í dag.