10.03.1983
Sameinað þing: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2874 í B-deild Alþingistíðinda. (2848)

Um þingsköp

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vildi í tilefni af þeim umr. sem hér fara fram og þeirra spurninga sem hv. 11. þm. Reykv. bar fram hér áðan inna eftir því hvernig á því stendur að ýmsum öðrum málum, sem fyrr standa á dagskrá þessa 63. fundar Sþ., er sleppt. Er það að ósk flm. að þessum tillögum er sleppt af dagskránni? Hvernig er með 3. mál á dagskrá, afvopnun og stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna, 82. mál Sþ.? Hvernig stendur á því að því er sleppt úr umr.? Hafa flm. og meðflm. hans óskað eftir því að þetta mál komi ekki til umr.? Innsiglingarleiðin í Höfn í Hornafirði, þáltill., 108. mál Sþ. Ég veit ekki betur en hv. þm. Halldór Ásgrímsson sé þetta viðriðinn. Hvernig stendur á að því er vikið til hliðar fyrir þessa till. hér, nr. 17? Afvopnun, þáltill., 110. mál Sþ. Hafa flm. óskað eftir því að það mál komi ekki til umr.? Ég spyr vegna þess að nú sneiðist vafalaust mjög um þingfundartíma hér á hv. Alþingi og það er meiningin að reyna að ljúka þingstörfum nú um helgina. Brúargerð á Kúðafljót. Hvað segir hæstv. forseti Sþ. um þá till.? Á ekki að ræða hana hér? Má ekki tala um hana hér í hv. Alþingi? Hvers á hún að gjalda eða flm. hennar? Hefur verið beðið um að till. um brúargerð á Kúðafljót verði ekki rædd hér í þinginu? Hver hefur farið fram á það? Jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla. Allt þetta á að rífa út, fjölmörg þjóðþrifamál hvert á fætur öðru, og henda sér í 17. dagskrármál. Hvernig í ósköpunum víkur þessu við? (Forseti: Ég skal svara hæstv. félmrh. strax. Ég hef ítrekað boðið öllum flm. þessara mála að ræða þau hér á þinginu áður.) Það er nokkuð fróðlegt að heyra, ég verð að segja það, að svo skuli vera og þeir hafi þá neitað að tala um þessi mál. Það fylgir þá ekki mikill hugur máli ef þeir neita að ræða um það.

Gerð frv. til stjórnskipunarlaga um aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdavalds, flm. Bandalag jafnaðarmanna gjörvallt, sem talar yfirleitt um sjálft sig í fleirtölu hér eins og konungurinn gerði á síðustu öld. Við aleinir vitum, sagði konungurinn, við, segir þm. Bandalags jafnaðarmanna. Hann talar ævinlega um sjálfan sig í fleirtölu. Vill hann ekki ræða um aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdavalds? Annað hefur mér heyrst að undanförnu. Það kveður þá nýrra við ef hv. þm. Vilmundur Gylfason, þm. Bandalags jafnaðarmanna og þingflokkur og formaður með meira, vill ekki ræða um þetta grundvallaratriði í stefnuskrá Bandalags jafnaðarmanna. Þetta er býsna sérkennilegt, herra forseti, og það er líka nokkuð sérkennilegt, verð ég að segja, að þegar umr. fara fram um fsp. fyrr í dag á 62. fundi Sþ. er félmrh. mættur hér og tilbúinn að ræða um varnir vegna snjóflóða og skriðufalla, en það eru tekin út mál sem hann er tilbúinn til að svara án þess að ráðh. sé látinn vita af því eða fyrirspyrjandi. Hérna er greinilega verið að ýta fram málum með býsna annarlegum hætti.

Ég vil að lokum segja að auðvitað er till. til þál. um samkomudag Alþingis að loknum næstu kosningum flutt í deildum vegna þess að hún er hluti af stjórnarskrár- og kjördæmamálinu. Auðvitað er hún flutt í deildum vegna þess. Það er grundvallaratriði og það vil ég taka fram, vegna þess að ég er einn af flm. þess frv. um stjórnarskrá sem hér hefur verið rætt á liðnum dögum. Til að koma í veg fyrir allan misskilning í þeim efnum, herra forseti, felst í þeim tillöguflutningi af hálfu flm. ekkert vantraust á störf forseta Sþ.