11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2909 í B-deild Alþingistíðinda. (2935)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það eru víst orð að sönnu, sem standa í nál. frá minni hl. fjh.- og viðskn. Nd., að það ríki sérstæðar aðstæður: Eins og hv. Ed. er kunnugt er meiningin sú, að lánsfjáráætlun verði lögð fram með fjárlögum, en hún er alls ekki lögð fram og þetta lánsfjárlagafrv. með margvíslegri vansmíð.

Eins og kemur fram í fskj. með brtt. frá Halldóri Ásgrímssyni er áætlað að innlend lánsfjáröflun verði um 200 millj. lægri en gert hafði verið ráð fyrir í sambandi við fjárlög. Það kemur reyndar líka fram í þessum gögnum og hafði komið fram í n., að þau lánsloforð sem ríkisstj. hefur þegar veitt til fjárfestinga í atvinnurekstri væru um 500–600 millj. kr. hærri en gert væri ráð fyrir í frv. til lánsfjárlaga. Þetta verða að teljast mjög sérstæðar aðstæður.

Við höfum verið þeirrar skoðunar, Alþfl.-menn, að það bæri nauðsyn til að skoða þessi lánsfjárlög mjög vandlega og að þingið ætti að afgreiða þau með eins eðlilegum og réttum hætti og frekast væru tök á og taka til þess þann tíma sem þyrfti. Það er nóg vandræðaástand í þjóðfélaginu þó að lánsfjárlög séu ekki líka afgreidd til bráðabirgða, eins og hefur verið gert í Nd. þingsins. Reyndar kemur fram þversögn og stefnuleysi í því að afgreiða frv. til lánsfjárlaga, sem greinilega er ekki í neinu samræmi við þau loforð og þær yfirlýsingar sem ríkisstj. hefur gefið. Ef hugmyndin er sú, að fjárfestingin verði þessu minni í atvinnuvegunum og verði að ganga á bak einhverra þeirra vilyrða sem hafa verið gefin, þá verður auðvitað að gera ráðstafanir til að ógilda ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar af hálfu ríkisstj. Öðruvísi er gagnslaust að vera með svo lága tölu fyrir þennan lið í frv. til lánsfjárlaga. Þá væri ekki hægt að standa við þær tölur sem hér er verið að tala um að séu nauðsynlegt markmið fyrir þetta ár, og ekki skal það dregið í efa. Það er álit okkar Alþfl.-manna líka að takmörkun á erlendum lántökum og stöðvun á skuldaaukningu í erlendum lánastofnunum sé brýnt nauðsynjamál. Ef þetta frv. til lánsfjárlaga verður afgreitt í þeim búningi sem það er í nú, án þess að grípa til þess að skera frekar niður í opinbera geiranum eða ógilda ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar af hálfu ríkisstj., þá mun þetta markmið ekki nást, þá er þetta plagg ekki til mikils.

Mér sýnist líka, herra forseti, að það gæti verulegrar þversagnar í nál. frá minni hl. fjh.- og viðskn. Nál. hefst á því, sem er nú viðtekin venja að segja og margir taka undir þótt illa gangi að standa við það, að við ríkjandi aðstæður eigi að takmarka erlendar lántökur til hins ítrasta. Um miðbik plaggsins er bent á að lántökur þessar, sem áformaðar eru í frv., séu eitthvað vanáætlaðar. Ég tel 500–600 millj. kr. vanáætlun æðimikið.

En undir lok þessa álits frá minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. er það fært fram sem rökstuðningur fyrir þeirri skemmri skírn sem hér er verið að gera, að með þessu móti sé gert ráð fyrir að leita eftir heimildum til viðbótar í lántökum síðar á árinu. Upphafið fjallar um að það þurfi að takmarka lántökurnar og þess vegna séu hér fluttar svo litlar niðurskurðartillögur, sem eru ekki mjög stórtækar, en niðurlagið fjallar um að þessi háttur afgreiðslunnar sé til þess að menn geti leitað eftir viðbótarlántökum síðar á árinu. Þá eru markmið fjmrh. og nefndarinnar fokin út í veður og vind.

Á þessu vildi ég vekja athygli, herra forseti, nú þegar við 1. umr. um þetta mál.