11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2913 í B-deild Alþingistíðinda. (2952)

Um þingsköp

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tala nema um þingsköp þó að hér hafi verið farið út fyrir þingskapaefni.

Það er ekki hægt að láta ómótmælt skýringum hæstv. viðskrh. á túlkun stjórnarskrárinnar um það, að ekki sé heimilt fyrir Alþingi að setja lög um það hvenær Alþingi kemur saman. Það vill svo til, og ætti ekki að þurfa að minna á það, að í 35. gr. stjórnarskrárinnar er tekið fram hvenær Alþingi kemur saman, en jafnframt að þessu megi breyta með lögum. Nú kemur Alþingi saman ár hvert, en ekki samkv. beinum ákvæðum stjórnarskrárinnar um það heldur samkv. lögum frá 1967, þannig að allt tal hæstv. viðskrh. um þetta efni virðist mér vera út í hött. (viðskrh.: Reglulegt Alþingi.) Reglulegt Alþingi, segir hæstv. ráðh. Ég vitnaði til 35. gr. stjórnarskrárinnar og þar er talað um reglulegt Alþingi.

En hæstv. ráðh. virðist vera að gera því skóna að annað gildi um aukaþing og ákvæði um það eru í 22. gr. stjórnarskrárinnar. Ég skal ekki fara að deila hér um hver er réttur skilningur á því, en tel persónulega að það samrýmist ekki annað stjórnskipun og anda stjórnarskrárinnar en að Alþingi geti tekið ákvörðun um að mæta til aukaþings. (Utanrrh.: Hvað segir um þetta í 22. gr.?) Það segir í 22. gr. að forseti lýðveldisins kveðji Alþingi til aukafundar þegar nauðsyn ber til, hæstv. utanrrh. Það segir líka í 22. gr., ef ég má minna hæstv. ráðh. á það: „Forsetinn stefnir saman Alþingi ár hvert og ákveður, hvenær því skuli slitið.“ Það er þegar um reglulegt Alþingi er að ræða.

Ég sagði að ég ætlaði ekki að fara hér út í deilur um hvort leyfilegt sé samkv. stjórnarskránni að setja lög um að Alþingi komi til aukafunda, en ég hef sagt mína skoðun í því efni. En þetta skiptir bara ekki máli varðandi þá till. sem hér á að taka til umr. Þar er um að ræða þáltill., en ekki frv. að lögum, þannig að allt tal hæstv. viðskrh. er þess vegna út í hött. En aðalatriðið hjá honum virtist mér — og þá var honum mest niðri fyrir - þegar hann var að tala um hvað byggi á bak við þessa þáltill., en umr. um það eru ekki umr. um þingsköp svo að ég skal ekki fjölyrða um það.