10.11.1982
Efri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

73. mál, stjórn flugmála

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir um stjórn flugmála felur í sér ýmis nýmæli. Ég mun ekki á þessu stigi málsins ræða mörg efnisatriði. Þó vil ég vekja athygli á því, að mér sýnist að frv. stefni í átt frá valddreifingu, sem hefur verið nokkur með því að hafa flugráð starfsamt og vera inni í málum á öllum stigum.

Það sem ég vildi helst ræða um er ákvæði til bráðabirgða um stjórn flugmála á Keflavíkurflugvelli. Ég er þeirrar skoðunar, að eðlilegra hefði verið að greina á milli, menn gerðu sér grein fyrir því hvernig væri best að festa niður það ástand sem ríkt hefur í þessum málum og gerðu sér grein fyrir því að annars vegar erum við að tala um flugmálastjórn alfarið á vegum íslenskra aðila og hins vegar flugmálastjórn sem lýtur að erlendum aðilum og að varnarliði því sem starfar á Keflavíkurflugvelli. Ég hygg að ákvæði til bráðabirgða sé skammtímalausn á þessu og menn þurfi að gera sér grein fyrir staðreyndunum.

Til þessa, eða frá því að varnarliðið kom, hefur stjórn flugmála á Keflavíkurflugvelli fallið undir utanrrh. og tel ég rétt að svo sé. Ég tel eðlilegt að svo sé vegna þeirra öryggissjónarmiða sem þar er að gæta.

Ráðh. minntist á það hér áðan, að það hefða verið einhverjir stirðleikar í samskiptum aðila, flugmálastjóra og svo aftur yfirstjórnar flugmála á Keflavíkurflugvelli. Mér er nú ekki kunnugt um þennan stirðleika frá hendi þeirra þar suður frá og mér skilst að staðið hafi opið að hafa fyllstu samvinnu um allt sem varðað hefur flugmál okkar Íslendinga. Hitt er annað, að flugmálastjóri hefur hvað eftir annað gert kröfu til að ráða yfir þessu öllu sjálfur og vegna þess að ekki hefur verið hlustað á það hefur hann sýnt af sér ýmiss konar stirðleika sem valdið hefur erfiðleikum.

Það er skammt síðan það varð sorglegt flugslys í nágrenni Reykjavíkur, sem vakti menn til umhugsunar um þessi mál, og þá vöknuðu menn upp við að e.t.v. hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta flugslys ef þeirra tækja hefði notið við sem til staðar eru á Keflavíkurflugvelli. Mér er kunnugt um að það hefur verið möguleiki á allan tímann að hafa afnot af þeim tækjum og veita þá þjónustu frá hendi Keflavikurflugvallar svo að flugvélar gætu notið hennar — þær flugvélar sem eru á því flugumsjónarsvæði sem flugmálastjóri hefur umráð yfir. Það mun ekki hafa verið þegið, að mér er sagt, en þegar þetta sorglega mál kom upp og umr. hófust um að þörf væri á slíkum tækjum hafði ráðh. gengið í að sætta aðila þarna. Út af fyrir sig er hægt að vera þakklátur fyrir það framlag. Hitt er annað, að eftir því sem ég best veit er framkvæmdin á þann undarlega hátt að fjórir starfsmenn annast tækin og þeir eru starfsmenn flugmálastjóra hér í Reykjavík og aka suður í Keflavik daglega til að sinna þessum störfum, — sem einn maður gæti auðveldlega sinnt, að því er mér er tjáð af þeim kunnáttumönnum sem gerst vita um þetta. Ég vildi vekja athygli á þessu og tel nauðsynlegt að fá skýringar ef þetta er rangt hjá mér, en ég hygg að svo sé ekki. Það er ekki furða þó að illa gangi sú framfarasókn sem menn ætla í flugmálum ef kostnaður þarf að vera slíkur sem þessi að óþörfu.

Svo nefndi hv. 5. þm. Vesturl. eitt dæmið og það var varðandi slökkviliðið hér á Reykjavíkurflugvelli, sem ég tel með ólíkindum að skuli vera til. Ég held að það hljóti að vera hægt með samvinnu að reka þetta sameiginlega með því að kaupa slíka þjónustu frá Reykjavíkurborg.

Ég hygg að það sé afar óeðlilegt að tala í þeim tón, sem hv. 4. þm. Vestf. gerði áðan, að það sé sjálfsagt að við göngum í öll þau tæki sem aðrir eiga. Það er ekkert sjálfsagt finnst mér. En hins vegar veit ég til þess að það liggja fyrir heimildir og boð um að gera það. Við skulum átta okkur á að þau tæki sem eru þar syðra eru ekki í eigu Íslendinga. En ég vil og taka það fram, að þeir aðilar sem þar stjórna hafa á allan hátt viljað veita þá þjónustu sem hefur komið okkur til góða og mundi koma okkur til góða og er það vissulega þakkarvert.

Það má út af fyrir sig segja að eðlilegt sé að flugumsjón sé á einni hendi. En á meðan það ástand ríkir að við erum með varnarlið í landinu verðum við að huga að því að þar eru öryggissjónarmið uppi einnig, og meðan svo er tel ég eðlilegt að þessi þáttur flugmálanna sé undir rn. utanrrh. og treysti því. að svo verði áfram.