11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2914 í B-deild Alþingistíðinda. (2953)

249. mál, samkomudagur Alþingis

Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Á þskj. 562 höfum við fimm þm. flutt till. þess efnis, að Alþingi lýsi yfir þeim vilja sínum að þing verði kvatt saman eigi síðar en 18 dögum eftir að næstu kosningar hafa farið fram. Flm. þessarar till. eru þeir þm. sem þrír flokkar, Alþb., Alþfl. og sjálfstfl., völdu til að sitja í stjórnarskrárnefnd hv. Ed.

Í þeim umr. sem farið hafa fram milli flokkanna á undanförnum vikum hefur komið skýrt fram að það var ríkur vilji til þess að þing kæmi saman fljótlega að loknum kosningum. Þessi skoðun kom fram á viðræðufundum formanna flokkanna. Hún kom einnig fram á sameiginlegum fundum stjórnarskrárnefnda beggja deilda þessa þings.

Það hefur jafnframt komið fram að einn stjórnmálaflokkur hér á Alþingi er ekki reiðubúinn að lýsa vilja sínum í þessu efni, að þing komi saman fljótlega eftir kosningar, en þrír aðrir flokkar telja nauðsynlegt að það komi saman.

Rétt er að vekja athygli á því, að ef fylgt væri reglubundnum hætti með þinghald mundi liða rúmlega hálft ár frá því að þessu þingi lýkur og þar til nýtt þing kæmi saman 10. okt. Ég held að það séu margir áratugir síðan svo langur tími hafi liðið milli þinghalds. Starfshættir Alþingis á okkar dögum og krafa þjóðarinnar um aukið og reglubundið þinghald samrýmist á engan hátt því, að það liði rúmlega hálft ár frá því að þing lýkur störfum nú og þar til það kæmi saman aftur í haust. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning um það efni hafa þessir þrír flokkar því talið nauðsynlegt að lýsa yfir þeim vilja sínum að þing kæmi saman innan 18 daga eftir að næstu kosningar hafa farið fram svo að tryggt sé að þinghaldið verði með eðlilegum hætti.

Það eru mörg verkefni sem bíða næsta þings. Það hefur verið vakin athygli á því úr þessum ræðustól fyrr í dag af hæstv. viðskrh. að það þurfi að mynda ríkisstjórn í þessu landi. Formaður Framsfl. hefur lýst því yfir hvað eftir annað að það sé eitt fyrsta verkefnið eftir kosningar að mynda nýja ríkisstjórn. Er rétt að vekja athygli á að það voru ráðh. Framsfl. sem fyrstir hófu það tal opinberlega að mynda þyrfti nýja ríkisstjórn að loknum kosningum. Hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson hefur einnig lýst því yfir að hann telji rétt að ríkisstj. segi af sér strax að loknum kosningum. Það er á margan hátt eðlilegt að þing komi þá saman fljótlega eftir kosningar, fyrst svo víðtækar skoðanir eru uppi, eins og fram hefur komið hjá hæstv. ráðh. sjálfstfl. og Framsfl. í þessari ríkisstj., um að það þurfi að mynda nýja ríkisstj.

Jafnframt er ljóst að fjölmörg vandamál á sviði efnahagsmála og atvinnumála bíða úrlausnar. Það væri í hæsta máta óeðlilegt að ráða þeim til lykta með brbl. í apríl- eða maímánuði og láta svo liða til október- eða nóvembermánaðar þar til nýtt þing fengi tækifæri til að fjalla um þau. Vegna ástandsins í efnahags- og atvinnumálum og þeirrar nauðsynjar að setja lög um þau efni, sem gerðu kleift að framkvæma aðgerðir til úrbóta í efnahags- og atvinnumálum, er þessi till. flutt.

Síðast en ekki síst hefur það verið venja við tvennar undanfarnar breytingar á kjördæmaskipun og stjórnarskrá, bæði 1959 og 1942, að Alþingi kæmi saman fljótlega á eftir til að fjalla um ný kosningalög í samræmi við þær breytingar. Þessir þrír flokkar telja því eðlilegt að þeim hætti verði einnig fylgt nú.

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. þarf flutningur þessarar till. ekki að koma á óvart. Efni hennar hefur verið marglýst í viðræðum á milli flokkanna á undanförnum vikum og mánuðum. Þess vegna höfum við talið eðlilegt að flytja þessa till. hér og nú.