10.03.1983
Efri deild: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2880 í B-deild Alþingistíðinda. (2855)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Stjórnarskrárnefnd Ed. hefur rætt frv. til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, á fundi sínum, en áður en málinu var vísað til þessarar hv. deildar höfðu stjórnarskrárnefndir beggja deilda haldið nokkra fundi þar sem fjallað var ítarlega um frv.

Á fund nefndanna kom hagstofustjóri og gerði þar grein fyrir viðhorfum sínum, þar sem hann taldi þörf á breytingu á 2. gr. frv. Nefndirnar urðu sammála um að taka aths. hans til greina og þess vegna var 2. gr. frv. nokkuð breytt í Nd. Breytingin var í því fólgin, eins og fram kemur í brtt., að kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt. Lögheimili á Íslandi þegar kosning fer fram er einnig skilyrði kosningarréttar, nema undantekningar frá þeirri reglu verði ákveðnar í lögum um kosningar til Alþingis. Nánari reglur um alþingiskosningar skulu settar í kosningalögum.

Eins og nú er í gildandi stjórnarskrá er það skilyrði fyrir kosningarrétti að hafa lögheimili á Íslandi. Um nokkurt skeið hafa verið uppi reglur sem eru ekki að fullu í samræmi við þetta vegna námsmanna sem dveljast á Norðurlöndum, og vegna hins samnorræna flutningsvottorðs missa lögheimili sitt hér á landi. Í frv. eins og það var lagt fram var gert ráð fyrir að koma til móts við þetta með því ákvæði að menn gætu haft hér kosningarrétt ef þeir hefðu átt hér lögheimili einhvern tíma á síðustu fjórum árum. Hagstofustjóri benti á að það væri mjög miklum vandkvæðum bundið að framfylgja slíku ákvæði og auk þess mundi það alls ekki ná til allra sem þörf væri á. Þess vegna féllust nm. á að gera þessa breytingu.

Hugmyndin er sú, að í lögum um kosningar til Alþingis sé möguleiki að setja ákvæði sem heimili þegnum sem hafa íslenskan ríkisborgararétt að hafa hér kosningarrétt, enda þótt þeir eigi ekki lögheimili á Íslandi. Það er sem sagt reiknað með að slíkt undanþáguákvæði verði sett í kosningalögin. Hins vegar þarf að athuga málið betur áður en því er slegið föstu að allir íslenskir ríkisborgarar eigi þennan rétt og þess vegna er sú leið farin að vísa því yfir í kosningalögin.

Aðrar breytingar voru ekki gerðar á frv. í Nd. og stjórnarskrárnefnd Ed. mælir með því að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Nd.

Þetta mál er búið að vera í ítarlegri athugun í þingflokkunum í langan tíma. Þetta er eins og allir vita ákaflega viðkvæmt mál og skiptar skoðanir. En menn hafa reynt að leggja sig fram um að ná samkomulagi og niðurstaðan birtist í þessu frv. Þegar þannig er reynd málamiðlun og komist að samkomulagi verður kannske enginn fullkomlega ánægður, en menn misjafnlega óánægðir. En það er von þeirra sem að þessu máli standa að hér hafi tekist að fara nokkurn meðalveg og vænta þeir þess að breytingin megi verða farsæl í framtíðinni.