11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2926 í B-deild Alþingistíðinda. (2956)

249. mál, samkomudagur Alþingis

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki með mér mjög stóran bunka af blöðum hingað upp vegna þess að ég hef ekki lagt í vana minn að tefja svo mjög störf þings. Mér hefur nú skilist þessa allra síðustu daga að mönnum liggi ýmislegt á hjarta og hafi viljað svo mjög þoka ákveðnum málum áleiðis, en þeir sem hæst hafa talað í þeim efnum og gert mestar kröfurnar til þess eru sömu mennirnir og hafa hvað eftir annað og æ ofan í æ tafið störf þingsins með málæði utan dagskrár. Þar á ég fyrst og fremst við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson.

till., sem hér liggur fyrir, er út af fyrir sig merkileg till. Þarf ekki mörgum orðum um hana að fara frekar því það hefur verið gert af þeim sem hafa talað á undan mér. En eitt vekur þó sérstaka athygli mína í þessari tillögu. Það er það, að af fimm flm. þessarar þáltill. sýnist mér að þrír og þó trúlega fjórir af þessum hv. þm. muni ekki koma til með að sitja á Alþingi eftir næstu kosningar. Það segir mér nokkra sögu hvers lags ofurkapp er lagt á að binda samkomudag Alþingis nógu rækilega. Ég sé ekki betur og ég heyri ekki betur en e.t.v. muni aðeins einn af flm. þessarar till. sitja á Alþingi eftir kosningarnar í apríl. Ég sé því glöggt og við sjálfsagt öll hvað vakir fyrst og fremst fyrir hv. flm. Það er að það verði gengið svo tryggilega frá að kosið skuli aftur og það sem allra fyrst í von um að þá verði eitthvað skárra fiskirí og kannske verði hægt að fleyta einhverjum af þessum fallkandídötum inn á þing að nýju. En ég verð að segja að mér finnst það sjálfum, þennan stutta tíma sem ég er búinn að starfa í Alþingi, alveg skaðlaust fyrir Alþingi þó að eitthvað af þessum mönnum biði utan þings einhvern tíma. Ég held að menn verði bara að hafa biðlund og biða. Það verður kannske kallað til þeirra seinna, en mér finnst að það eigi að hafa sinn eðlilega framgang. Ég tala nú ekki um hvað það er miklu skynsamlegra að láta þá bíða fyrir utan og vinna heldur að því að það verði mynduð sterk ríkisstjórn í þessu landi. sem vill og þorir að takast á við þau vandamál sem úrlausnar bíða.

Hins vegar er það ljóst orðið öllum í þessum þingsölum og náttúrlega þjóðinni allri, sem hefur fylgst með fréttum af Alþingi. hvað hér er að gerast. Hér er verið að mynda nýja ríkisstjórn og þátttakendur í henni eru Sjálfstfl.. Alþb. og Alþfl. Það er ekkert vafamál að þessir flokkar ætla sér að taka höndum saman að afloknum kosningum i apríl og mynda stjórn. Það fer kannske ekkert illa á því. það er stutt öfganna á milli, og það kemur manni svo sem ekkert á óvart. Svo langt er þetta komið að formaður þingflokks Alþb. gefur það út í Sþ. hvað standi til í herbúðum Sjálfstfl.. þeir séu í óða önn að undirbúa kosningastefnuna, og hann segir okkur frá því í þinginu hverjir það eru úr liði Sjálfstfl. sem muni taka þátt í að undirbúa kosningabaráttu Sjálfstfl. Gríðarlega er formaður þingflokks Alþb. kominn langt til Sjálfstfl.

Aðalatriðið finnst mér í þessu máli vera að að afloknum kosningum verði mynduð ríkisstjórn sem styðst við meiri hl. á Alþingi — stjórn sem vill og þorir að takast á hendur þá ábyrgð sem þarf. Það eru þeir þm. sem kosnir verða í apríl sem eiga að taka ákvarðanir um framvindu mála þá. en ekki menn sem eru að láta af þingmennsku nú.