10.03.1983
Neðri deild: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2895 í B-deild Alþingistíðinda. (2894)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og raunar hefur þegar komið fram er hér á ferðinni eitt af stærstu málum sem Alþingi ber lagalega skylda til að afgreiða á hverju ári, en eins og formaður fjh.- og viðskn. sagði hefur n. gefist ákaflega lítill tími til að skoða þetta stóra mál — miklu minni tími en nefndin yfirleitt tekur sér til að skoða miklu minna marktækt mál en það sem hér er á ferðinni. Þetta er aðeins eitt dæmið um það, sem hv. þm. Árni Gunnarsson vakti athygli á utan dagskrár fyrr í dag, að nú hrannast hingað inn málin hvert á fætur öðru, en nefndaformenn hafa þær yfirlýsingar að vegna þess hraða sem verður að hafa á afgreiðslum hér sé ekki hægt að veita þessum málum þá skoðun sem nauðsynleg er. Þetta sýnir tvennt:

Í fyrsta lagi að það er fullur vilji hér á Alþingi, meðal stjórnarandstæðinga ekki síður en stjórnarliða, til þess að afgreiða hér mál svo að allt reki ekki í strand á þeim fáu vikum sem eftir eru þangað til áforma má að nýtt þing komi saman.

Í öðru lagi staðfestir þetta enn á ný það, sem því miður hefur komið fram oft áður, að hér er ekkí við Alþingi né fjh.- og viðskn. að sakast að ekki skuli hægt að hafa vandaðri vinnubrögð, heldur er ástæðan sú, að hæstv. ríkisstj. kom ekki málinu frá sér til Alþingis fyrr en fyrir fáum dögum.

Þetta mál átti raunar að koma frá hæstv. ríkisstj. um svipað leyti og fjárlagafrv. kom fram á s.l. hausti. Þegar fjárlagafrv. hafði verið lagt fram og hæstv. fjmrh. flutti nokkru síðar framsögu með því frv. skýrði hann frá því að lánsfjárlög væru í smíðum og þess væri að vænta að ekki liði langur tími þangað til frv. til lánsfjárlaga kæmi fram, en til þess er ætlast að afgreiðsla fjárlaga og lánsfjárlaga fari fram á sama tíma svo að við eina afgreiðslu sé hægt að gefa mynd af ríkisfjármálunum í heild, bæði þeirri afgreiðslu sem fram fer í fjárlögum og þeirri afgreiðslu sem fram fer í lánsfjárlögum. Þetta tókst ekki. Þar er ekki við Alþingi að sakast. Ég vil taka það fram, að ég býst við því að ég fari rétt með þegar ég segi að sennilega sé ekki heldur við hæstv. fjmrh. að sakast, heldur er ástæðan sú, að ríkisstj. kom sér ekki saman um tillögugerð að lánsfjárlögum fyrr en fyrst nú fyrir nokkrum dögum að hæstv. fjmrh. tókst að fá heimild til að leggja slíkt frv. fram.

Ég tel ótvírætt að hæstv. ráðh. og rn. hans sé löngu búið að gera tillögur til ríkisstj. um efnisatriði lánsfjárlagafrv. Hins vegar gerist það í þessu máli, eins og svo fjölmörgum öðrum, að um nokkurra missera skeið hefur hæstv. ríkisstj. raunar verið óstarfhæf — ekki vegna þess fyrst og fremst að hún hafi misst meiri hl. sinn í annarri deild þingsins, heldur fyrst og fremst vegna hins, að hún kemur sér ekki sjálf saman um tillögugerð í neinu meiri háttar máli. Lánsfjártagafrv., sem hér er á ferðinni á elleftu stundu, er ein sönnunin enn um þetta. Málið er ekki svona seint á ferðinni vegna vanrækslu af hálfu Alþingis eða fjh.- og viðskn. Það er ekki svona seint á ferðinni að minni. hyggju vegna þess að hæstv. fjmrh. hafi ekki ráðið við tillögugerðina. Ástæðan er sú, að hæstv. ríkisstj. kom sér aldrei saman og hefur ekki komið sér saman í marga mánuði um hvaða tillögur fjmrh. væri heimilt að flytja í hennar nafni hingað inn á Alþingi.

Að sjálfsögðu er þetta ekki ábyrg afgreiðsla á lánsfjárlögum, sem hér á að fara fram, og út af fyrir sig ekki hrósvert að Alþingi skuli afgreiða mál með þessum hætti, en það er ekkert við því að gera eins og mál standa í þinginu nú. Menn verða að taka þessa afgreiðslu á sig. Hins vegar vek ég athygli á því, að það hafa komið fram, bæði í þessari hv. deild og í hv. Ed., till. til þál. frá þremur stjórnmálaflokkum, þremur af fjórum sem eiga kjörna fulltrúa á Alþingi. Þessi till., sem væntanlega verður afgreidd nú á næstu sólarhringum, lýsir vilja þessara aðila til þess að Alþingi geti komið saman eigi síðar en 18 dögum eftir næstu kosningar. fyrst og fremst til þess að nýtt þing geti þegar í stað tekið til við úrlausn þeirra erfiðu efnahagsvandamála sem hafa beðið óleyst allt of lengi vegna þess að núv. hæstv. ríkisstj. hefur skort bæði afl og getu til að koma lausnum fram. Með tilvísan til þessa þingmáls, sem væntanlega verður afgreitt hér á næstu mánuðum, vil ég benda á að ætla má að nýtt Alþingi komi fljótlega saman aftur — með vorinu þannig að slíkt þing geti tekið þá afgreiðslu sem hér á að fara fram til endurskoðunar strax að 2–21/2 mánuði liðnum og gert þær breytingar á lánsfjárlögum, sem afgreidd yrðu nú, sem í ljós kæmi að þyrfti að gera til þess að hægt væri að standa að eðlilegri afgreiðslu mála til ársloka.

Herra forseti. Ég er ekki fleiri orðum um þetta að fara að þessu sinni. Ég er reiðubúinn að standa að þeirri bráðabirgðaafgreiðslu sem hér á að fara fram og hef greitt fyrir því að svo megi verða, en vísa enn og aftur til þess, að það er staðföst ætlun þriggja stjórnmálaflokka að nýtt Alþingi komi saman mjög fljótlega eftir að kosið hefur verið til þess m.a. einkum og sér í lagi að takast á við efnahagsvandann í þjóðfélaginu. Eitt af þeim atriðum sem þarf að skoða er að endurskoða þá atgreiðslu sem hér á að fara fram.