11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2933 í B-deild Alþingistíðinda. (2961)

249. mál, samkomudagur Alþingis

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það hefur vakið athygli mína í þessum umr. að málflutningur okkar framsóknarmanna hefur beinst að því að sýna fram á að samkv. stjórnarskránni stefnir forseti saman Alþingi að sjálfsögðu með atbeina forsrh. Ég hef ekki orðið var við að tillögumenn þessarar till. hafi tjáð sig um þetta efni þegar við höfum gagnrýnt að það væri allt að því verið að grípa fram í fyrir hæstv. forseta lýðveldisins með þessum hætti. Ég lít svo á, að þessi gagnrýni af okkar hálfu, þegar höfð er í huga þögn hv. flm., eigi við fyllstu rök að styðjast og þeir geri sér nú ljóst, þegar þeir fara að hugsa og athuga málið, að það er á verksviði forseta lýðveldisins að stefna Alþingi saman, en ekki Alþingis. Alþingi getur gert þetta óbeint með því, eins og ég orðaði það áður, að búa til nýjan forsrh. Þó það standi ekki berum orðum í stjórnarskránni að forsrh. leggi til við forseta hvenær Alþingi komi saman er það samt viðtekin stjórnskipuleg venja og ég tek eftir því að í frv. hæstv. forsrh. að nýrri stjórnarskrá er þetta skýrum orðum tekið fram. Þess vegna er það að menn hafa talið að það búi eitthvað annað og meira undir þessari till.-gerð, það sé annað og meira á bak við þessa till.-gerð, sem sé fólgið í því, að meiningin sé að mynda stjórn og auðvitað verður þá nýr forsrh., hvort sem það verður hæstv. núv. forsrh. eða einhver annar, til þess að leggja til við forseta hvenær Alþingi verður kallað saman.

Ég tók eftir því að hv. 5. landsk. þm. gerði að umræðuefni till.-flutninginn að formi til og sagði að það væri meiningin, eins og hann orðaði það, að eftir að till. yrði samþykkt hér í hv. Ed. yrði henni vísað til Nd. En hann sagði hins vegar að það hefði engum lifandi manni dottið í hug að till. sem er nákvæmlega eins og flutt er í Nd. yrði vísað til Ed. Þá er mér spurn: Til hvers voru till. fluttar í báðum deildum? Hver var ástæðan fyrir því? (EKJ: Að þær væru í báðum deildum og spara tíma.) Hver er ástæðan fyrir því? Það hefði mátt spara tíma með því að flytja þær í einu lagi og í einni till. í Sþ., en þar á auðvitað till. af þessu tagi heima, ef hún á yfir höfuð nokkurs staðar heima hér á Alþingi.

Ég vil leyfa mér að beina þeirri spurningu til hv. 5. landsk., og óska eftir því að hann svari henni úr ræðustól, en ekki innan úr hliðarherbergjum, hvort það sé vilji Sjálfstfl. að standa fyrir tvennum kosningum í sumar. Hann svari henni hreinskilnislega, hvort Sjálfstfl. ætti sér að standa fyrir tvennum alþingiskosningum í sumar, öðrum væntanlega seinni partinn í apríl og hinum sjálfsagt í júlímánuði eða hvenær sem það nú verður. (Gripið fram í.) Ég vil beina þessari spurningu til hv. þm. og óska eftir að hann svari henni héðan úr ræðustól. Ef hann svarar henni ekki — (EgJ: Vekur það grunsemdir?) Já. Ef hann snýr út úr spurningunni vekur það grunsemdir. Jafnvel hv. þm. kemur auga á þetta. (EgJ: Ég var bara að aðstoða ráðh. við að orða hugsanir sínar.) Þá vekur það grunsemdir um að þarna sé hundurinn grafinn. Ég beini þessari spurningu formlega til hv. þm. og til þess að þurfa nú ekki að taka aftur til máls mun ég túlka svar hans, ef það verður ekki afdráttarlaust og ég tala nú ekki um ef hann svarar spurningunni alls ekki, á þá leið að það sem vakir fyrir Sjálfstfl. sé að halda tvennar kosningar, aðrar í vor og hinar í sumar.