10.11.1982
Efri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

73. mál, stjórn flugmála

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hygg að þetta frv., sem við ræðum nú, horfi í ýmsu til bóta frá því sem nú er. Mér virðist um 5. gr. frv., þar sem talað er um verkefni flugmálastjórnar, sé tekið það sem máli skiptir og ég hef ekki hér fram að færa nú athugasemdir heldur við 8. gr. varðandi verkefni flugráðs.

Það kann að vera að sumt orki tvímælis, eins og hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Vesturl., kom inn á hvernig eigi að vera um tiltekna verkaskiptingu milli flugmálaráðh. og flugráðs. En við getum nefnt að sjálfsögðu ýmis dæmi sem bæði mæla með og á móti breytingu frá því sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Allt er þetta afstætt. Við höfum mismunandi samgrh. og kannske líka mismunandi flugráð.

En það sem ég hygg að stefni mest til bóta í þessu frv. er III. kaflinn varðandi flugmálaáætlun. Hæstv. ráðh. hefur hér lagt áherslu á þau miklu verkefni sem óunnin eru á vettvangi flugmálanna og hv. 5. þm. Vesturl. gerði það einnig. Það er algjör óþarfi fyrir mig að fara að ítreka það sem þeir sögðu í þessu efni. Ég vil aðeins segja það, að ekkert er ofmælt sem sagt hefur verið um þau brýnu verkefni sem bíði í þessu efni. Þess vegna er það fagnaðarefni að taka á upp skipulegri og markvissari vinnubrögð varðandi framkvæmd flugmálanna og flugvallamálanna en gert hefur verið.

Þetta frv. stefnir í þá átt. Að því leyti er ekkert nema gott um það að segja. En við skulum vona að þetta ákvæði muni reynast meira en umbúðir einar, heldur verði það í raun svo, að við getum mína markað veruleg tímamót í framkvæmd þessara mála, því að um langt skeið hefur flugmálunum verið sinnt allt of lítið. Að vísu vitum við að það er fjármagnið sem takmarkar aðgerðir. En í þessum efnum eins og svo fjölmörgum öðrum verðum við að velja og hafna. Ég tel að það hafi ekki verið gætt þess jafnræðis milli flugmálanna og annarra veigamikilla þátta sem við erum allir sammála um m.a. í samgöngumálum, hvað þá heldur ef lengra er litið.

Ég vildi hér sérstaklega víkja að einu atriði, sem hæstv. samgrh. kom að. Það er atriði sem varðar ákvæði til bráðabirgða. Eins og kom fram hjá hæstv. samgrh. er utanrrh. yfirmaður flugmála á Keflavíkurflugvelli. Það hefur verið svo lengi og frá upphafi eftir að núverandi skipan var tekin upp varðandi Keflavíkurflugvöll.

Það hefur verið litið svo á, að það væri rétt að öll mál á Keflavíkurflugvelli heyrðu undir utanrrh. Nú kom það fram hjá hæstv. samgrh. að svo mun ekki vera, því hann upplýsti að hann væri yfirmaður símamála a.m.k. á Keflavíkurflugvelli. Einhver undantekning er því frá þeirri reglu að allt heyri undir utanrrh.

Nú ætla ég hvorki að fara að mæla með eða móti þeirri skipan að Keflavíkurflugvellur heyri undir utanrrh. En það er annað sem skiptir miklu máli í þessu efni og það er hvernig fer með þá framkvæmd. Þó að utanrrh. fari með yfirstjórn Keflavíkurflugvallar er ekki sjálfgefið að flugmálastjóri annist ekki framkvæmd þessara mála þá í umboði utanrrh.

Nú er ekki gert ráð fyrir þessu í frv. nema að einhverju leyti eða kannske, ef maður gæti orðað það svo, að hálfu leyti. Í ákvæði til bráðabirgða er tekið fram að flugmálastjóri fari með tækni- og flugöryggissvið flugumferðarþjónustu Keflavíkurflugvallar í umboði utanrrh., en flugvallarstjórinn þar annist að öðru leyti stjórn flugmála á flugvellinum í umboði utanrrh., þar með talin fjármál og starfsmannahald flugumferðarþjónustu vegna Keflavíkurflugvallar.

Það vita allir, sem eitthvað hafa fylgst með þessum málum, að verið hefur mikill ágreiningur í röðum þeirra sem næst hafa staðið þessum málum varðandi þá skipan að flugmálastjóri hafi ekki alfarið farið með þessi mál á Keflavíkurflugvelli í umboði utanrrh. á sama veg og hann fer með þessi mál annars staðar í umboði samgrh. Hæstv. samgrh. vék einmitt að þessu í ræðu sinni áðan og benti á að komið hefði upp alvarlegur ágreiningur varðandi framkvæmd þessara mála vegna þess að þessi skipan er á. Hæstv. ráðh. vék m.a. að því, að það hefði verið ágreiningur um aðgang að tækjum á Keflavíkurflugvelli. Má af þessu marka, og var raunar vitað fyrr, að þetta ástand er algjör óhæfa. Hér er um svo þýðingarmikið framkvæmdaatriði að ræða að ekki má koma til árekstra í þessu efni, sem geta orðið til þess að veikja það öryggi sem við þarf að hafa varðandi notkun Keflavíkurflugvallar.

Hæstv. samgrh. vék í sinni ræðu að flugmálastjóra Agnar Kofoed-Hansen. Hann fór nokkrum orðum um störf hans og mikilvægi þeirra fyrir íslensk flugmál fyrr og síðar. Ég tek undir hvert einasta orð sem hæstv, ráðh. sagði um Agnar Kofoed-Hansen. Ég held að að öllum ólöstuðum hafi enginn einn maður unnið meira og betur fyrir íslensk flugmál en einmitt flugmálastjórinn. Ef við höfum þetta í huga, sem ég veit að við hæstv. samgrh. höfum í huga, ber okkur þá ekki að hlusta á það sem þessi maður, flugmálastjóri, segir um hin þýðingarmestu atriði varðandi framkvæmd og stjórn flugmála í landinu? Það er vitað og hefur alltaf legið fyrir, að flugmálastjóri hefur talið þetta ástand, þessa tvískiptingu í framkvæmd flugmálanna, sem hefur verið með tilliti til Keflavíkurflugvallar, óhæft skipulag. Það hlýtur að vera þungt þegar við ræðum þessi mál.

Ég verð líka að segja að mér fannst það sem hæstv. samgrh. sagði um þessi mál bera vott þess að hann væri ekki heldur ánægður með þetta skipulag. Hann leiðréttir mig ef þetta er ekki rétt skilið, en ég gat ekki skilið hans mál á annan veg. Og til áréttingar þessu sýnist mér koma fram í skýringum við bráðabirgðaákvæði þessa frv. að hæstv. ráðh. hafi ekki of mikla trú á því að sú skipan sem bráðabirgðaákvæðið gerir ráð fyrir sé sú besta.

Í skýringunum við bráðabirgðaákvæðið er talað um að hér sé gerð tilraun til að koma eðlilegu skipulagi á stjórn Keflavíkurflugvallar með lögákveðnum stjórnunarleiðum meðan utanrrn. fer með þennan þátt samgöngumála. Það er tvennt í þessu orðalagi sem ég hegg eftir. Það er í fyrsta lagi talað um að gerð sé tilraun til þessa. Látum svo vera, að það sé gerð tilraun, en mér virðist, eins og ég sagði áður, að hæstv. samgrh. hafi ekki mikla trú á þessari tilraun. Þá er hitt atriðið í orðalaginu á skýringum við bráðabirgðaákvæðið sem ég tók sérstaklega eftir. Sagt var að þessa tilraun skyldi gera meðan utanrrn. fer með þennan þátt samgöngumála. Má líta svo á, að hæstv. samgrh. sé með þessu að gera því skóna að þetta ástand verði tímabundið og kannske fyrr en við höfum gert ráð fyrir eða vitað um og utanrrn. láti af yfirstjórn Keflavíkurflugvallar?

Ég hef bent á þetta til að árétta það sem ég sagði, að mér virtist hæstv. samgrh. ekki hafa mikla trú á tvískiptingunni varðandi framkvæmd flugmála á Keflavikurflugvelli, sem ég hef rætt um. Ég vil hins vegar taka fram, að þó að hæstv. samgrh. hafi gefið þær upplýsingar að það sé ekki algild regla að hæstv. utanrrh. fari með öll mál á Keflavikurflugvelli, þá er ég með þessum orðum ekki að leggja til að við breytum nú, og allra síst í sambandi við afgreiðslu þessa frv., þeirri skipan að utanrrh. fari með mál Keflavíkurflugvallar. Hins vegar leyfi ég mér að spyrja hæstv. samgrh. að því: Hvað mælir á móti því að flugmálastjóri fari með framkvæmd allra flugmála á Keflavíkurflugvelli í umboði utanrrh.?