10.11.1982
Efri deild: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

73. mál, stjórn flugmála

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. talaði hér áðan. Ég skal ekki fara út í einstök atriði þess sem hann sagði.

Mér þykir þó ástæða til að koma að einu sem fram kom í hans ræðu. Hann sagði að ég hefði látið orð að því liggja að það væri sjálfsagt að við gengjum í öll þau tæki sem væru á flugvellinum. Þetta sagði ég ekki og ég sagði ekkert í minni ræðu sem gefur tilefni til að gera mér upp þessi orð. Þess vegna vildi ég leiðrétta það.

Hæstv. samgrh. vék að eignarhaldi á þessum tækjum. Ég vil gera hans orð að mínum því að ég hef haldið að Íslendingar ættu þessi tæki. Ef þeir eiga þau ekki er kominn tími til þess að við eigum óskoraða eignaraðild að þeim.

Hv. 3. landsk. þm. sagði að það væri eðlilegt að mál Keflavíkurflugvallar heyrðu undir utanrrh. Þetta er hans skoðun. Ég sagði hins vegar að ég gerði það ekki að tillögu minni að gerð yrði breyting í þessu efni. Ætli ég sé ekki nokkuð sammála því sem hæstv. utanrrh. sagði um þetta efni. Það má endalaust deila um hvort utanrrh. skuli fara með mál Keflavíkurflugvallar, eins og hæstv. utanrrh. sagði. Ég hygg að það sé. En í þessum umr. hef ég ekki gert það atriði að umtalsefni undir hvaða ráðh. völlurinn heyrði, heldur hitt. að flugmálastjóri fari með öll mál Keflavíkurflugvallar sem varða flugmál. Hæstv. utanrrh. sagði um það efni að ekkert væri því til fyrirstöðu að svo væri. Það er náttúrlega ákvörðunarefni hvað gera skal í því efni. En mín skoðun er sú, að það sé rétt að svo sé og á það benti ég í fyrri ræðu minni í þessum umr.

Hæstv. utanrrh. sagði að það væri ekki rétt að gera mikið úr ágreiningi sem hefði verið milli starfsmanna flugmálastjóra annars vegar og flugvallarstjóra hins vegar á Keflavíkurflugvelli. Það kann að vera. Það sem ég sagði um þetta efni var aðallega fólgið í því að taka undir það sem hæstv. samgrh. hafði sagt um það efni. Mér sýnist enn frekar eftir það sem hæstv. samgrh. sagði í síðari ræðu sinni ekki ástæða til að horfa alveg fram hjá þessum þætti, þ.e. þeim ágreiningi sem orðið hefur.

Hæstv. utanrrh. ræddi nokkuð um fjárveitingar til flugvallarins og gat þess, að Íslendingar hefðu ekki lagt fé til flugvallarins. Hæstv. utanrrh. vék líka að því áhugamáli okkar margra að koma upp flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Það er ekkert nema gott um það að segja að hæstv. utanrrh. noti tækifærið í þessum umr. til að undirstrika það mál. En ég sé enga ástæðu til þess að ræða frekar um það, enda er enginn ágreiningur í þessum efnum milli mín og hæstv. utanrrh.

Hæstv, samgrh. sagði að það hefði verið rangt sem vinstri stjórnin gerði, stjórn Ólafs Jóhannessonar, að sameina flugfélögin. Ég er hæstv. samgrh. sammála um þetta. hetta er eitt af því sem sú ríkisstj. gerði rangt. En jafnvel þó að um sé að ræða loforð vinstri stjórnar, eins og þau sem gefin voru hinu nýja félagi þegar sameiningin var gerð, verður, jafnvel þó um loforð vinstri stjórnar sé að ræða, að taka tillit til þess sem lofað hefur verið. Ég vil benda hæstv. samgrh. á það.

Hæstv. samgrh. er sammála okkur hæstv. utanrrh. um að það geti verið hvort heldur, að við höldum áfram þeirri skipan sem nú er, að utanrrh. fari með mál Keflavíkurflugvallar, eða að við breytum. Ég held að við séum sammála um þetta. En þetta er ekki meginþráðurinn í því sem ég hef verið að segja, heldur hitt, sem ég spurði hæstv. samgrh. um og hann svaraði ekki, hvað mæli gegn því að flugmálastjóri fari með öll flugmál Keflavíkurflugvallar. (Sjútvrh.: Ég kom að því og sagði að gegni því mælti ekkert.) Hæstv. ráðh. segir úr sæti sínu að ekkert mæli gegn því. En þá er ég reiðubúinn að koma með aðalspurninguna: Vill hæstv. ráðh. þá beita sér fyrir því, að í meðferð þessa máls verði bráðabirgðaákvæðinu breytt á þann veg að flugmálastjóri fari með öll flugmál á Keflavíkurflugvelli? Ég hef ástæðu til að spyrja hæstv. samgrh. að þessu. Ég tel mig hafa fært sterk rök fyrir því að það eigi að gera þetta og ég tel mig hafa sýnt fram á að hæstv. samgrh. sé ekki ánægður sjálfur með aðra skipan. Ég spyr því: Vill hæstv. ráðh. beita sér fyrir því að koma á þeirri skipan að flugmálastjóri fari með öll flugmál á Keflavíkurflugvelli?