10.03.1983
Neðri deild: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2893 í B-deild Alþingistíðinda. (2893)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Nd. hefur um nokkurt skeið fjallað um frv. til lánsfjárlaga. Það verður að segjast eins og er, að mjög skammur tími hefur gefist til þess að fjalla um málið og einnig liggur fyrir að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hefur ekki komið fyrir þingið.

Nefndin hefur við þessar aðstæður reynt sitt ítrasta til að greiða fyrir því að þingi verði ekki svo slitið að ekki séu til heimildir til að taka erlend lán til nauðsynlegustu mála. Það er hins vegar ljóst, að miðað við allar aðstæður getur svo farið og er mjög líklegt að eitthvað þurfi að endurskoða varðandi þau mál.

Ég vil biðja þá aðila, sent hafa nokkuð gagnrýnt meðferð fjh.- og viðskn. á þessu máli, að skilja að það hefur verið mjög stuttur tími til stefnu og það var mjög nauðsynlegt að ná góðu samkomulagi í þinginu um að afgreiða þetta mál. Það voru allir þm. í nefndinni fúsir til að gera sitt ítrasta til að mál þetta mætti ná fram að ganga. Það hefur að sjálfsögðu orðið til þess að við hefðum gjarnan viljað athuga ýmis mál mun betur og við hefðum líka kosið að þeir sem eru aðstandendur þessa máls og bera það fram hefðu einnig haft ráðrúm til að líta á ýmis mál betur, sem hér koma fram, og hefði gefist kostur til að ræða þau betur við okkur áður en málið var kynnt. Ég vil biðja menn að skilja þessar aðstæður og ég vil láta það koma fram að allir nm. hafa viljað gera sitt ítrasta til að greiða fyrir þessu máli. Ekki meira um það.

Einnig vil ég taka það fram, að formaður nefndarinnar hefur flutt hér brtt. sem allir nm. standa að, eins og fram kemur í nál. minni hl., eða réttara sagt hafa nm. tjáð samþykki sitt við þessum brtt. þótt minni hl. nefndarinnar beri ábyrgð á málinu með sama hætti og hann ber ábyrgð á núv. ríkisstj.

Varðandi brtt. vil ég fyrst taka fram að 9. brtt. á þskj. 559 gerir ráð fyrir að lánsfé samkv. þessum lögum sé ráðstafað í samræmi við fjárlög fyrir árið 1983. Að því leyti sem ákvæði laga þessara fela í sér viðbót við heimildir fjárlaga skal því fé ráðstafað að höfðu samráði við fjvn. Alþingis, og skal núverandi fjvn. starfa þar til önnur verður kjörin.

Við teljum nauðsynlegt að fjvn. fái upplýsingar um þá liði sem ekki var fjallað um varðandi afgreiðslu fjárlaga; hreinlega vegna þess að við höfum ekki haft tækifæri eða tíma til að líta náið á þessa liði, og enn kemur þar til áhugi nm. á að greiða sem mest fyrir málum.

Varðandi 2. brtt. skal það tekið fram að við kölluðum á fulltrúa frá Landsvirkjun, enda er þessi lántökuheimild vegna þess fyrirtækis. Það er kannske rétt að taka það fram að í sjálfu sér er ekki nauðsynlegt að flytja lántökuheimild fyrir Landsvirkjun og ýmsar B-hluta stofnanir í frv. til lánsfjárlaga. Það hefur hins vegar verið tekinn upp sá siður að gera það, en það er ekki vegna þess að það sé nauðsynlegt að lögum. Það eru til annars konar heimildir til að framkvæma þá lántöku. En hins vegar er alger nauðsyn að fara svona að varðandi ríkissjóð og A-hluta ríkissjóðs. Þetta hefur verið gert á þennan hátt á undanförnum árum.

Við spurðum menn frá Landsvirkjun um það, hvernig þeir hygðust ráðstafa því fjármagni sem þeir fengju til umráða. Bréf þeirra er, eftir því sem ég best veit, birt á þskj. 558. Þeir gerðu sér fulla grein fyrir því að nauðsynlegt væri að takmarka sem mest erlendar lántökur, en voru hins vegar fullir af áhuga á að ljúka ýmsum verkefnum og töldu vera mikilvægt að ljúka verkefnum eins og Sultartangastíflu og Suðurlínu og hefja byrjunarframkvæmdir við Blönduvirkjun þannig að hún gæti tekið til starfa á árinu 1987.

Það kemur hins vegar fram í nál., sem ég vil lesa: „Varðandi framkvæmdir Landsvirkjunar kemur fram í fskj. að útlit sé fyrir að anna megi núverandi markaði fram á haustið 1988 og jafnvel eitthvað lengur. Hins vegar er mikilvægt að stofna til nýrra atvinnufyrirtækja í orkufrekum iðnaði. Nefndin telur að áformum um orkuöflun verði að fylgja ákveðnar tímasetningar um orkusölu.

Samkv. frv. er ráðgert að stöðva framkvæmdir við Suðurlínu og ljúka verkinu á árinu 1984. Þegar hefur verið keypt allt efni vegna línunnar og aðeins eftir að leggja hluta hennar. Ekki er einsýnt að hagkvæmast sé að fresta þessu verki af þeim verkefnum, sem Landsvirkjun hyggst vinna á árinu, og nauðsynlegt að fyrirtækið meti það á ný í ljósi þrenginga varðandi erlendar lántökur.“

Það hlýtur að vera almenn og góð regla, að ef ráðist er í framkvæmdir sé þeim lokið á sem skemmstum tíma. Hins vegar má alltaf deila um hvenær rétt sé að hefja framkvæmdir. Mikilvægast af öllu er þó það, hvort sem það eru virkjanir eða rafmagnslínur, að fyrir þessar dýru framkvæmdir sé full þörf þegar þær eru teknar í notkun. Þess vegna verður það aldrei of oft sagt að það verði að haldast í hendur orkuöflun og orkusala. Okkur í nefndinni þóttu ekki liggja fyrir nægilega góðar upplýsingar um þessi mál og þess vegna segjum við hér í lokin:

„Nefndin vill leggja áherslu á að áform um orkuöflun og orkudreifingu fái frekari umfjöllun á næstunni og síðan verði leitað eftir heimildum til viðbótar síðar á árinu þegar frekari ákvarðanir liggja fyrir.“

Þetta verður að skoðast í ljósi þess, að við töldum okkur ekki fá fullnægjandi upplýsingar. Við erum á engan hátt að koma í veg fyrir að ýmislegt sem nauðsynlegt er að gera varðandi þessi mál verði gert, en við vildum með þessari till., að lækka fjárhæðina um 60 millj., leggja áherslu á að framkvæmdamál þessi yrðu tekin til nánari umfjöllunar á næstunni og þegar niðurstöður væru fengnar varðandi það mætti leita nýrra lántökuheimilda, ef menn telja það skynsamlegt, hvort sem það er varðandi framkvæmdir og ekki síst með tilliti til möguleika á orkusölu.

Varðandi 4. brtt. er þar aðeins lagt til að leiðréttingar verði gerðar, sem við fengum upplýsingar um að væru nauðsynlegar, í sambandi við skuldbreytingu lána; i fyrsta lagi hjá Hitaveitu Suðurnesja og í öðru lagi varðandi Hitaveitu Akureyrar. Vænti ég þess, að þessar heimildir geri kleift að framkvæma þær skuldbindingar sem nauðsynlegar eru varðandi þessi fyrirtæki.

Í 5. brtt. er aðeins gerð sú breyting, að veitt er heimild til lántöku vegna framkvæmda sveitarfélaga og skuldbreytinga sveitarfélaga eða fyrirtækja þeirra. Það er vitað mál að ýmis sveitarfélög eigi í vandræðum varðandi skuldbreytingar. Það á við um fjarvarmaveitur, hitaveitur og ýmis önnur fyrirtæki sveitarfélaga. Er nauðsynlegt að þessi heimild sé fyrir hendi, enda hefur nefndin ekki gert neina till. um breytingar þar um.

Ég vildi einnig geta um 3. brtt. Í 4. gr. frv. segir: „Fyrirtækjum með eignaraðild ríkissjóðs er heimilt að taka lán á árinu 1983 samkv. síðari ákvörðun fjmrh. um lántökuaðila að fjárhæð allt að 33 millj. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.“

Við fengum upplýsingar um að fyrirhugað væri að ráðstafa 8 millj. og aðrar upplýsingar lágu ekki fyrir í n. Þess vegna þótti ekki ástæða til á þessu stigi málsins að hafa þessa fjárhæð hærri, ekki nema frekari upplýsingar lægju fyrir, og mætti þá taka það upp síðar.

Ég vildi einnig geta þess varðandi Landsvirkjun að einn liður heitir í B-hluta fjárlaga Virkjunarrannsóknir/framkvæmdir. Við spurðum fulltrúa Landsvirkjunar um hvort þessar framkvæmdir heyrðu undir þá eða undir hverja þær heyrðu, en engar upplýsingar fengust um það. Væntanlega hefur hv. fjvn. gengið frá því og fengið upplýsingar um það við afgreiðslu fjárlaga.

Í sjálfri brtt. er lagt til að vegna beiðna bæði frá ríkisstj. og Framkvæmdastofnun sé fjmrh. heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán Byggðasjóðs að fjárhæð allt að 5 millj. kr. vegna smíða fiskiskipa innanlands. Á sínum tíma var slík heimild í lánsfjárlögum 1980/1981 að upphæð rúmar 18 millj. kr., ef ég man rétt, og má lita á þessa heimild sem viðbót við þá heimild.

Í 8. brtt. er aðeins um orðalagsbreytingu að ræða, sem ég get ekki séð að skipti máli, en sumir nm. töldu rétt að breyta orðalagi og fjmrn. sagði að það mundi ekki koma að sök á þessu ári. Hins vegar væri sama orðalag á greininni og var árið áður, en þá hafi það verið mjög nauðsynlegt.

Herra forseti. Ég veit að hér er mjög skammur tími til að afgreiða mál og þess vegna vil ég ekki hafa framsögu mína lengri, en vænti þess að málið fái skjóta afgreiðslu og óþarfa málalengingar verði ekki hér í Nd. um málið því að það er mjög brýnt að það komist til Ed. þótt nefndirnar hafi starfað saman að málinu.

Ég vil aðeins að lokum leggja það til að frv. verði samþ. með þeim brtt. sem ég hef flutt á þskj. 559, en ég vil áskilja mér rétt til að draga sumar brtt. til baka til 3. umr.